11.10.1943
Neðri deild: 30. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

39. mál, vegalög

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. N.-M. óskaði eftir að fá skýringar á því, hvernig frv. þetta væri hugsað, og um tilganginn með því. Hann talaði um, að sú stefna væri uppi að koma sem flestum vegum yfir á ríkið, og það er rétt, sú stefna hefur verið ríkjandi. Þó held ég, að öllum ætti að vera ljóst, að alltaf verður eitthvað til af sýsluvegum, það verður ekki unnt að koma öllum vegum yfir á ríkið.

Frv. þetta þarf náttúrlega ekki mikilla skýringa við fram yfir það, sem það felur í sér ásamt grg. þess. Ef grg. er lesin, þá verður manni ljóst, hver tilgangurinn með því er.

Hv. 2. þm. N.-M. talaði um það, að vélknúin tæki til vegagerða séu svo dýr, að tæplega muni vera hægt að nota þau við gerð sýsluvega, sem séu stuttir, og þar sem sýslurnar hafi yfir litlu fé að ráða til lagningar þeirra, og hv. þm. álítur, að ekki borgi sig að nota þessar vélar við vegagerð nema þar, sem hægt er að láta vinna í einu á sama stað fyrir um 100 þús. kr., og hefur hann þetta eftir vegamálastjóra, skildist mér hann segja. Nú ætla ég ekki að draga það í efa, að þetta viðtal milli hans og vegamálastjóra hafi átt sér stað. En það, sem mér þykir samt ótrúlegt, er, að það geti ekki borgað sig að koma við tiltölulega einföldum vegavinnuvélum, nema unnið sé margar vikur eða jafnvel mánuði á sama stað. A. m. k. sumar þessar vélar, sem notaðar eru til vegagerða, eru ekki svo þungar eða fyrirferðarmiklar í flutningi, að það sé tiltölulega erfitt að færa þær úr stað. T. d. vélar, sem notaðar eru til þess að moka á bíla, eru tiltölulega fyrirferðarlitlar og léttar, og það er tiltölulega auðvelt að flytja þær á milli staða. Og þó að við hugsum okkur ekki, að um aðrar vélar sé að ræða til að nota í sýsluvegum en þessa einu tegund, þá fullyrði ég, að það mundi svara kostnaði að gera það, því að þar sem bílar eru notaðir til þess að aka ofan í vegi, er ámoksturinn tiltölulega dýrastur af vinnunni við vegagerðina. Það að hafa marga menn til þess að moka á bílana, sem svo liggja verklausir á milli þess, sem bílarnir eru í gryfjunni, það er það dýrasta við vegagerðir. Ef sýslufélag, þar sem margir sýsluvegir væru, ætti svona vél til umráða til þess að moka á bíla, þá gæti ég hugsað mér, að það margborgað sig að flytja þessa tiltölulega litlu vél á milli staða í sýslunni, þar sem vegirnir væru lagðir, til að nota hana við ámokstur. Við það mundi sparast mikið fé og afköstin aukast til muna. Og jafnvel þótt aðrar vélar til vegagerða, svo sem ýtur og aðrar slíkar vélar, yrði ekki kleift fyrir okkur að kaupa til að nota á næstu tímum í vegum í sveitum landsins, þá vitum við, að tækninni fleygir fram, og við getum gert ráð fyrir, að vélar, sem notaðar verða til vegagerða eftir t. d. 5–10 ár, verði einfaldari heldur en þær eru nú. Ég tel þess vegna alveg tímabært að samþ. þetta frv. og að það megi verða til þess, að sýsluvegir, sem alltaf hljóta að verða margir í þessu landi, muni geta haft þessara véla mikil not.

Að öðru leyti vil ég vitna til grg. þessa frv. um réttmæti þess og nauðsyn. Og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að ef hv. þm. lesa þá grg., geti þeim ekki blandazt hugur um, hvað fyrir flm. vakir með þessu frv.