25.10.1943
Efri deild: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

48. mál, verðlag

Frsm. (Haraldur Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég skal geta þess, að þegar n. afgreiddi þetta frv., voru ekki nema þrír nm. á fundi. Mér er því ekki kunnugt um afstöðu hinna tveggja til málsins, en það kemur væntanlega fram nú. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var upphaflega flutt á þskj. 60 og hét þá frv. til l. um bráðabirgðaafnám á valdi mjólkurverðlagsn. og kjötverðlagsn. til þess að ákveða útsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum — og kjöti og sláturafurðum. Samkvæmt till. landbn. Nd. var frv. breytt í það form, sem það hefur nú á þskj. 155, og heitir það nú frv. til l. um breyting á l. nr. 3 13. febr. 1943, um verðlag. Efnið er þó hið sama að öðru en því, að skemmra er gengið í einstökum atriðum að forminu til. Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að meðan það verð á landbúnaðarafurðum er í gildi, sem ákveðið var í sex manna n., skuli þrátt fyrir ákvæði síðasta málsliðar 1. gr. þessara l. útsöluverð þeirra vörutegunda, sem mjólkurverðlagsn. og kjötverðlagsn. ákveða verð á, vera háð samþykki viðskiptaráðs. Þessir þrír nm. eru sammála um, að ástæðulaust sé, að mjólkurverðlagsn. og kjötverðlagsn. ákveði útsöluverðið, á meðan fyrrnefnt verðlag er í gildi, og leggja því til, að frv. verði samþ. eins og það er komið frá hv. Nd.