14.09.1943
Neðri deild: 15. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

39. mál, vegalög

Flm. (Jón Sigurðsson) :

Eins og kunnugt er, hefur ófriðurinn og það ástand, sem hann hefur skapað, valdið ýmsum erfiðleikum í framkvæmd vegamálanna. Sérstaklega er það áberandi, hve örðugt er að fá þann mannafla, sem þurft hefur til vegagerða, nýbygginga fyrst og fremst. Á hinn bóginn hefur herstjórnin flutt inn tæki og vélar til vegagerðar, og hefur það opnað augu okkar betur en nokkru sinni fyrr fyrir því, hverja þýðingu það gæti haft fyrir okkur að nota slík tæki hér á landi. Mér er kunnugt um, að það er nú svo komið á ýmsum stöðum á landinu, að miklir örðugleikar eru á að vinna að sýsluvegum fyrir það fé, sem heimilað er af sýslunefndum og átt hefur að vinna fyrir, af því að mannafli var ekki til staðar. Bændur, sem allajafna á undanförnum árum hafa lagt til menn í þessa vegagerð, hafa vegna fólksfæðar á heimilunum ekki getað misst neinn til að sinna þessum nauðsynjastörfum fyrir sveitirnar.

Það er vegna þessa vandræðaástands, sem er að skapast fyrir sýslunefndirnar á ýmsum stöðum á landinu, að þetta frv. er fram borið. Eins og segir í grg., er ætlazt til þess, að ríkisstj. leggi á móti til kaupa á slíkum vélum, sem um ræðir og talið er, að sérstaklega komi að notum. Skal það framlag vera hlutfallslegt við það, sem hann leggur annars til vegagerða. Með því að fara þessa leið er ýtt undir, að sýslunefndir fái sér slík tæki svo fljótt sem kostur er og noti þau. Ég skal benda á það, — og ég styðst við upplýsingar, sem ég hef aflað mér —, að það eru mjög miklar líkur til þess, að ef valdar væru léttustu tegundir af þessum beltabifreiðum, sem notaðar eru, þá mundi vel mega sameina þessi störf fyrir sýslunefndir og svo fyrir landbúnaðinn, þannig að búnaðarfélögin nytu þessara véla á þeim tíma, þegar ekki eru ástæður til þess að nota þær við vegagerð og það þykir henta. Ég hygg hentugt að samræma þetta. Ég tel fullar líkur til þess og enda víst, að í flestum héruðum mundi verða nægilegt verkefni fyrir slíkar vélar. Þar með þokar ekki einasta vegamálum okkar stórlega áleiðis, heldur yrði líka stigið stórt spor í þá átt að fá öll okkar tún slétt og véltæk, sem við að sjálfsögðu eigum að keppa að. En þetta atriði er nú meir til íhugunar en að það liggi beint fyrir. Ég bendi hér aðeins á, að hér er verkefni, sem áreiðanlega er hægt að sameina, ef vélar eru valdar með það fyrir augum, verkefni, sem nauðsynlegt er, að unnið verði í hverju einasta héraði hér á landi.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en óska, að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.