14.02.1945
Neðri deild: 129. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ræða hv. 2. þm. S.-M. gæti gefið ærið tilefni til þess, að hér væri flutt nokkuð ýtarleg ræða um stjórnmálastefnu þá, sem hann hefur fylgt undanfarin ár, og sérstaklega um það mál, sem hér er nú til umr. Ég skal stilla mig um hvort tveggja. Ég get þó ekki látið vera að gera nokkra athugasemd við þessa ræðu hans. Það má kannske segja, að það sé ekki réttlátt að undrast ræður um skattamál frá þessum hv. þm. vegna þess, að maður er orðinn svo vanur að heyra margt undarlegt um skattamál frá honum. En sannarlega átti ég von á að heyra margt annað frá þessum hv. þm. en þennan grátstaf og harmakvein fyrir hönd skattþegnanna í landinu. Enginn maður, sem hefur komið inn á Alþ., hefur látið eins greipar sópa um skattainnheimtur landsmanna og hann. Og það er á allra vitund, að þau skattsvik, sem skattþegnarnir hafa framið undanfarið, má rekja aftur í stjórnartíð þessa hv. þm. og telja aðalorsökina fyrir þeim þá gífurlegu skattaálagningu, sem hann barðist fyrir. Og ég minnist þess, sem hinn gætni stjórnmálamaður Jón sálugi Baldvinsson sagði oftar en einu sinni, að sér ofbyði sú skattastefna, sem þessi ungi fjmrh. væri að innleiða hér á landi.

Þessi hv. þm. hefur gengið fremstur af öllum þm. fyrir því fram á þennan dag að ná sem mestum skatti af þjóðfélagsþegnunum. Þess vegna er hann dálítið undarlegur þessi harmagrátur hans nú, nema að því leyti, sem við vitum og oft hefur verið lýst yfir af honum og hans fl., að þeir eru argir yfir því, að einhver aðili skuli eignast eitthvað hér á landi, án þess að sá fl. fái að ráða yfir þeim hagnaði. En það telur hann og hans fl. frumskilyrði fyrir því, að nokkur maður megi eignast eitthvað í þessu landi.

Ég vil svo ekki fara langt út í að svara einstökum ummælum, sem þessi hv. þm. hefur viðhaft. Ég veit, að hv. þm. gera sér fulla grein fyrir því, að Eimskipafélagið á að hafa sérstöðu, eins og það hefur haft, í þjóðfélaginu. Ég má segja það, þessum hv. þm. til lofs, að hann hefur barizt fyrir því, að Eimskipafélagið hefði skattfrelsi, alveg síðan hann kom á þing. Síðast, þegar það var til umr. hér á Alþ., kom fram till. frá flokksbróður hans, sem er kunnur fyrir það að vera honum jafnvel enn þá verri í skattamálum, — og þó að ég teldi hv. 2. þm. S.-M. þann versta, hvað þessi mál snerti, áðan, þá er það af því að ég tek miklu meira mark á honum, — þessi flokksbróðir hans lagði til, að Eimskipafélagið fengi skattfrelsi aðeins eitt ár, en hv. 2. þm. S.-M. beitti sér eindregið gegn því, og sú framkoma kom vel heim við þá grundvallarskoðun, sem virtist ríkja í huga þessa hv. þm. þá.

Ég veit, að hv. þm. gerir sér grein fyrir því nú, eins og hann gerði þá, að það gegnir allt öðru máli með Eimskipafélagið heldur en nokkurn annan aðila, sem hér starfar á því sviði. Eimskipafélagið er í eign 13 eða 14 þús. manna, flestra búsettra hér á landi og nokkurra búsettra í Vesturheimi. Það er kannske ekki hægt nú í dag að telja upp alla eigendur þessa félags, en það er á allra vitund, að það hafa ekki orðið neinar verulegar breyt. á hluthafaskránni frá því sem hún lá fyrir. Það eru 13–14 þús. eigendur.

