25.10.1943
Efri deild: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

48. mál, verðlag

Eiríkur Einarsson:

Af því að ég var ekki viðstaddur, þegar þetta mál var fyrst tekið til meðferðar, þar sem ég var forfallaður, vil ég lýsa afstöðu minni, sem er sú, að ég get fallizt á þetta álit meiri hl. n. eins og það er, svo að ég mundi hafa bætzt þar við sem fjórði maður, hefði ég verið á fundi n. Ég þarf í rauninni ekki fleira að segja um málið, en vil taka það fram, að þar sem tiltekið er, að umgetið verðlag skuli vera háð samþ. viðskiptaráðs, þá hlýtur viðskiptaráð að hafa úrskurðarvald, ef ekki verður samkomulag milli þess annars vegar og mjólkurverðlagsn. og kjötverðlagsn. hins vegar, og þar með er í rauninni óbeint sagt, að þeirra valdsvið sé ekki orðið annað en bókstafurinn einn. Frá sumra manna sjónarmiði gæti ríkt vafi um þetta nýja viðhorf, þó að ekki væri kannske beinlínis um réttmæti þessa ákvæðis, ef út af ber. En það er ekki hægt að setja þetta fyrir sig, og ég er ekki kominn til neinnar yfirlýsingar um það, hvað bezt muni henta, en ég vil segja það, að verði ágreiningur á slíkum atriðum sem þeim, er ég hef getið um, verður ekki um það deilt, að einhvers staðar verður valdið að vera. Get ég því fallizt á frv. eins og það er, enda þótt vafi geti verið um þetta nýja viðhorf.