12.02.1945
Efri deild: 125. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

166. mál, bygging nokkurra raforkuveita

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. — Ég er sammála hv. flm. þessarar brtt. á þskj. 1076 um það, að hin mesta nauðsyn sé að vinna bráðan bug að því að leggja þessa línu frá Sogsvirkjuninni, og eftir því sem ég bezt veit, hefur alltaf verið gert ráð fyrir því, að hagnýting Sogsvirkjunarinnar fyrir sveitirnar yrði framkvæmd í þeirri röð, að fyrst kæmi Reykjanesveitan og síðan veitan til Eyrarbakka, Stokkseyrar og þorpanna austan fjalls.

Ég mun því greiða þessari till. atkv., en þó með þeim greinilegu fororðum, að sú röð haldist, sem gert er ráð fyrir, enda virðist mér líka, að það komi greinilega fram í frv. að samþ. brtt. eins og hún er. Þó vil ég ekki neita því, að mér finnst ekki ósennilegt, að þetta geti orðið til að tefja framgang málsins í hv. Nd.samþ. þessa brtt., vegna þess að ef að vanda lætur, má búast við, að viðleitni verði til að hengja fleira aftan í, eins og hv. þm. kannast við. En það sýnir sig við meðferð hv. Nd. ,á málinu, hvort það verður.

En í þessu sambandi þykir mér rétt að minna hv. þm. á, sem ég tók ekki eftir að kæmi fram hjá honum, að samkv, almennum l. um rafvirkjanir og afskipti ríkisins af þeim efnum er gert ráð fyrir því, að áður en ríkið leggi í að byggja rafmagnsveitur, liggi fyrir fullnægjandi undirbúningur þess. Áætlun ekki aðeins um kostnaðinn við að koma virkjuninni upp og leggja veituna, heldur einnig áætlun um rekstrarútlit rafveitunnar, miðað við þann kostnað, sem gert er ráð fyrir, að verði við að koma henni upp.

Mér er ekki fullkunnugt um það, hvort sá undirbúningur, sem ég veit, að er nokkur, varðandi þessa línu, hvort hann telst fullnægjandi í þessu efni, en þá yrði það væntanlega hæstv. ríkisstj. að skera úr því, áður en hún réðist í framkvæmdir í málinu. Get ég svo látið þetta nægja.