13.02.1945
Efri deild: 126. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

141. mál, kaup eigna setuliðsins

Gísli Jónsson:

Þegar þetta mál var hér til 1. umr., þá hreyfði ég, eins og hv. 1. þm. Reykv. gat um, nokkrum atriðum, sem ég óskaði eftir, að n. athugaði. Ég veit ekki, að hve miklu leyti það hefur verið gert, og ætla heldur ekki að fara út í það, en þegar ég sá nál., fannst mér skylt að bera fram þær brtt., sem ég ber fram á þskj. 1102.

Mér hefur skilizt á ræðu hv. frsm., að hann hafi ekki haft tækifæri til að ræða þessi sérstöku atriði í n. Bæði er það, að till. kom ekki fram hér fyrr en í dag, og auk þess hefur n. m.a. ekki neitt grennslazt eftir hjá mér, hvað fyrir mér vakti, þegar ég hreyfði mínum aths. á sínum tíma, en með því að sumar af þessum till. eru mjög veigamiklar till. í málinu, vildi ég mælast til þess, að hv. frsm. fengi þessari umr. frestað og tæki málið fyrir aftur á fundi, fengi þar ræddar þessar ákveðnu till. á þskj. 1102 og athugaði svo, hvort n. sæi sér ekki fært að fylgja þeim, annaðhvort í þeirri mynd, sem þær koma fram þar, eða einhverri annarri mynd, sem næði að einhverju leyti þeim tilgangi, sem til er ætlazt. Ég geri að vísu ekki að neinu kappsmáli, hvort þessari umr. er frestað eða hvort það er gert fyrir 3. umr., en ég vænti þess, að hv. frsm. fari þannig með málið.

Áður en farið er út í málið sjálft, þykir mér hlýða að minnast svolítið á, hvernig þetta mál hefur verið borið fram, og leiðrétta þar dálitla missögn, sem kom fram í ræðu hv. frsm., sem ég hygg, að ekki hafi verið af ásettu ráði, heldur af athugunarleysi, er hann minntist á samþykktir þingflokkanna í þessu máli. Þá er þess fyrst að minnast, að eftir að Alþ. hafði setið a.m.k. í 3 eða 4 mánuði af árinu 1943 og síðan fram undir vor 1944, þá kemur hæstv. fyrrv. ríkisstj. — ekki einungis nokkrum dögum eftir, heldur nokkrum klukkutímum eftir að búið er að fresta Alþ. og spyrst fyrir hjá flokkunum, hvort þeir séu ekki samþykkir því, að keyptar séu eignir af setuliðinu. Ég álít, að þessi meðferð málsins sé algerlega óverjandi út af fyrir sig. Bæði hæstv. utanrh., sem ég hygg að hafi staðið í þessu aðallega, og eins hæstv. fjmrh. hlaut að vera ákaflega ljóst, að þetta mál lá fyrir, fyrr en því var hreyft við þingflokkana, og þess ber að gæta sérstaklega, að þegar um þetta mál var að ræða, sat ríkisstj., sem ekki hafði fylgi nokkurs þm. og gat þess vegna ekki tekið svo stórkostlegt málefni á sínar herðar. Ég skal ekki fara mikið út í þetta atriði, því að það er liðið og því verður ekki kippt aftur, en hitt er ekki rétt með farið hjá hv. 1. þm. Reykv., að hér hafi legið fyrir samþykkt allra flokka, því að send voru mótmæli frá Sjálfstfl., stærsta þingflokknum, um að þessi háttur væri hafður á um kaupin. Mér er fullkomlega kunnugt um þetta og m.a. kunnugt um það, að sá fulltrúi, sem Sjálfstfl. síðar útnefndi í n., Helgi Eyjólfsson byggingarfulltrúi, hrakti ofan í hana hver einustu rök, sem hún færði fyrir málinu til sönnunar um, að hér væri í rauninni um hagkvæm kaup, að ræða. Ég vildi aðeins leiðrétta þetta um leið, að hér hefði Sjálfstfl. ekki verið að verki í þessum málum. Það, sem rætt var um alveg sérstaklega í Sjálfstfl., þegar þetta fór fram, og megináherzla var lögð á, var einmitt, að ef ætti að kaupa þetta, þá yrði það gert þannig, að öll tákn setuliðsins væru afnumin sem allra fyrst burt úr landinu, þ.e. að öll þessi hús og mannvirki yrðu rifin, jörðin yrði jöfnuð til og það yrði grætt upp, sem áður hefði verið spillt, svo að engin tákn sæjust eftir hernámið innan ákveðins og hæfilegs tíma. Það kann að kosta ríkissjóð töluvert, en það er alveg áreiðanlegt, að þá kröfu átti landið á hendur setuliðinu frá upphafi.

