08.02.1945
Neðri deild: 124. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. lét svo um mælt hér áðan, að þm. mættu gera sér það til gamans að tala um þetta mál hér í hv. d. Ég segi fyrir mitt leyti, að þó að ég taki til máls um málið örfáum orðum, þá er það ekki vegna þess, að það sé neitt til þess að skemmta mér né hæstv. forsrh., heldur gert í því trausti, að enn þá sé ekki komið svo langt í okkar landi með vissar stefnur í stjórnmálum, sem verið er að brjóta niður annars staðar í heiminum, að það sé þó til einhvers enn að bera fram rök í máli hér á hæstv. Alþ.

Það er vitað, að fyrir 15. sept. n.k. verður að taka til meðferðar eitthvert mesta vandamál Alþ., sem sé dýrtíðarl., sem þá falla úr gildi, þau er nú standa, um afurðasölumálin. Og verður ekki hjá því komizt, að þau verði tekin fyrir af löggjafarvaldinu fyrir þann tíma, nema ríkisstj. ætli upp á sitt eindæmi að taka þetta mál til meðferðar. Hefur komið fram í þessum umr., að mönnum hefur dottið slíkt í hug, þar sem hv. frsm. meiri hl. allshn. lét svo um mælt, að hugsanlegt væri, að verðlagsmálin yrðu leyst af núv. hæstv. ríkisstj. fyrir 15. sept. n.k. Nú er vitað, að þessi verðlagsmál verða ekki, eins og sakir standa, leyst nema með l., og hafa þau á undanförnum árum reynzt mestu og viðkvæmustu vandamálin, sem við er að fást. Það er því beinlínis gefið í skyn, og líka með frv. hæstv. ríkisstj., að hæstv. ríkisstj. geti hugsað sér þann möguleika að leysa þessi mál á eigin ábyrgð, með því að gefa úr brbl. um það, hvernig þessu skuli hagað. Nú er því haldið fram, að það sé hugsanlegt, að þetta mál og þau vandamál, sem fyrir hendi eru, sé hægt að leysa með því móti, að þingið komi ekki saman fyrr en 1. okt. og það verði gert á þremur síðustu mánuðum ársins að leysa þau erfiðu viðfangsefni, sem þá væru þó eftir, þó að ríkisstj. tæki þann hátt upp að leysa á eigin ábyrgð þau mál, sem eru viðkvæmust öllum þegnum þjóðfélagsins, og það fyrir 15. sept. n.k. Því var haldið fram á síðasta ári, að það væri nægilegt að kalla þingið saman 15. sept. En þegar til kom, taldi þáv. hæstv. ríkisstj., að ekki yrði hjá komizt að kalla þingið saman 2. sept. til þess að ráða fram úr um verðlagsmálin, sem skipan þurfti að komast á fyrir 15. sept. þ.á., og sama nauðsyn í þessu efni er alveg eins nú fyrir hendi. En var það nægilegt, að þingið kæmi saman 15. sept. þá, ef átt hefði að vera búið að leysa þessi mál á viðunandi hátt fyrir árslok? Svarið er, að við sitjum nú hér á þingi; 8. febrúar 1945, með þau mál óleyst, sem átti að vera búið að leysa fyrir lok ársins 1944. Og það sýnir, hvort hægt var á stuttum tíma að leysa þau. Og það er vitað, að alllangur tími er enn, þangað til búið verði að leysa þau. Og m.a. vandamálið, sem átti að leysa fyrir 15. sept. s.l., er ekki leyst enn í dag, þar sem framkvæmd dýrtíðarmálanna eftir till. búnaðarþings í haust er ekki búin að fá staðfestingu þingsins enn í dag. Og framkvæmd þeirra mála er eingöngu byggð á bráðabirgðasamþykkt þingsins um það, að þetta skyldi vera í gildi eins og áður, þar til fullnaðarsamþykkt fengist um málið á þingi. Þetta liggur nú í fjhn. og er ekki komið til afgreiðslu. M.ö.o., það er staðreynd, að eftir 51/2 mán., sem Alþ. hefur setið að þessu sinni, síðan í haust, er ekki enn búið að leysa það viðfangsefni, sem átti að vera búið að leysa fyrir 15. sept. s.l. Og allar þær ráðstafanir, sem gerðar eru og hæstv. ríkisstj. byggir sínar framkvæmdir á í dýrtíðarmálunum, eru eingöngu bráðabirgðaráðstafanir, sem falla úr gildi jafnskjótt sem verðlagstímabilið er liðið, sem nú er til tekið. — Nú skyldi maður ætla, að eftir svona langa þingsetu, sem nú er orðin, væri búið að ráða fram úr ýmsum þessum vandamálum þannig, að hægara væri að skipa þessum dýrtíðarmálum næsta haust en var á s.l. hausti og að ríkisstj. héldi því fram, að dýrtíðarfrv., sem nú liggur fyrir þinginu, hefði verið afgreitt þannig, að vandamálið, sem það er um, væri leyst, og sömuleiðis skyldi maður ætla, að búið væri á svona langri þingsetu að leysa skattamál, sem frv. hafa komið fram um, og annað slíkt, sem frv. liggja fyrir um nú, þannig að auðveldara yrði fyrir hæstv. ríkisstj. að ráða fram úr þessum málum á næsta hausti, og þess vegna þurfi ekki nema stutt þinghald, að áliti ríkisstj., til þess að ráða fram úr þessu. En það er ekki sannleikanum samkvæmt, því að yfirlýsingar eru í blöðum hæstv. ríkisstj. um, að þetta allt, sem bráðabirgðaráðstafanirnar eru um, sé alröng stefna í málunum, og þess vegna verði grundvöllur þessara bráðabirgðaráðstafana að takast upp á ný til athugunar og fullkominnar úrlausnar á næsta þingi. Það er þar af leiðandi augljóst, að það er skoðun hæstv. ríkisstj., að ekkert af þeim aðkallandi málum, sem verið er að reyna að leysa og vandasömust eru, fjárhags- og atvinnumál, hafi þá skipun nú, sem sé annað en bráðabirgðaskipun, lausn þeirra sé enn ekki annað en bráðabirgðalausn. Og þó tekur það kannske 6 mánuði að koma á þessari bráðabirgðalausn eftir þessari alskökku stefnu, sem blöð hæstv. ríkisstj. telja, að sé. Þegar það hefur tekið svo langan tíma, er þá líklegt að fljótar gangi, þegar snúa á alveg við og taka nýja stefnu? Mér virðist það svo augljóst mál eftir þessar yfirlýsingar ríkisstj. um, að hún sé á skakkri leið í fjármálum og að hún ætli ekki nema í eitt skipti að samþ. til ársins suma þá tolla, sem nú á að setja, að vandamálin geti ekki orðið leyst á stuttum tíma. Þjóðin á heimtingu á, að sú nýja stefna sé lögð fram fyrir hana í tæka tíð. Það getur ekki beðið þangað til í árslok. Ef svo færi, að þingið þyrfti ekki nema 3 mánuði til að leysa þessi mál, þyrfti það ekki að sitja neitt lengur, þótt það kæmi snemma saman. En ef þær lausnir ætti að knýja fram á of stuttum tíma og ljúka við rétt fyrir áramót, yrðu það óskemmtilegri vinnubrögð heldur en ef til þess væri ætlaður hæfilegur tími.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að ekki yrði séð um fjárhagsafkomuna fyrr en seint á árinu. Það er ekkert nýtt. Hana hafa menn aldrei séð fyrr en seint á árinu, og hefur það ekki verið því til fyrirstöðu að ákveða í stjórnarskránni samkomudaginn 15. febr. Það má líka segja, að 1. okt. sé ekki nokkur vegur að sjá fyrir afkomu ársins. Eftir er þá að selja megnið af landbúnaðarafurðunum og verulegan hluta sjávarafurða. Segja mætti því, að bezt væri að semja aldrei fjárl. né afgreiða vandamál fyrr en eftir lok þess árs, sem skylt er að afgreiða þau á. En ég vænti, að þm. skilji, hve háskaleg sú braut er.

