23.01.1945
Neðri deild: 111. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

250. mál, ríkisreikningar 1941

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að tala um það frv., sem hér liggur fyrir. Það er frv. til l. um samþ. á ríkisreikningnum fyrir árið 1941. Nú er 1945, svo að eftir er að leggja fram frv. til l. til samþ. fyrir árin 1942–´44. Það er ekki hægt að ætlazt til þess, að nú séu lagðir fram reikningar fyrir árið 1944, en það væri eðlilegt, að reikningar fyrir árið 1943 væru nú lagðir fram í staðinn fyrir reikninga ársins 1941. Þannig er ástandið í þessu máli nú, endurskoðun og samþ. ríkisreikninganna er orðið langt á eftir eðlilegri áætlun. Þetta þarf að færast í betra lag, og ber Alþ. að sjá um það. Frv. ber með sér, að útborganir eru allt öðruvísi en gert var ráð fyrir í fjárlögum á sínum tíma. En þegar 4 ár eru liðin frá því að útgjöld fjárlaganna voru áætluð og þangað til reikningarnir eru bornir undir Alþ. til samþ., þá er of langur tími liðinn til þess að hægt sé að láta sök bita sekan, ef um sök væri að ræða hjá einhverri ríkisstjórn. Ég mun ekki gera frv. að umtalsefni, en vil hins vegar vekja athygli á því, að það er mjög óeðlilegt að vera 3–4 ár á eftir með mál sem þetta, og gæti slíkt ekki viðgengist nema hjá ríkinu. Sumir segja, að ríkisbáknið sé orðið svo mikið og margþætt, að seinlegt sé að koma því við að endurskoða ríkisreikningana, en ég ímynda mér, að um leið og ríkisbáknið hefur aukizt, hafi starfsmönnum verið fjölgað við það í nokkuð svipuðu hlutfalli. Þess vegna mætti ætlazt til, að þessi mal kæmust í betra horf, þannig að ekki liði nema ár á milli, þangað til svona frv. er fram borið á Alþ. Auðvitað er ekkert annað að gera við svona frv. en að samþ. það, hversu vitlaust sem það er. Það eru liðin 4 ár síðan þetta, sem hér um ræðir, var gert, og þess vegna ekki um annað að gera fyrir hæstv. Alþ. en að samþ. þetta frv. Það er vonandi, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að reyna að koma þessu í lag og að frv. sem þetta verði ekki framar lagt fram til málamynda fyrir hæstv. Alþ.