Nú vil ég benda á, að þegar þessi mál voru rædd, þá var rætt um, að sjálfar eignirnar mundu ekki kosta nema sem svaraði 1 millj. kr. Ég hef heyrt síðan, að þær hafi allar fengizt fyrir minna verð, og hv. frsm. upplýsti, að þær eignir hefðu verið keyptar á kr. 605971.00. — Ég veit ekki, hvort á að skilja það þannig, að meiri hlutinn sé seldur. Ef svo er, er langt frá, að áætlunin geti staðizt, en ef hins vegar mikill hluti eignanna er óseldur, skilst mér, að miklu meira hafi verið gefið fyrir eignirnar en gefið hefur verið út almennt, því að mér hefur verið sagt, að þessar eignir allar hafi verið keyptar á 750 þús. kr., eða 250 þús. kr. minna en gefið var út til flokkanna á sínum tíma. Þá var gefið upp, að eignirnar mundu að vísu ekki kosta nema 1 millj. kr., en þegar allt kæmi til alls og búið væri að greiða allt jarðrask og allar þær kröfur, sem kæmu frá viðkomandi aðilum í sambandi við það, og búið væri að rífa þetta allt niður og koma því í fé, væri ekki að ræða um 1 eða 2 millj. kr., heldur milli 11 og 12 millj. kr. í heild. Það var alltaf gengið út frá því, að það væri sá kostnaður, sem þessi kaup kynnu að hafa í för með sér. Sé það raunverulega rétt, sem ég hef enga ástæðu til að rengja, því að það lágu fyrir um það mjög miklar upplýsingar og útreikningar, þá verð ég að segja, að ef enn þá er ekki búið að selja nema fyrir 4 millj. kr., þá er langt í land enn, til þess að það sé nægilegt gegn þeim 11 til 12 millj., sem gert er ráð fyrir, að það kosti ríkissjóð. Sé hins vegar líka rétt, að allar eignirnar hafi ekki verið keyptar nema fyrir 750 þús. kr. og þegar sé búið að selja verðmæti keypt fyrir rúmar 600 þús. kr., má vel selja afganginn, ef hann á að greiða þær 8 millj., sem á vantar í þessum efnum, en út í það skal ég ekki fara mjög nánar. Ég hefði þó talið það vera ákaflega eðlilegt, að þær tölur, sem hér liggja fyrir, hefðu verið látnar fylgja með í þskj., því að vitanlega er hér enginn leyndardómur á ferðinni.

Ég vil lýsa dálítið þeim brtt., sem ég hef borið fram, og hvað liggur á bak við, að ég hef borið fram svo róttækar brtt. á þeim l. Ég viðurkenni, eins og ég sagði áðan, að það þýðir ekki að tala um hluti, sem búið er að gera, en það raskar ekki því, að sjálfsagður hlutur sé enn að fara eins viturlega með þessi mál og unnt er og ná einmitt því takmarki, sem til var ætlazt í upphafi, eftir því, sem hv. 1. þm. Reykv. hélt fram, m.a. með því að reyna að nema í burtu öll merki, eins fljótt og unnt væri. Hann hélt einmitt fram, að þetta hefði verið önnur aðalástæðan fyrir því, að þessi kaup hefðu verið gerð, og svo hin, að tryggja landsmönnum góð kaup á mörgum og heppilegum efnum, og skal ég nokkuð koma að því nánar.

