08.01.1945
Neðri deild: 96. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

230. mál, tekjuskattsviðauki 1945

Eysteinn Jónsson:

Ég var ekki við, þegar frv. var til 1. umr., og veit því ekki, hvaða umr. fóru þá hér fram um málið, en ég ætla að segja örfá orð við þessa umr.

Þetta er fyrsta tekjufrv., sem kemur frá hæstv. stj., en þó er ekki nema lítið eitt af því, sem vantar, sem þetta frv. getur útvegað. Þetta frv. er ekki ólíkt þeim l., sem giltu um skeið og hétu l. um verðlækkunarskatt, en þó nokkuð frábrugðið í ýmsum atriðum og gengur heldur skemmra en þar var gert.

Það er ekki gott að gera sér grein fyrir, hvort ástæða sé til að bera fram brtt. við frv., því að enn eru ekki komnar fram fleiri till. af hendi hæstv. stj. varðandi tekjuöflun, en mönnum skilst, að von sé á fleiri till., enda hlýtur það að vera eftir afgreiðslu fjárl. Ég get þó ekki stillt mig um að benda á við þessa umr., að ég hafði gert ráð fyrir, að fyrsta frv., sem kæmi frá hæstv. stj. til tekjuöflunar, mundi líta öðruvísi út en þetta frv., og byggði ég það sérstaklega á þeirri gagnrýni, sem hefur komið fram á gildandi skattalöggjöf frá tveimur af þeim flokkum, sem standa að núv. hæstv. ríkisstj., Alþfl. og Sósfl. Þessir flokkar hafa gagnrýnt mjög á undanförnum árum, að ekki hafi verið nægilega langt gengið í að skrapa saman fé af þeim, sem breiðust hefðu bökin í landinu og mest græddu. Sérstaklega hefur það verið gagnrýnt af hendi Alþfl., að hlunnindi væru allt of mikil í gildandi skattal., og það ákvæði mjög gagnrýnt, að ekki væri heimilt að leggja útsvör á þær tekjur, sem næmu yfir 200 þús. kr. Gagnrýni á svipaðan hátt hefur átt sér stað af hálfu Sósfl. Það hafa verið fluttar tili. af honum, sem hafa gengið í þá átt að afnema eða breyta mjög ýmsum atriðum viðvíkjandi þeim sjóðum, sem um ræðir í þessum l., og stundum hafa þeir sjálfir átt þátt í að koma þeim fyrir kattarnef. Þó hefur verið haldið uppi gagnrýni um, að ekki væri nægilega fast að kveðið í skattal. um þá, sem mest græddu. Ég hafði því gert ráð fyrir, að í því frv., sem kæmi fyrst frá hæstv. stj. og snerti tekjuskatt, mundi eitthvað verða fjallað um þetta, einhverjar till. til úrbóta, en því er ekki til að dreifa í þessu frv. Þrátt fyrir það getur verið ætlunin að gera einhverja breyt. í þessa átt; og væri þá ætlunin að hafa það í öðru frv., sem kæmi fram síðar.

Ég geri ekki ráð fyrir, að af hendi Framsfl. verði fluttar brtt. við þetta frv. Við munum sjá til, hvað fleira kann að koma af skattafrv. frá hæstv. stj., áður en gerð verða slík afskipti. Við teljum, að þeim frv. hljóti að verða þannig fyrir komið, að hægt sé að koma fram þeim breyt., sem við leggjum til eða teljum, að nokkuð þýði að gera í því sambandi. En þó að við höfum ekki lagt fram brtt. við þetta frv., þá vil ég minna á þetta sjónarmið og láta í ljós undrun mína yfir því, að hér er farið allt öðruvísi af stað en vænta mátti eftir þeim skoðunum, sem áður höfðu komið fram og með tilliti til þess, að í sjálfum stjórnarsamningnum er tekið fram, að þeir, sem breiðust hafi bökin, eigi að bera álögurnar. Að öðru leyti hafði ég gert ráð fyrir, að hæstv. stj. mundi í samræmi við málefnasamning sinn og í samræmi við það, sem hefur komið fram undanfarin ár, leggja til, að hún fengi lögfest ýmis atriði og skýrari ákvæði varðandi framtöl til tekju- og eignarskatts en eru í gildandi l., og mundi leggja fram till. til að efla framkvæmd skattal. Við höfum nú ákvæði í l. um skattadómara, sem eru verri en þýðingarlaus, sumpart fyrir það, að ekki hefur tekizt val í þessar stöður, og sumpart vegna þess, að þau ákvæði eru ekki að mínum dómi fullnægjandi, sem um þetta eru, þar sem valdsvið skattadómara er tiltekið. Það hefur verið bent á þetta á undanförnum þingum og fluttar till. til úrbóta, en þær hafa ekki haft nægilegt fylgi. Ég gerði ráð fyrir, að hæstv. stj. mundi gera sér grein fyrir, hvað þetta er þýðingarmikið mál og mundi leggja fram till. um gagngerðar umbætur á þeim ákvæðum skattal., sem fjalla um framtöl, og að öðru leyti mundi hæstv. stj. leggja fram breyt. á sjálfum framtölum skattal., t.d. með því að setja á stofn sérstakan skattadómstól eða gera aðrar hliðstæðar ráðstafanir, sem gætu orðið verulega til að styðja framkvæmd skattal. Þetta hefur einnig verið skoðun margra, sem standa að hæstv. stj. M.a. fluttum við hv. 4. þm. Reykv. og hv. 8. þm. Reykv. frv. í fyrra um að setja sérstakan skattadómstól með mjög viðtæku valdi. Það bólar ekki heldur í sambandi við þetta frv. á neinu ákvæði í þessa átt og engu, sem sýni, að hæstv. stj. álíti þörf á að hækka skattstigann, en þetta getur verið á leiðinni. Ég vildi þó minna á þetta, um leið og þetta frv. fer í gegnum hv. d.

Ég hef heyrt fjöldamarga játa, að framkvæmd skattal. væri í verulegum atriðum ábótavant. Ég skal ekki fara út í það nánar hér, en það er hægt að benda á með skýrum rökum, að svo er því farið, og það er að miklu leyti vegna þess, að. það vantar sterkt framkvæmdarvald í þeim málum, og sumpart vegna þess, að það hefur verið látið líðast, að opinberar stofnanir jafnvel hafi lagt stein í götu þess, að réttlát framkvæmd skattal. gæti átt sér stað. Á ég þar við banka landsins og einnig aðrar skrifstofur, jafnvel stjórnarskrifstofur, sem standa stj. enn nær en jafnvel bankarnir. Þetta má ekki svo til ganga. Það þarf bæði að breyta framkvæmdinni og setja sérstök lagaákvæði, og ég veit vel, að stuðningslið hæstv. stj. hefur gert mér grein fyrir því að undanförnu, hverju sem kann nú að vera til að dreifa. Það ætti þó ekki að vera ástæða til að efast um, að þeir hefðu eins mikinn áhuga fyrir slíkum umbótum, þegar þeir hafa aðstöðu til að gera eitthvað í þá átt.

Ég vildi aðeins minna á þessi atriði, um leið og málið fer í gegnum þessa d., en ég geri ekki ráð fyrir, að brtt. komi af hálfu Framsfl. í þessari d., heldur mun hann sjá, hverju fram vindur.