15.02.1945
Efri deild: 128. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

250. mál, ríkisreikningar 1941

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Vitanlega eru ekki skiptar skoðanir um það, að mjög óheppilegt er, að ríkisreikningurinn skuli verða svo langt á eftir tímanum sem raun ber vitni. Ætlun ríkisstj. er að kippa þessu í lag. Endurskoðendur hafa fullan hug á að reyna að vinna upp það, sem tapazt hefur. En þannig er ástatt um húsnæðismál ríkisins, að þeirra vegna er ekki hægt að hraða þessu meir, eins og stendur. Ráðagerðir eru uppi um að reyna að bæta húsakostinn, og ef það yrði, mundi bráðlega sjást einhver breyting í þessum efnum. Hv. þm. Barð. spurði, hvort ég vildi ekki koma því til vegar, að kosnir yrðu endurskoðendur fyrir árið 1944. Ef nokkuð vinnst með því, skal það verða gert. En ég er hræddur um, að svo seint gangi, að ekkert sé unnið með því að kjósa þá fyrr en á haustþinginu. Ég lofa, að þetta skal verða athugað.