Þegar ég var atvmrh. fyrir nokkrum árum, fór ég fram á að fá að vita, hve margir ættu yfir 5 þús. kr. í Eimskipafélaginu. Það voru örfáir menn. Og ég hygg, að skattstofan hafi vitað það. Og það er hægt fyrir n., sem athugar þetta mál, að fá um það upplýsingar. Ég hygg, að tekin séu af öll tvímæli um það í nútíð og framtíð, að engar verulegar breyt. á hluthafaskránni hafi átt sér stað nema fyrir ráðstafanir ríkisstj. Ég er þakklátur Eimskipafélaginu fyrr og síðar fyrir það mikla þjóðþrifastarf, sem það hefur haft á hendi. Og ég veit ekki betur en hv. 2. þm. S.-M. sé mér nákvæmlega sammála um það. Og ég man ekki um neinn af mínum samstarfsmönnum í ríkisstj. heldur en hann, að hann, sem ráðh., gæti borið því vitni, að Eimskipafélagið hefði ekki jafnan farið eftir óskum ríkisstj. þeirrar, sem hann hefur tekið þátt í. Sama hef ég heyrt frá öðrum ríkisstj. Þetta er líka mín reynsla. Ég tel Eimskipafélagið bezta varasjóðinn, sem ríkið á, og frá því sjónarmiði er ég mjög eindregið fylgjandi skattfrelsi Eimskipafélagsins. Ég hef oft hugsað um þetta mál. Og ég tel, að við séum öruggari með það fé, sem safnazt hefur hjá því félagi heldur en mörgum öðrum sjóðum, sem við höfum umráð yfir, af því að við höfum oft orðið að ganga feti lengra en okkur hefur gott þótt um ráðstafanir á þessum sjóðum og ríkiseignum, sem Eimskipafélagsstj. hefur ekki þurft að gera, enda haldizt betur á sínu fé heldur en okkur á fé ríkisins.

Ég hef helzt skilið það á hv. þm., að meginótti hans um einhverja þjóðarógæfu, sem af þessu gæti stafað, væri í því fólginn, enda þótt hann ekki neitaði, að í öllum aðalefnum væri hluthafaskráin eins og hún var, að Eimskipafélaginu væri stjórnað af aðeins fáum mönnum, sem þar réðu öllu, sem máli skipti. Nú má það vera, að svo sé, en slíkt má og getur aðeins átt sér stað, að hluthafar allir telji sig við una, og ég hygg, að svo sé.

Ég er þess fullviss, að ef stj. Eimskipafélagsins lýsti sér þannig, að þjóðarhagurinn væri fyrir borð borinn, þá dreg ég ekki í efa, að allur hinn mikli fjöldi hluthafanna mundi fáanlegur til þess að rísa gegn þeirri stefnu og fáanlegur til þess að láta sín gæta öðruvísi og meira á stj. félagsins en raun hefur borið vitni að þessu.

Sú staðreynd, að fáir menn stjórni þessu félagi, er ekkert annað en sönnun þess, að Eimskipafélagið hefur alltaf hagað sér fram á þennan dag eins og bezt verður á kosið. Að ástæða sé nú til, að öðruvísi verði, get ég ekki viðurkennt. Og ég sé ekki heldur neinn skiljanlegan grundvöll fyrir því.

Við hv. 2. þm. S.–M. vitum báðir, að hér á landi er starfandi annar félagsskapur, — ég veit ekki, hvort hann er eins ríkur og Eimskipafélagið, — ég á þar við S.Í.S. og samvinnufélagsstarfsemina í landinu. Sú starfsemi nýtur alveg sérréttinda í skattgreiðslu. Við vitum báðir, að það eru tiltölulega fáir menn, sem þar ráða öllu, enda þótt félagsmenn séu mjög margir. En ég hygg, að þeim haldist það uppi aðeins vegna þess, að þeir mörgu, sem á bak við þá standa, en þeir munu skipta þúsundum eða tug þúsunda, eru ánægðir. Ég hygg, að það sé að þessu leyti mjög svipað um bæði þessi félög, að þótt í þeim sé mikill fjöldi meðlima, séu það tiltölulega fáir menn, sem þar ráða. Bæði þessi félög njóta sérréttinda, — sem ég þó skal viðurkenna, að það geti komið til athugunar að afnema skattfrelsi þeirra, en mér virðist það ekki liggja fyrir nú. Og á meðan Eimskipafélagið heldur áfram að haga sér í einu og öllu að allra dómi eftir vilja ríkisstj. á hverjum tíma, sé ég ekki ástæðu til þess að óttast, þó að þetta félag háfi eignazt nokkra fjárupphæð, sem kannske nægir til þess að byggja 5–6 miðlungsskip.

