11.10.1943
Neðri deild: 30. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

39. mál, vegalög

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. Samgmn. þessarar hv. d. hefur haft þetta frv. á þskj. 49 til meðferðar og tekið það til sérstakrar athugunar, að því er það snertir, hvernig kæmi niður sú aðstoð, sem ætlazt er til samkvæmt frv., að ríkið veiti sýslufélögum, eftir að sýslunefndir hafa fengið heimild til þess að ákvarða, að nokkuð af því fé, sem sýslan leggur til vegamála, megi ganga til kaupa á vélknúnum tækjum til vegagerða í sýslunni. N. fellst á, að þessi heimild sé gefin, en vill bæta því við, að reit þyki og sanngjarnt, að sýslusjóðir standi jafnt að vígi um hluttöku ríkissjóðs í kostnaði við vélakaup til vegagerða, hvort sem þær sýslur hafa stofnað hjá sér sýsluvegasjóði eða ekki. Eins og kunnugt er, hafa þessi ákvæði l. um sýsluvegasjóði verið hagnýtt víðar en á horfðist í fyrstu. Þær sýslur munu vera í minni hluta, sem hafa ekki neytt heimildarinnar um að mynda sýsluvegasjóði hjá sér. Það er ætlazt til þess í frv. og brtt. samgmn., að ef vegamálastjóri telur ráðlegt að kaupa þessar vélar fyrir tilteknar sýslur, þá greiði ríkissjóður helming verðs þeirra á móti sýslufélaginu í hverju tilfelli. En samkvæmt ákvæðum l. um sýsluvegasjóði mundi þetta ekki verða eins mikil hjálp í sumum kringumstæðum eða jafnvel öllum kringumstæðum fyrir þau sýslufélög, sem hefðu sýsluvegasjóði hjá sér, eins og fyrir hin, sem hafa þá ekki, sem þá gætu fengið fullan helming verðs þessara tækja greiddan úr ríkissjóði samkv. frv. Þess vegna telur n. rétt, að þessi 2. málsgr. í 1. gr. frv. falli burt, því að þessi málsgr. gerir ráð fyrir, að þessi styrkur ríkissjóðs til vélakaupanna fari eftir ákvæðum sýsluvegasjóðsl., en þau ákvæði eru þannig, að ekki er gert ráð fyrir framlagi ríkissjóðs til sýsluvegasjóða, fyrr en þeir eru komnir upp í vissa upphæð.

Samgmn. leggur til, að frv. verði samþ. með því, að þessi málsgr. verði felld niður, eins og sjá má með samanburði á frv. og brtt. n., en að öðru leyti haldist ákvæði frv. óbreytt.