17.09.1943
Efri deild: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

46. mál, hafnarlög fyrir Ólafsfjörð

Flm. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 58, er flutt samkv. ósk hafnarnefndar Ólafsfjarðarhrepps, og standa sjálfsagt allir Ólafsfirðingar bak við nefndina í þessu máli. Ósk um það að flytja þetta frv. var beint til okkar beggja þm. héraðsins. Þess vil ég geta, að samkomulag varð milli okkar þm. um það, að frv. skyldi flutt í þessari hv. d. Mönnum kann ef til vill að finnast að farið sé fram á nokkuð mikið með þessu frv. En þeir, sem þekkja til í Ólafsfirði eða vildu kynna sér staðhætti þar, vita eða munu komast að raun um, að það er ekki aðeins nauðsyn, heldur hreint og beint lífsnauðsyn fyrir Ólafsfirðinga, að þar verði gerð sæmileg höfn. Það er nú sennilega flestum kunnugt, að Ólafsfjörður er stærsta útgerðarstöð við Eyjafjörð. En ég hygg, að það sé síður kunnugt, að þar mun einnig vera stærsta þorskveiðistöð á Norðurlandi, og einnig er þaðan stytzt til beztu fiskimiða fyrir Norðurlandi. Vegna þess hefur vaxið þar upp allstórt kauptún. Kauptún þetta byggir tilveru sína algerlega á útgerð. En það, sem háir útgerðinni og skapar ýmis konar erfiðleika í Ólafsfirði, er einkum það, að lendingarskilyrði eru þar slæm og að þar er sífelld hætta fyrir báta, er þar þurfa að liggja, yfir vetrartímann, og hefur það t. d. reynzt með öllu ómögulegt að láta báta liggja þar frá byrjun sept., og jafnvel oft þó að komið hafi verið fram á vor. Þá hefur og það slys borið að höndum fyrir allmörgum árum, að einir 18 bátar, sem þar lágu, fórust með ýmsum hætti. Suma rak á land og brotnuðu þar í spón, en aðrir sukku úti á firði. En það, sem þó er alvarlegast, er, að þetta versnar eftir því, sem árin líða. Sjórinn ber fram grjót og möl frá norðri inn að bátabryggjunni, sem er í þorpinu, en áin, sem rennur í fjarðarbotninn, ber fram sand. Þennan sand ber að bátabryggjunni einkum úr vesturátt. Og það er beinlínis svo komið nú, að meðalstórir bátar, hvað þá stærri, geta ekki lagzt að bryggju, ef þeir eru hlaðnir, nema hásjávað sé, og það eru ekki lengur tiltök að salta síld í Ólafsfirði, en það var þó töluverður bjargræðisvegur þar fyrir nokkrum árum. Það virðist því svo komið í þessum efnum, að það séu aðeins tveir kostir fyrir hendi, að því er Ólafsfjörð snertir. Sá hinn fyrri, sem ég held, að fáum muni finnast góður, er, að útgerðin leggist niður með öllu. Þá mundi fara svo, að fólkið yrði að flytjast burt úr kauptúninu, því að eins og ég vék að áðan, þá er þar ekki um aðra bjargræðisvegi að ræða en sjávarútveg. Hús og önnur verðmæti, sem í kauptúninu eru, mundu standa ónotuð og verða smám saman verðlaus af þessum sökum. Með öðrum orðum, allstórt kauptún, eins og Ólafsfjörður er, mundi leggjast í auðn, með öllum þeim afleiðingum, sem það mundi hafa í för með sér.

En annar kosturinn er sá, að byggð verði þar höfn, eins og lagt er til hér í þessu frv. Það er nú ekki vafamál, að höfn í Ólafsfirði mundi verða nokkuð dýr, en ég er ekki í vafa um, að hún kostar ekki eins mikið og þau verðmæti, sem annars mundu fara þar forgörðum, ef höfnin yrði ekki byggð. Ég skal í því sambandi geta þess, að eftir því sem mér hefur verið gefið upp, þá var þorskaflinn sem barst á land í Ólafsfirði, um 800 þús. kr. að verðmæti á ári fyrir stríð, en nú á stríðsárunum um 1½ millj. kr. á ári. Og ef litið er á málið frá þjóðhagslegu sjónarmiði, er það auðsætt, að aflinn mun ekki verða lengi að borga þessa höfn, jafnvel þótt hún yrði nokkuð dýr. Hér er þó ekki talinn með síldarafli á bátum frá Ólafsfirði, sem hafa lagt upp annars staðar í ár.

