01.02.1945
Neðri deild: 119. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Frv. þetta fer fram á, að reglulegt Alþingi 1945 skuli koma saman 1. dag októbermánaðar, hafi forseti Íslands eigi tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu.

Eins og kunnugt er, mælir stjórnarskrá landsins svo fyrir, að Alþingi komi saman í síðasta lagi 15. febr. ár hvert, nema því sé breytt með sérstökum l. Ríkisstj. hefur eftir vandlega íhugun talið rétt, að nú yrði svo gert. Önnur leið hefði verið sú, að 15. febr. væri þing sett, og frestaði það sér síðan sjálft til næsta hausts. Yrði þá þessu þingi að vera lokið fyrir 15. febr. En hefði sú leið verið valin, þurfti samkv. stjórnarskrá að leggja þegar fjárlfrv. fyrir hið nýja þing. Eins og öllum þm. er ljóst, hefði það ekki getað verið nema nafnið eitt. Það er heldur óviðkunnanlegt um jafnstórt mál, að það sé lagt fyrir til málamynda, eingöngu til að fullnægja á pappírnum kröfu stjskr., en það fullnægði kannske að engu leyti raunveruleikanum.

Ríkisstj. er hins vegar ljóst, að margt getur komið fyrir, sem gera kann nauðsynlegt að kalla þing saman fyrr en 1. okt. Skynsamlegast er að vera við öllu slíku búinn á þessum tímum, og gerist eitthvað slíkt, er sjálfsagt að leita til forsetans um, að hann kalli saman þingið, eins og frv. leyfir. Ýmsir munu líka halda, að vegna verðlagsákvarðana á landbúnaðarvörum verði eins og s.l. haust að kalla þing saman í sept., og er frv. ekki því til fyrirstöðu.

Þinghald fram eftir þessu ári eða fyrr en 1. okt. ætti ekki að vera nauðsynlegt af öðrum ástæðum, því að nú hefur þing setið nær óslitið síðan 2. sept. s.l. Ég vona, að þetta frv: sé samið eftir sameiginlegum vilja allra þeirra þm., sem ég þekki til, og valdi ekki ágreiningi. Óska ég, að því verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og allshn.