Ég hef hér undir a-lið lagt til, að sá háttur yrði hafður á, að í lok hvers mánaðar skyldi n. senda tollstjóra nákvæma skýrslu yfir allt efni, sem selt er, hvort heldur það hefur verið selt sem fasteign eða lausafé, og síðan skyldi tollstjóri reikna tolla eftir tollskránni af því efni, eins og það væri flutt inn, og innheimta þá hjá n. Það má vel segja, að þetta sé kannske nákvæmlega sama, því að síðan verði það, sem afgangs er, fé ríkissjóðs. En það er ekki nákvæmlega sama. Það er ákaflega eðlilegt, að ríkissjóður fái á þann hátt tollgreiðslur strax, og það er þá líka auðveldara að sjá, hvort þetta fyrirtæki út af fyrir sig kemur til að bera sig fjárhagslega eða ekki, því að það er vitanlega ekki að bera sig fjárhagslega, þótt það á sínum tíma, kannske á mörgum mánuðum eða mörgum árum, skili einhverjum hagnaði, sem er t.d. ekki það mikill, að hann nægi til að greiða tollinn af sams konar efni, ef það er flutt inn, en allt þetta efni hefur verið flutt tolllaust inn í landið. Ég vænti þess því, að hv. fjhn. geti fallizt á þessa till., þótt hins vegar megi segja, að það sé kannske að reikna dæmið svona eða hinseginn og útkoman geti verið sú sama.

Ég hef hins vegar lagt til í b-lið, að sala og endursala á þessu efni skuli háð verðlagseftirliti á sama hátt og aðrar vörur, og þegar efnið sé selt, beri að taka tillit til þess, að það sé gamalt og notað og verðið sé ákveðið eftir því. Ástæðan til þess, að ég ber þetta fram, er sú, að mér er persónulega ljóst, að hér er gengið langt út fyrir verðlagsákvæðin. Ríkið hefur hér selt í stórum stíl efni í smásölu, og síðan hefur mönnum verið leyft að selja það aftur í smásölu, og það út af fyrir sig er alveg gagnstætt verðlagslögunum. Mér er algerlega ljóst, að langmest af þessu timbri hefur verið selt við Rauðhóla fyrir 20% minna en hægt er að taka nýtt og gott timbur fyrir í Völundi í smásölu. Þegar litið er á þetta, er raunverulega verið að vernda ríkið til að pranga með vörur, hvorki góðar né nýjar, og ríkinu þar með skapaður langtum meiri réttur en þegnunum. Þetta er svo ákaflega mikið atriði, að það er ekki hægt að ganga fram hjá því og sjálfsagt að fara með þetta, bæði með sölu og endursölu, eins og aðrar vörur í landinu. Því var haldið fram, þegar rætt var um, hvort kaupa ætti þessar eignir eða ekki, að þetta skapaði svo mikla vinnu í landinu, að það skipti millj. Ég hef hins vegar alltaf álitið og álít enn, að það hefði verið miklu skynsamlegra að nota þessar 11 til 12 millj. kr. til þess að flytja inn nýtt efni og byggja upp nýja verkamannabústaði eða nýja bústaði í landinu heldur en að fara þá leið, sem farin er, en eins og ég sagði áðan, þá þýðir ekki að deila um það. Það er ekki hægt að leyna því, að með þessu var erlendu herliði sleppt við afar veigamiklar kröfur, sem það átti að uppfylla gagnvart íslenzku þjóðinni, kröfur, sem voru metnar hvorki meira né minna en yfir 10 millj. kr.

Í 2. lið hef ég lagt til, að 4. gr. frv. verði breytt, þannig að úrskurði n. megi skjóta til aðgerða dómstólanna. Ég tel algerlega óverjandi, að l. fari héðan eins og 4. gr. er nú, að úrskurður n. sé fullnaðarákvörðun um bætur. Nú skulum við líta á, hvernig þessi n. er skipuð. Hún er skipuð samkv. 3. gr., þannig að ríkisstj. felur hæstarétti að tilnefna 3 manna n. til að ákveða bætur handa landeigendum hér á landi vegna landspjalla, sem þeir hafa orðið fyrir af völdum setuliðsins. Hæstiréttur ákveður, hver matsmanna fer með formennsku í n., og skal hann vera lögfræðingur. Þessum dómi, sem er eini dómurinn í málinu, sem ef til vill getur oltið á tugir og kannske meira en tugir þúsunda fyrir þegnana, á ekki að vera hægt að krefjast yfirmats á. Það eru ekki einu sinni 5 menn í n. og aðeins einn maður lögfróður og ekki hægt að áfrýja þessum úrskurði. Ég trúi ekki fyrr en ég tek á því, að nokkur maður í þessari hv. d, leyfi l. að fara út með þessum ákvæðum og sízt að þeir menn í hv. fjhn., sem þekkja meðferð mála og sókn og vörn fyrir hæstarétti, eins og hv. þm. Seyðf., láti sér ekki detta í hug að gera ágreining, þegar hafðar eru svona aðfarir. Ég tel svo freklega gengið á rétt þegnanna, að öllu öryggi sé kippt undan kröfum þeirra gagnvart ríkinu í sambandi við þetta mál.