Ég vildi nú segja þessi fáu orð um almennar ástæður þeirra Ólafsfirðinga, en um frv. sjálft er ekki mikið að segja. Almenn ákvæði þessa frv. eru að kalla eins og í öðrum þeim hafnarlögum, sem sett hafa verið nú á síðari árum. En að því er sérákvæði snertir, þá skal ég geta þess, að í 1. gr. er gert ráð fyrir, að til hafnargerðar í Ólafsfirði greiðist úr ríkissjóði 2/5 kostnaðar eftir áætlun, sem ríkisstjórnin hefur samþykkt, þegar fé er veitt til þess í fjárlögum, og upphæðin tiltekin allt að l millj. kr., gegn 3/5 úr hafnarsjóði Ólafsfjarðar.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að ríkisstjórninni sé heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs allt að 1½ millj. kr. lán, sem hafnarsjóður Ólafsfjarðar kann að fá til hafnargerðar gegn ábyrgð sveitarsjóðs og sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu. Þessar upphæðir, sem nefndar eru í 1. og 2. gr. frv., eru að nokkru leyti byggðar á áætlun hr. verkfr. Þorláks Helgasonar á vitamálaskrifstofunni, en þó verður að gera þar nokkrar aths. Hann hefur gert hvers konar áætlun um verkið og tilhögun þess, og yfir kostnaðinn hefur hann sundurliðaða áætlun. Miðar hann á öðrum staðnum við verðlag fyrir stríð, en í öðru lagi við verðlag eins og nú er. Samkvæmt hinu fyrrnefnda verðlagi er kostnaður kr. 1.215.000.00, en samkvæmt verðlagi í ár kr. 5.245.000.00. En nú er að sjálfsögðu ekki gert ráð fyrir, að lagt verði út í nema þann hluta verksins, sem nauðsynlegastur er, meðan styrjöldin stendur yfir, og því síður, að hafnargerðinni verði lokið, enda ekki hægt að vita, hvaða verðlag verður, þegar ófriðnum lýkur, þó að allir búist við því, að verðlag fari þá mjög lækkandi. Í frv. er því farið mitt á milli þessara áætlana, sem ég nefndi áðan, og gert er ráð fyrir í 1. og 2. gr. þess, að hafnargerðin kosti 2½ millj. kr.

Ég skal geta þess, að það er einmitt í samráði við hr. verkfræðing Þorlák Helgason, að þessi upphæð er sett, þó að hann hafi samkvæmt beiðni gert áætlun á þann hátt, sem ég sagði áðan, miðað kostnað hafnargerðarinnar við verðlag fyrir stríð og hins vegar við verðlag nú.

Mun ég nú ekki fara fleiri orðum um þetta mál. Ég veit, að það þyrfti að gefa þeim, sem ókunnugir eru, miklu fleiri upplýsingar en í mínum fáu orðum felast, en ég vil benda hv. þm. á það, að ég hef látið prenta tvö fskj. með þessu frv. Í fyrsta lagi er bréf frá hafnarnefnd Ólafsfjarðar til okkar alþm. Eyjafjarðarsýslu og í öðru lagi till. frá hr. verkfræðing Þorláki Helgasyni um hafnargerðina með sundurliðun á því, hvernig hún eigi að vera. Í þessum tveim fskj., ætla ég, að séu nokkrar upplýsingar um málið, svo að menn geti samkvæmt því gert sér nokkrar hugmyndir um þetta. Frekari gögn eru hjá mér um þetta mál, sem ég vildi ekki láta kosta til að láta prenta. Að sjálfsögðu mun ég afhenda þau gögn þeirri n., sem fær málið til meðferðar. Þá er það og sjálfsagt, að n. leiti álits vitamálaskrifstofunnar um málið, og þar munu einnig vera fleiri gögn, svo sem teikningar af mannvirkjum. Ég vona því, að allir hv. dm. eigi þess kost að gera sér glögga grein fyrir þessu máli. Læt ég svo nægja að óska þess, að d. taki þessu máli vel og greiði fyrir því til 2. umr. Legg ég til, að því verði vísað til sjútvn.