09.02.1945
Efri deild: 123. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Ingvar Pálmason:

Mér þykir rétt að láta þetta mál ekki fara svo úr þessari hv. d., að ég ekki geri grein fyrir atkvæði mínu. Ég greiddi frv. atkvæði til 2. umr. og n. og bjóst við, að við þetta mál yrðu höfð svipuð vinnubrögð og um mál almennt. Það má segja, að það sé nú tæplega, því að ekki munu vera liðnir nema tveir klukkutímar síðan málinu var vísað til n., og er nokkur ástæða til að halda, að það hafi verið fljótleg athugun.

Ég skal þá skýra frá því strax, að ég get ekki fylgt þessu frv. út úr þ. óbreyttu, og liggja til þess fleiri en ein ástæða. Það má nú benda á, að þetta þ., sem við nú sitjum enn, var upphaflega kallað saman 10. jan., að mig minnir, en var svo frestað til 2. sept., og var það náttúrlega að miklu leyti lýðveldisyfirlýsingin á Þingvöllum 17. júní, sem gerði að verkum, að nauðsynlegt var að fresta þ. Ég hygg, að hafi ekki verið mikill ágreiningur um það, og enn fremur hygg ég, að ekki sé mikill ágreiningur um, að eins og nú standa sakir er erfitt bæði að leggja fjárlagafrv. fyrir þ. nú í febr., enda augljóst, að þessu þ. verður ekki lokið 14. febr., svo að það verður að fresta þ. eitthvað, og í annan máta er það viðurkennt, að erfitt sé að afgreiða fjári. til fullnustu fyrr en nokkuð er liðið á árið og frekar sést um fjárhagsafkomu ársins. En þessi reynsla, sem við höfum fengið af haustþingi, sannar mér a.m.k. það, að það að draga að kalla þ. saman þar til 1. okt. er sama og halda við sama vandræðaástandinu og verið hefur um, að við losnum ekki við ársþing fyrr en allmikið er liðið á næsta ár. Þetta tel ég mjög óvarlegt, m.a. af þeirri reynslu, sem við höfum fengið.

Þegar hin nýja stj. var mynduð, var hún mynduð á málefnasamningi, sem eðlilegt er, og ef ég man rétt, þá átti að leysa á þessu þ., sem enn þá stendur yfir og búið er að standa á annað ár, eitt af samningsmálunum, sem var endurskoðun á launal. starfsmanna ríkisins. Það mál var undirbúið af n., og ég skal engan dóm leggja á þann undirbúning, því að ég er ekki fær að dæma um það, en víst er það, að allmikil vinna hefur verið lögð í málið. Þó er það svo, að enn þann dag í dag er málið ekki komið lengra en það, að það er í n. síðari d. Þetta virðist mér benda til þess, að þegar a næsta þ. á að fara að leysa annað samningsmálið, sem ég hygg hafi verið nefnt tryggingamál, þá sé mikið, sem bendi til þess, þegar litið er til reynslu og útkomu fyrsta samningsmálsins, launamálanna, að tæplega muni vinnast á 3 mánuðum að ljúka því máli, svo að þ. gæti orðið lokið á skömmum tíma. Að vísu veit ég ekki neitt um, hvað undirbúningi þessa máls líður, en ekki veit ég til, að nein föst n. hafi starfað í því máli. Ég lít svo á, að þetta mál nr. 2. í málefnasamningi stj. sé bæði umfangsmeira og sízt vandaminna en það mál, sem leysast átti á þessu þ. og sennilega verður leyst, ef þ. stendur nógu lengi. Ég tel, að það sé tæplega vandaminna mál og auk þess lakar undirbúið, svo að ég tel hreinasta óráð, þó að ýmsar ástæður liggi til þess, að þ. verði frestað fram eftir sumrinu, að fresta því þar til í októberbyrjun, og fæ ég ekki skilið afstöðu ríkisstj. til þessa, vitandi vits, að málið verður ekki leyst fyrir árslok.

