07.10.1943
Efri deild: 30. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

46. mál, hafnarlög fyrir Ólafsfjörð

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur athugað þetta frv. og borið það saman við gildandi l. um hafnir á landinu og einnig rætt um það við vitamálastjóra, sem er sammála um, að það nái fram að ganga. N. varð sammála um að gera lítilfjörlegar breytingar á frv., sem kemur fram á nál. á þskj. 131. Hvað viðvíkur fyrstu breyt., að í stað „Landsbankans“ í 1. málsl. 2. gr. komi: opinberra lánsstofnana, þykir n. rétt að binda sig ekki við Landsbankann einan. Hvað sem sektarákvæðunum líður, varð n. sammála um að samræma frv. öðrum gildandi lögum. Þá varð hún ásátt um, að rétt væri að hækka sektarákvæðið úr 500 kr. í 20000 kr., því að hagkvæmt gæti verið fyrir viðkomendur að brjóta ákvæðið, ef sektin væri mjög lág. Þriðja brtt. er við 10 gr. og er á þá leið að fella burtu staflið c, og er það gert til samræmingar. 4. brtt., er n. leggur til, að gerð verði, er við 18. gr. frv., og er hún gerð til samræmingar við önnur lög. Sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv. frekar, en legg til, að það verði samþykkt að gerðum þessum breytingum.