09.02.1945
Efri deild: 123. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Ég skal ekki deila við hv. 1. þm. S.-M. Ég vil þó láta uppi, að ég tel miður farið, að hann skyldi vera að blanda inn í umr. lífsstarfi mínu, sem ekki kemur malinu við.

Ég vil þó benda á eitt eftirtektarvert, sem kom fram hjá honum. Honum þótti það sem sé óviðeigandi, að maður í slíkri stöðu skyldi láta í ljós jafnlitla hrifningu af vinnubrögðum Framsfl. og ég gerði. Þetta lýsir vel hugarfari jafnvel þessa góða manns, að framsóknarmönnum ofbýður, að menn í opinberri þjónustu skuli geta verið Framsfl. andvígir. Eftir h.u.b. 20 ára valdasetu hafi þeir búið svo um sig, að menn, sem skipaðir voru í embætti á þeim tíma, hlytu að lúta flokksveldi þeirra.

Það hefði því verið sæmra fyrir hv. þm. bæði að vera ekki að blanda mér inn í þetta mál, eins og hann gerði, og eins hitt að láta hér í hv. d. liggja í þagnargildi þennan leiða framsóknarhugsunarhátt, sem lýsti sér í þessum orðum hans.

Að því er snertir hv. þm. S.-Þ., er hann búinn að staðfesta það, sem var meginatriði míns máls áður, að það, sem á veltur í þessum efnum, er ekki formleg samþykkt þingsins, heldur ákvörðun þeirra, sem með ríkisstj. fara á hverjum tíma, samningar ríkisstj. við atvinnustéttir landsins og samningar atvinnustéttanna innbyrðis. Við stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. treystum henni vel til þess að beita sér fyrir skynsamlegum aðgerðum, t.d. skynsamlegum samningum milli atvinnustéttanna. Og til þess að koma í veg fyrir algerðan glundroða í landinu, getur verið, að þinglegt samþykki þurfi til að tryggja samkomulag, sem með þessum hætti verður gert. Þá verður þing kallað saman. Líklegast þykir mér, að það nægði vitneskja um þinglegan meiri hl., og ef þinglegur meiri hl. er fyrir hendi við ákvörðun ríkisstj., þá er hægt að vita um hann án tillits til þess, hvort þessir 52 menn sitja á þingi eða ekki. En ef svo illa skyldi fara, að hæstv. ríkisstj. rofnaði og kæmi sér ekki saman eða gæti ekki leyst þann vanda, sem á hennar vegi verður, þá er eitt ráðið að kalla hæstv. Alþ. saman, og það er auðvitað minnsta traust, sem við stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. getum sýnt henni, að við treystum henni til að kalla Alþ. saman, ef ekki eru önnur úrræði fyrir hendi.

Varðandi það, sem hv. þm. S.-Þ. beindi til mín sérstaklega, um rétt bænda samkv. sexmannanefndaralitinu, vil ég taka fram, að ég hygg, að það hafi einmitt verið, þegar bændur sáu, hve formlegur lagaréttur þeirra var, að þeir urðu að gefast upp við að fylgja honum eftir. Eftir að kjötverðlagsnefnd var búin að reikna út, að bændur ættu að fá eitthvað 18 kr. fyrir hvert kjötkíló, þá var ekki kippt grundvellinum undan þeirra rétti, en þeir sáu þá, að l., sem sköpuðu þennan rétt, voru vitlaus, og urðu þeir því sjálfra sín vegna að gefa þennan formlega rétt eftir.