12.01.1945
Neðri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

217. mál, skipun læknishéraða

Jakob Möller:

Hér er ekki um að ræða nema annaðhvort — eða, spurningin er um það, hvort þetta svæði á að vera læknislaust eða ekki. Mér skildist, að þessir háu embættismenn og ágætu upp á sína vísu settu það fyrir sig, og sérstaklega héraðslæknirinn, sem mér skildist landlæknir bera svo mjög fyrir sig, að nauðsynlegt sé, að þetta læknishérað heyri til læknishéraði Reykjavíkur vegna heilbrigðiseftirlitsins. En ég vil bara benda á, að nauðsynlegt er, að héraðslæknar hafi fulla samvinnu sín á milli um slík mál. Það er ómögulegt, að slíka samvinnu þurfi ekki. Skyldi þá vera minni nauðsyn á að hafa allt undir einum hatti, læknishérað Reykjavíkur og Hafnarfjarðar? Ætli samgöngur milli fólks í Hafnarfirði og Reykjavík séu ekki eins miklar og þessa fólks, sem um ræðir? Það eru margfalt meiri samgöngur milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, og það er auðvitað, að fjöldi fólks í Hafnarfirði hefur atvinnu í Reykjavík, nákvæmlega eins og þetta fólk, sem þarna er um að ræða. Ef ætti að tryggja það, að héraðslæknirinn í Reykjavík hefði fullt yfirlit yfir heilbrigðismálin á öllu því svæði, þá þyrfti að færa út kvíarnar fyrir þann ágæta héraðslækni og, nota bene gera þá um leið allt svæðið læknislaust, því að honum er bannað að gegna læknisstörfum. Þetta er ósköp náttúrlegt, þegar skriffinnskan kemst í hámark og ekki tekið tillit til neins annars en þess, sem bezt þénar skriffinnskunni, að svona mál eigi að útiloka. En ég held, að skriffinnskan eigi að lúta hagsmunum hins lifandi lífs, og hér er um að ræða, hvort fólkið á þessu svæði á að vera læknislaust eða ekki.

Ég sé enga ástæðu til frestunar á því að taka ákvörðun um þetta mál og óska eftir því, að till. komi til atkvæða og hv. þm. skeri úr.