08.02.1945
Neðri deild: 124. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hef nú hlýtt á nokkurn hluta þessara umr. og kynnt mér það langa nál., sem komið er frá hv. 1. þm. Árn., minni hl. n., og ég verð að segja, að mig undrar að vissu leyti öll þau ósköp, sem hér ganga á. Það er eins og aldrei fyrr hafi áður verið ætlað, að Alþ. sæti ekki svona nokkurn veginn stöðugt allt árið, og eins og hér sé það almennt viðurkennt, að það hafi aldrei verið örðugleikar fram undan fyrr en nú. Það þarf ekki að minna þann reynda hv. 1. þm. Árn. á það, að það hefur á undanförnum árum alltaf verið svo, þegar þingi hefur verið slitið, að menn hafa haft lögformlegar ástæður til að búast við, að ríkisstj. þyrfti að taka ákvarðanir um mörg og vandasöm úrlausnarefni. Og það kann að vera, og er sjálfsagt svo, að margir örðugleikar eru fram undan. Ég efast ekki um það, þó að mér sýnist þeir kannske hvað mestir, þegar verið er að lýsa ástandinu og horfunum í þeim blöðum, sem sum verða lögð undir ámæli um að hafa fremur kosið, að örðugleikarnir yrðu meiri heldur en minni á vegi ríkisstj.

Mér dettur ekki í hug að fara að svara orði til orðs þeim staðhæfingum, sem hér eru fram bornar, meðfram vegna þess, að mér sýnist ekki, að þær hafi nein úrslitaáhrif á niðurstöðu þessa máls, hvort sem fyrir þeim er meiri eða minni fótur. Ég endurtek það, að það er ekkert óvenjulegt í því, að fram undan eru vandasöm viðfangsefni. En mér skilst þá líka, að það sé tilætlunin með því að hafa stjórn í landinu, að það sé hún, sem eigi að glíma við þau og reyna að leysa þau, eftir því sem föng eru á, án þess að það megi ætla sér að leggja það á hv. þm., að þeir sitji hér allt árið, eða ríkissjóð að kosta veru þeirra hér. Sá háttur hefur ekki verið hafður í þessu landi og verður vonandi ekki á næstunni, enda mundi vafalaust það af því leiða, að margir hv. þm. mundu ekki hafa möguleika til að eiga sæti á þingi.

Ég get vísað til þess, sem hv, frsm. meiri hl. n. hefur sagt um þetta, og látið það að mestu nægja. Þess hefur ekki verið kostur að láta Alþ. hafa setu allan ársins hring. Hv. 1. þm. Árn. talaði nokkur orð um það, að þess mætti sjálfsagt vænta, að þegar kæmi fram í maí, stæðu málin ekki verr en svo, að líkur væru til, að hægt yrði að reka síldarútveg landsmanna, enda taldi hann voða vera fram undan, ef það væri ekki hægt. En ég vil minna á það, að það hefur komið áður fyrir í hans þingmennskutíð, að í júnímánuði hafi stj. þurft að taka ákvarðanir til þess að hrinda þeim atvinnurekstri af stað, án þess að Alþ. hefði þá setu. Og slíkt getur enn borið að höndum, og verður að ætlast til þess af hverri ríkisstj., að hún sé fær um að ráða fram úr því, en ella verði að grípa til þess að kalla saman Alþ. Mér finnst, að það komi ekki til mála, eins og nú standa sakir, að kveðja Alþ. saman til fundar á ný í byrjun maímánaðar, þótt hins vegar aðstæður gætu breytzt svo, áður en að þeim tíma kemur, að nauðsyn þætti liggja að því. Og þá yrði það líka gert. En eftir að þingið hefur nú setið lengur en nokkru sinni fyrr, þ.e. þingið, sem mestmegnis var háð á árinu 1944, en nú hefur það sama þing verið háð á annan mánuð af þessu ári, þá þætti mér líklegt, að það væri ósk hv. þm. almennt, að þeim yrði sleppt við það að þurfa að koma aftur á þing í maí, svo skömmu eftir að þetta þing væri úti, nema ýtrasta nauðsyn bæri til. Það má segja, að það væri sanni nær að kalla saman þingið 1. sept., út frá þeim forsendum, sem hv. 2. þm. Rang. gat um. Mér sýnist hins vegar ekki, að þörf sé á að slá því föstu nú. Það sjónarmið, sem hann færði hér fram, verður að sjálfsögðu athugað af ríkisstj., og ég gat um það hér í framsöguræðu minni við 1. umr. þessa máls, að það mætti vel fara svo, einmitt af þeim ástæðum, að ekki yrði talið hjá því komizt að kalla saman þing fyrr en 1. okt. En hins vegar er það heimilt samkv. frv.

Ég vil ekki eyða tíma þingsins með frekari umr., eins og þó tilefni hefur, gefizt til í þeim umr., sem hér hafa farið fram. Ég vænti þess, eftir að hv. allshn. hefur fjallað um málið og komizt að þeirri niðurstöðu, sem hún hefur komizt að, þá megi heita tryggt, að frv. verði samþ., og það er í mínum huga aðalatriðið. En hitt er aukaatriði, hvort menn gera sér það til gamans meira eða minna að ræða þetta mál hér í hv. d.