Ég veit, að því verður svarað til, að ríkisstj. hafi í hendi sinni að kalla þ. saman fyrr, ef svo er ástatt, og ég efa ekki, þó að ég hafi ekki mikið traust á þessari ríkisstj., sem situr, að hún muni kalla þ. saman, ef eitthvað ber að, sem er alveg sérstakt. En ég hef litla von um, að hún kalli þ. saman fyrr vegna þessa máls, sem á að leysa á þ. og nokkuð er á huldu enn þá, hvernig verður leyst. Ég vil ekki vera með neinar getsakir um, að þetta mál verði ekki leyst og eigi ekki að leysast. Ég skal játa, að það er um það eins og launal., að það er mikið alvörumál; sem þarf mikillar athugunar við, og sennilegt, að ekki sé hægt að neita því, að það sé þjóðþrifamál. En manni dettur í hug, að þegar ríkisstj. leggur svona mikið kapp á, að samkomudagur þ. sé ekki ákveðinn fyrr en þetta, sé eitthvað, sem liggur til grundvallar, því að ég veit, og við vitum það allir, að í Nd. lá fyrir brtt. um að breyta samkomudegi Alþ. þannig, að þ. kæmi saman í byrjun sept., en það var fellt af stjórnarliðinu öllu. Framsfl. var með brtt. og ég hygg þeir innan Sjálfstfl., sem ekki styðja stj. Þetta sýnir, að það er eitthvað sérstakt, sem stj. hlýtur að hafa fyrir augum, þegar hún er ófáanleg til þess að ákveða samkomudag Alþ. fyrr en þetta. Það er ástæðulaust alveg að fara hér með nokkrar getgátur, en mér blandast ekki hugur um, að til þess kapps, sem stj. leggur á, að samkomudagur Alþ. sé ekki ákveðinn fyrr en þetta, hljóta að liggja alveg vissar ástæður. Ég veit ekkert, hverjar þær eru, og skal ekki hér neitt fara að gizka á það, en enginn, sem ekki hefur óskorað traust á þessari stj., getur láð mér, þó að ég telji mjög varhugavert að greiða þessu máli atkvæði út úr þ.

Ég get aðeins minnt á það, sem öllum er ljóst, að Framsfl. hefur ætíð talið, að vetrarkosningar væru mjög óheppilegar, sérstaklega fyrir sveitir landsins, þó að segja megi kannske, að þær séu ekki eins óheppilegar fyrir þéttbýlið. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir því, að ein afleiðingin af því, að þ. væri frestað lengur, gæti óneitanlega orðið sú, að það verði vetrarkosningar, og mér finnst ég þurfi ekki að rökstyðja það mikið. Við, sem lítum í dagblöðin daglega, sjáum, að það má heita, að ekki einn einasta dag sitji þau blöð, sem standa að núv. ríkisstj., á sárs höfði. Það eru frá mínu sjónarmiði séð óþvegnar getsakir og óþvegin orð, sem falla í hvers annars garð, a.m.k. af hálfu tveggja stjórnarblaðanna. Þetta er kannske ekkert að marka, en ég hef litið svoleiðis á, að blöð hvers flokks túlkuðu nokkurn veginn skoðanir hans og afstöðu. En eins og samkomulagið er í stjórnarblöðunum nú, þá finnst mér það ekki nein goðgá, þó að okkur, sem ekki fylgjum ríkisstj. að málum, detti í hug að geti komið fyrir, að slitni upp úr samvinnunni, þegar þ. kemur saman aftur. Það má vera einkennilegt — og ég vil segja alveg ný stefna, ef það verður þannig, að samkomulagið í stjórnarflokkunum verði orðið verulega gott, eftir því sem nú kemur fram í blöðum þeirra.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, þá eru ýmsar orsakir, sem gera að verkum, að ég get ekki léð þessu máli fylgi út úr d., en stærsta ástæðan, sem ég hef þegar tilfært, er óttinn við, að af þessum fresti leiði vetrarkosningar, og það má vei vera, að hæstv. ríkisstj. geti gefið skýringu á því, hvers vegna hún sækir svo mjög, að