Vitað er, að 15. sept. falla niður bráðabirgðaákvæðin um vandasamasta málið, sem fyrir þinginu liggur, og þann vanda verður ekki hægt að leysa með brbl. á ábyrgð ríkisstj. einnar. Mér þykir ekki líklegt, að Alþ. vilji hafa það eins og þing einnar þjóðar 1934 að samþ. að hverfa heim og fela ríkisstj. löggjafarvaldið framvegis, enda sjá menn nú, hve gott sú þjóð hefur haft af því. Ummæli hafa hér fallið, sem á það úrræði gætu minnt, en ég vona, að slíkt heyrist sem sjaldnast hér á Alþingi. S.l. sumar var alls ekki hægt að verðleggja sumar innlendar afurðir. Þannig var með nýtt dilkakjöt fram til 16. sept., og olli það mikilli óánægju meðal neytenda og markaðstapi fyrir framleiðendur. Öllum er mikill óhagur að því, að þetta endurtakist, en ekkert er líklegra en svo fari, ef þing kemur ekki saman í vor.

Boðorð ríkisstj. í þessum efnum virðist vera: Geymdu allt til morguns, sem gerast skal í dag, ef nokkur leið er að skjótast undan skyldunni að gera það í dag. Hingað til hefur þetta ekki þótt hyggilegt og er það varla enn, þó að stjórnin hyggi þarna á nýskipun og nýsköpun.

Það má vel vera, eins og hv. frsm. minni hl. tók fram, að ekki sé nauðsyn að kalla þing saman strax í maíbyrjun, og má deila um, hvaða dagur sé æskilegastur. En eins og hann sýndi ljóslega verður ekki komizt hjá þinghaldi miklu fyrr en frv. ráðgerir. Sé ég ekki ástæðu til að fara nú um það fleiri orðum.