12.02.1945
Efri deild: 125. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (1141)

166. mál, bygging nokkurra raforkuveita

Kristinn Andrésson:

Ég hef nú ekki fylgzt með þessum umr., en sé, að fram hefur komið brtt. um að bæta við fleiri stöðum, sem ættu að fá rafmagn frá Sogsvirkjuninni. Ég hef nú viljað, að þetta mál næði fram að ganga með Reykjanesveituna, og ekki viljað tefja það á neinn hátt með því að koma fram með brtt. við frv., en þegar að því kemur að bæta við fleiri stöðum inn í frv., sem að vísu er ekki óeðlilegt, þá er einn staður enn, sem fylgt hefur þessum, og á ég þar við leiðsluna frá Laxárvirkjuninni til Húsavíkur.

Eins og hv. þm. er kunnugt, er til fyrir því ríkisábyrgð, sem nýlega hefur verið samþ. hér á Alþ., þannig að ríkisstj. mun greiða fyrir innkaupum til þessarar virkjunar að ég hygg samtímis og til Eyrarbakka og Stokkseyrar. Þrátt fyrir þetta, að ég tel, að þessar rafveitur eigi að fylgjast að og efni að verða útvegað til þeirra og þær byggðar samtímis, þá vil ég nú ekki fara að tefja neitt fyrir þessu máli með því að hnýta fleiri stöðum aftan í, sem ef til vill yrði til þess, að frv. yrði fyrir hrakningi af þeim sökum. Ég get þó lýst því yfir, að ef frv. þetta verður samþ. hér með þessari breyt., þá verð ég að flytja á næsta hausti sérstakt frv. um byggingu rafveitu fyrir Húsavík, því að ég tel það í álla staði óeðlilegt, að Húsavík dragist þarna aftur úr. Ákveðið hefur verið, að Húsavík og Reykjahverfi fái rafmagn frá Laxárvirkjuninni, og samtímis því, sem leitað var til Bandaríkjanna um efniskaup fyrir Reykjanesveituna, var það einnig gert fyrir Húsavíkurveituna og alltaf gert ráð fyrir, að þessar veitur fylgdust að, og er á allan hátt jafnt á veg komið. En engu að síður vil ég láta mál þetta fara svo nú, en aðeins lýsi því yfir, að ég mun flytja frv. á næsta þ., sem ég vona, að nái fylgi Alþ. á sama hátt og þessi till., sem nú er verið að samþ.