samkomudagur Alþ. sé ekki færður lengra fram til sumarsins, t.d. um einn mánuð, því að ég verð að segja, að þó að það muni ekki meira en því, að Alþ. kæmi saman í byrjun sept., þá eru miklu meiri líkur til, ef eitthvað kemur fyrir, — og alltaf getur eitthvað komið fyrir —, að þá væri hægt að koma við kosningum, ef á þarf að halda, á skömmum tíma. Að vísu er ekki útilokað, að fresturinn leiði samt sem áður til vetrarkosninga, en það eru þó meiri líkur til þess að byggja mætti fyrir það.

Ég hef reynt að haga svo orðum mínum um þann ótta, sem um það er, að eitthvað sérstakt og óþekkt okkur stjórnarandstæðingum liggi til grundvallar því, að stj. sækir svona fast, að hún hafi heimild til þess, að þingið komi ekki saman fyrr en 1. október, að þau væru ekki til áreitni. Mér væri það mjög kært, ef hæstv. stj. vildi gera fyrir því frekari grein en ég hef heyrt hana gera enn þá, hvernig á þessu stendur. Því að ég skil það vel, að stj. vilji gjarnan hafa nokkurn tíma, sem hún sé laus við þ. og geti gefið sig að stjórnarstörfum. En til þess var annað miklu handhægara ráð, það var að ljúka þessu þingi miklu fyrr og vera búin að ljúka því nú, því að það verð ég að segja, að dráttur á því, að þessu þingi sé lokið, er ekki stjórnarandstöðunni að kenna. Þó að ágreiningur kunni að vera um þau mál, sem hafi gert það að verkum, að þingi er ekki lokið, og stjórnarandstaðan sé á öndverðum meið við stj., þá er það víst, að sú andstaða hefur ekki verið það sterk, að stj. gæti ekki verið búin að ljúka þeim málum, ef fullt samkomulag væri innan stjórnarflokkanna. Þess vegna er það, að stj. hefur ekki enn getað haft það mikinn samstarfskraft, að hún hafi getað lokið aðkallandi málum nú, svo að hún geti losnað við þingið. Ég hef fulla ástæðu til að halda, að þegar næsta þing kemur saman, þá verði litlu betur ástatt innan hæstv. ríkisstj. Ég mun því greiða atkv. á móti þessu frv. Ég sé ekki, að það hafi neina þýðingu að bera fram skriflega brtt. við frv. eftir atkvgr. í Nd. Mér er alveg ljóst, að stj. hefur fastakveðið, að svona skuli það vera, það er því ekki nema tímatöf að vera að bera fram brtt. við frv. Ég mun því ekki hirða um það. Ég mun ekki heldur tefja að neinu leyti fyrir málinu eða afgr. þess, en hins vegar mun ég, byggt á því, sem ég hef sagt, greiða atkv. á móti frv.

Ég taldi óhjákvæmilegt, að þetta kæmi fram, þar sem ég hef greitt atkv. orðalaust með frv. til 2. umr., en það geri ég venjulega, þó að ég sé á móti málinu, svo framarlega sem það er forsvaranlegt, en hins vegar vildi ég gera fullkomna grein fyrir afstöðu minni til málsins. Ég hygg, þó að ég hafi ekkert umboð til þess að lýsa yfir, að svo sé, að svipuð sé afstaða Framsfl. alls. Ég mun svo ekki tefja þessar umr., og þótt ég hafi hér eytt nokkrum orðum að þessu máli, vona ég, að hæstv. forseti d. og hv. þdm. taki ekki hart á því, því að það er ekki venja mín að tefja fyrir málum með málþófi.