13.02.1945
Efri deild: 126. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

141. mál, kaup eigna setuliðsins

Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en ég vil leiðrétta annaðhvort háttv. þm. Barð. eða mig. Ég ætlaði að segja, að stj. hafi borið þetta undir þingflokkana, en ekki, að þingflokkarnir allir í sameiningu hafi samþ. þetta.

Ég skal ekki fara út í brtt. háttv. þm. Barð., en ég held, að gott væri, ef hann vildi taka þær aftur til 3. umr.

Þótt fjhn. hafi lokið miklu nú síðustu dagana, þá eru samt mörg mál eftir, svo að hún hefur nóg að gera. Það kann vel að vera, að rangt hafi verið að kaupa skálana, en ég held, að brtt. háttv. þm. Barð. miði ekki í rétta átt. Sennilega hefðu verið sendir verkfræðingar hingað upp með stórvirk tæki, sem hefðu rifið skálana í heilu lagi og jafnað síðan yfir. En ég hygg, að mörgum hafi þótt þetta góður fengur, og það hefði verið smásálarlegt að vilja ekki greiða þessar krónur fyrir. Ég skal sjá til, að þessar brtt. verði teknar fyrir í n., enda þótt mér sé ekki fullkomlega ljóst, hvernig ætti að framkvæma fyrri brtt., að heimta toll af því, sem þegar er búið að selja. Ef þetta hefði verið gert þegar í upphafi, þá var það auðvitað framkvæmanlegt, en það hefði komið niður á þeim landsmönnum, sem kaupa þetta. En ég vil helzt skoða þetta sem nokkurs konar hvalreka, sem landsmenn eiga að fá að njóta, enda mjög erfitt að koma við verðlagseftirliti. Viðvíkjandi því, að sölunefndin úrskurði endanlega ef ágreiningur verður, þá mun það vera gert til þess að gera þetta einfaldara og forðast fjölda dóma og málaferli, sem ella yrðu.

Síðasta till. hv. þm. er ég sammála, að skálarnir eigi að hverfa. Að vísu mun fyrst um sinn viða mega sjá þessi hvolfþök úti um land, en með tímanum munu þau alveg hverfa, enda mun till. háttv. þm. fyrst og fremst eiga við heil hverfi, fremur en við einstaka bragga. Í 5. gr. frv. stendur. „Nú tekur ríkisstjórnin til umráða eða eignar mannvirki, sem setuliðið á hér á landi, og er þá ríkisstjórninni heimilt að fengnu samþykki hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórnar að láta þau vera áfram þar, sem þau eru, gegn bótum, sem nefnd sú, er um getur í 3. gr., ákveður.“ En samkvæmt brtt. skal þetta orðast svo í síðari hluta málsgr.: „Undanþegin þessu ákvæði eru þó stór vörugeymsluhús eða önnur stórhýsi, enda hafi skipulagsstjóri ríkisins og byggingarnefndir hlutaðeigandi bæjarfélaga fallizt á, að byggingin mætti standa þar sem framtíðarbygging.“ Í báðum till. eiga byggingarnar að hverfa að fáum undanteknum, og ég er ekki viss um, hvor till. er sterkari því viðvíkjandi. En um það erum við sammála, að þessar byggingar eiga að hverfa. Ég get lofað, að þessar brtt. verði athugaðar í n., en ég get ekki lofað, að leitað verði umsagnar margra tímans vegna.

Mér fannst gæta nokkurs ósamræmis í því hjá háttv. þm. Barð., þar sem hann talar annars vegar um, hvað þessi viðskipti séu varasöm og útlitið slæmt, en hins vegar er hann óánægður með þá skýrslu, sem ég gaf hér, og sýnir hún þó allmikinn gróða.