08.02.1945
Neðri deild: 125. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. V.-Húnv. geri sér sjálfum ljóst, að enda þótt það frv., sem hér liggur fyrir, hljóði eins og hann las það nú hér upp, þá segir ekkert í því um það, að ríkisstj. hugsi sér ekki að kalla saman þ. nema eitthvað alveg óvænt komi fyrir. Varðandi það, sem hv. þm. sagði, gætu málin m.a. legið þannig fyrir 1. eða 10. sept. n.k., að ríkisstj. teldi sig ekki þurfa af þeim ástæðum að kalla saman þ., og mun hún þá ekki verða bundin til að kalla þ. saman, en ef ríkisstj. álítur hins vegar af þessum eða öðrum ástæðum, sem hvorki hv. þm. né ég getum sagt um með neinni vissu, þörf á að kalla saman þ. fyrir hinn tiltekna dag, þá mun hún gera það. Í ræðu hv. þm. kom ekkert nýtt fram. Frsm. minni hl. allshn. tók fram þessi atriði fullglögglega hér í dag, svo að fyrirspurn hans er óþörf.

Ég vil og í tilefni af öðrum ræðum, sem hér hafa verið fluttar í dag, endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að ég legg enga áherzlu á að fara að karpa um þetta mál, en legg áherzlu á, að það nái fram að ganga. Að öðru leyti getur hver sagt sem honum þóknast.

Skúli Guðmundsson: Út af ræðu hæstv. forsrh. finnst mér ástæða til þess að beina til hans þeirri fyrirspurn, hvort hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir því að gera einhverjar ráðstafanir í dýrtíðarmálunum, þegar bráðabirgðaákvæðin falla úr gildi, án þess að kalla þ. saman til þeirra ákvarðana.