08.02.1945
Neðri deild: 124. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Frsm. meiri hl. ( Garðar Þorsteinsson):

Allshn., sem haft hefur þetta mál til athugunar, hefur rætt það á fundi hjá sér, en ekki getað orðið sammála um málið. Meiri hl. n. vill mæla með, að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl., hv. 1. þm. Árn., vill, að samkomudagur Alþ. sé ákveðinn eigi síðar en 2. maí n.k., og hefur hann flutt brtt. og skilar um málið sérstöku nál.

Samkvæmt l., eins og kunnugt er, á hvert reglulegt Alþ. að koma saman árlega 15. febr. Alþ., sem nú situr, hefur frá því því var frestað áður setið óslitið frá 2. sept. í haust, að undanteknum nokkrum dögum um jólin. Nú er þess að geta, að störfum þessa þings getur ekki orðið lokið fyrr en eftir 10 til 14 daga. Samkvæmt stjórnarskránni ber að leggja fram fjárlagafrv. í byrjun hvers Alþ., en hins vegar er vitað, að ekki er nokkur leið að ganga frá fjárlagafrv. þannig, að það gæti orðið tilbúið og lagt fram í febrúar né heldur að mínu áliti í byrjun maímánaðar, því að á þeim tíma er ákaflega ólíklegt, að hægt sé að ganga svo frá áætlun um tekjur og gjöld ríkisins, að hægt sé að treysta nokkrum niðurstöðutölum þar, og kemur það til af ýmsu.

Í fyrsta lagi er alveg óvíst um það, hvenær núverandi styrjöld er lokið, og að sjálfsögðu geta úrslit hennar og hvenær styrjöldinni verður lokið haft mjög mikil áhrif á alla afkomumöguleika okkar. Það er ekki heldur vitað, hvernig fer með fisksölumöguleika Íslendinga. Eins og menn vita, standa nú yfir samningar um sölu fisks, og eftir þeim úrslitum kann mikið að ráðast um batnandi eða versnandi afkomu útvegs okkar. Það er ekki heldur enn vitað um, hvernig síldarútvegurinn fer næsta ár, bæði til bræðslu og söltunar, og það verður ekki heldur vitað um það 2. maí, því að eins og kunnugt er byrjar síldarútgerðin ekki fyrr en í júnímánuði.

Af þessum ástæðum er alveg útilokað, að hægt sé að áætla með nokkurri vissu um tekjur og gjöld ríkisins fyrir næsta ár, og reynslan hefur nú sýnt okkur þetta, því að á þessu ári hafa verið lögð fram 2 fjárlagafrv. fyrir árið 1945, annað í febr. og hitt í sept.

Þegar rætt var um það í febr. s.l., var meiri hl. Alþ. því meðmæltur, að það þing, sem næst yrði kallað saman, yrði kallað saman um 15. sept. Varð þó að ráði, að stj. kallaði saman Alþ. 2. sept., sem var vegna afurðasölumálsins. Ég skal játa, að það er að sjálfsögðu ekki gott fyrir einn eða annan að segja til um, hvenær nauðsyn krefji þess, að Alþ. yrði kallað saman, en ég hygg að fela verði hæstv. ríkisstj. að ákveða það. Hún á að vera þeim málum kunnugust, og í frv. er einmitt gert ráð fyrir, að hún geti kallað saman Alþ. fyrir 1. okt., ef nauðsyn krefji.

Þau mál, sem hv. minni hl. allshn., hv. 1. þm. Árn., telur upp og talar um í sinu nál., eru að sjálfsögðu mál, sem krefjast úrlausnar. Ég skal játa það, en ég hygg, og meiri hl. allshn. er mér sammála um það, að meiri möguleikar muni vera á því að leysa þau mál á viðunandi hátt síðar á árinu af þeim ástæðum, sem ég hef að framan getið um. Stjórnin hefur það á valdi sínu, ef eitthvað það kemur fyrir, sem gerir setu Alþ. nauðsynlega, að kalla saman Alþ. fyrr en 1. okt., og af þeim ástæðum vill meiri hl. n. mæla með því, að frv. verði samþykkt óbreytt.

Síðan meiri og minni hl. allshn. gáfu út nál., hefur komið fram brtt. frá hv. 2. þm. Rang. o.fl. hv. þm. um að hafa samkomudag Alþ. 1. sept. Það var leitað um þetta álits Alþ. s.l. ár, og meiri hl. þá vildi heldur hafa samkomudaginn 15. sept. en 1. sept. Ég veit, að það, sem vakir fyrir þessum hv. þm., er afurðasölumálið. Ég geri ráð fyrir, að ef þau mál verða ekki leyst af hæstv. ríkisstj. innbyrðis fyrir þann tíma, þá muni stj. væntanlega kalla saman Alþ. eða fá samþykki þingflokkanna fyrir lausn þeirra mála, og ég skil ekki, að það geti raskað neinu um það, þótt samkomudagur þingsins sé ákveðinn 1. okt., því að eins og ég hef margtekið fram hefur stjórnin á valdi sínu að kalla þing saman fyrr, ef hún telur þess brýna þörf.