09.02.1945
Efri deild: 123. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég vil, áður en ég hverf af fundi, endurtaka það, að þessi langa þingseta stafar af því, að öll mál voru svo undirbúin, sem raun bar vitni, og má telja undravert, ef takast má að ljúka þinginu bráðlega. Ég endurtek það og, að ríkisstj. kallar saman þing, ef nauðsyn krefur. Varðandi trú og vantrú, þá mun það ekki vera neitt sérstakt um þessa ríkisstj., að hún trúir á, að samstarfið megi takast sem lengst. Hitt getur auðvitað komið fyrir, og má minnast þess úr sögu þess flokks, sem háttv. 1. þm. S.-M. telur sig í, að alloft á undanförnum árum hefur slitnað upp úr stjórnarsamvinnu, sem hann hefur tekið þátt í. Af því er ljóst, að vonir geta einatt brugðizt í þessu efni. Ég ætla það sannmæli, að ástæða sé ekki til að lengja þessar umr. frekar en orðið er.

Ég hefði ekki staðið hér upp, ef háttv. 1. þm. S.-M. hefði ekki beint nokkru sérstaklega til mín og gert það á þann hátt, að ég taldi skylt að svara.