Þá kem ég að 3. og síðustu till., og hún er náttúrlega langveigamesta till. í þessu máli, en hún er sú að tryggja, að öll merki eftir setuliðið séu numin burtu. Ég hef lagt hér til, að við 5. gr. á eftir meginmálsgreininni komi ný málsgr., þar sem algerlega sé ákveðið í l., að áður en 2 ár séu liðin, skuli állar þessar fasteignir, sem hér um ræðir, vera rifnar niður og allt jarðrask grætt. Ég veit, að þetta er vilji þjóðarinnar. Hún vill ekki, að þessi tákn og þessi merki séu á landinu, og úr því að ríkið hefur tekið að sér að ganga inn í skuldbindingar annarra ríkja, og það hefur það gert hér, ber því að sjálfsögðu skylda gagnvart þegnunum og gagnvart landinu til að uppfylla þessa skyldu, eins og hún hefði verið uppfyllt af hinum, og það er, að allt verði rifið í burtu og jarðrask ekki aðeins bætt, heldur grætt. Þetta er mér meginatriðið í þessu máli, og ég verð að segja, að þótt þetta ætti að kosta ríkissjóð nokkrar milljónir, hika ég ekki við að greiða atkvæði með því, að þetta ákvæði verði uppfyllt. Ég hef hins vegar talið rétt, að hér væri gerð alveg sérstök undanþága, þegar sérstaklega stendur á, þannig að þau vörugeymsluhús eða önnur stórhýsi, sem hafa verið reist, annaðhvort hér í þessum bæ eða annars staðar og nota mætti áfram sem framtíðarbyggingar í landinu, fengju að standa áfram, en þó því aðeins, að skipulagsstjóri ríkisins og byggingarnefndir hlutaðeigandi bæjarfélaga fallist á, að þessar byggingar megi standa til frambúðar.

Ég vil nú fastlega vænta þess, að hv. frsm. leiti álits t.d. skipulagsstjóra um þetta atriði og byggingarnefndar í Reykjavík, hvort það út af fyrir sig sé þeirra hugmynd að leyfa eða láta þessar byggingar standa til langframa hér í bænum, en ef álitið er, að ljótt sé að hafa þær sem varanlegar byggingar hér í höfuðborginni, getur ekki verið nein prýði að hafa þær sem varanlegar byggingar meðfram öllum vegum úti um landið, til að gereyðileggja áhrif íslenzkrar náttúru.

Ég hef tekið fram hér flest af því, sem ég þarf að segja í þessu máli, nema sérstakt tilefni gefist. Ég varð raunverulega undrandi yfir þeim tölum, sem ég fékk upp, því að ég hafði búizt við, að ágóðinn yrði miklu meiri en gert var ráð fyrir, sumpart miðað við verðlagið hér og sumpart við það magn, sem mér skilst, að búið sé að selja. Ég verð að segja, ef þessi viðskipti eiga að standa í 2 ár eða svo, að þá geri ég ekki ráð fyrir, að um feitan gölt sé að ræða fyrir ríkissjóð. Annars geri ég það ekki að deiluatriði. Hitt legg ég miklu meiri áherzlu á, að sett sé inn í frv., að þetta sé allt numið í burtu fyrir ákveðinn tíma, svo að landið, eins og það var áður, beri þess engin merki, að þessar leiðinlegu og ljótu byggingar hafi staðið hér á landi.