Þessi ótti, sem lýsir sér hjá hv. þm. og er honum í blóð borinn, við fjármuni er mér alveg óskiljanlegur. Ég hef hvað eftir annað orðið þess var, að þessi hv. þm. er hræddari við fjármuni, sem hann þá hefur ekki umráð yfir sjálfur, heldur en krakki er hræddur við drauga. Mér finnst þetta eins konar sjúkleiki, sem fram kemur í ræðu hv. þm. gagnvart Eimskip, þegar því einu er til að dreifa, að þetta félag, sem hefur tekið að sér allan meginhlutann af þörf hins íslenzka eyríkis um samgöngur á sjónum, þó að það hafi nú hina erfiðustu aðstöðu til þess, eftir að það hefur misst tvö af sínum beztu skipum, að það þarf að eignast 5–6 skip til flutninga að ófriðnum loknum.

Hv. 2. þm. S.-M. hefur verið mjög harðorður í garð ríkisstj. og þá sérstaklega hæstv. fjmrh. fyrir þau ummæli hans, að hann teldi það engan skaða, þó að Eimskip eignaðist eitthvað, og enn fremur að hæstv. fjmrh. bæri þá að sýna fram á, hvers vegna væri meiri ástæða til þess að halda þessum hlífiskildi yfir Eimskipafélaginu heldur en þeim, sem nú er verið að íþyngja með sköttum.

Ég vil spyrja þennan hv. þm., sem sjálfur, meðan hann var fjmrh., lagði þá þyngstu skatta á þjóðina, sem lagðir hafa verið á hana, — og t.d. sjávarútvegurinn var um það bil að gefast upp, meðan hann var ráðh., — og um leið barðist fyrir skattfrelsi Eimskipafélagsins: Var það af því, að hann vildi gjarnan pynta menn með þessum sköttum? Þetta verður varla skilið á annan veg en að ótti og hræðsla grípi þennan hv. þm., ef tveir krónupeningar liggja saman, — ekki í bókstaflegum skilningi, heldur í yfirfærðum skilningi, — vitandi þó, að samkvæmt íslenzkum venjum og lögum er hægt fyrir ríkið að ná tökum á hvaða starfsemi sem er, um leið og hún fer út fyrir það að þjóna þjóðarheildinni.

Ég kalla þetta þess vegna sjúklegan ótta og ekkert annað.

Hv. þm. sagði, að ríkissjóður væri fátækur og hann yrði í fjárþörf. Mér er það fullkomlega ljóst. að hann er fátækur nú, en það mun þó varla vera verr ástatt fyrir honum en einmitt, þegar þessi hv. þm. var fjmrh. En við skulum láta það liggja á milli hluta. Reynslan verður að skera úr um þörf ríkissjóðs.

Hins vegar var þessi hv. þm. með margar fullyrðingar um það, að Eimskipafélaginu yrði engin skotaskuld úr því að standa undir nýsköpuninni. Ég fagna því, að það skuli eiga þessar millj. kr., en ég harma það, hvað þær eru fáar. Þær nægja aðeins til þess að byggja 5–6 miðlungsskip.

Eimskipafélagið hefur snúið sér til nýbyggingarráðs til þess að fá leyfi til þess að byggja eða kaupa skip. En þó að þessi 5 eða 6 skip komi hingað, þá er það ekki nóg nema aðeins til þess að bæta úr hinni brýnustu þörf okkar á þessu sviði.

Norðmenn hafa rekið sem arðvænlegan atvinnurekstur að láta skip sín sigla um úthöf alheimsins. Ég dreg í efa, að Norðmenn séu betri siglingamenn en Íslendingar. Og ég hygg, að við Íslendingar ættum að reyna að feta í fótspor þeirra og koma hér upp skipastóli, ekki aðeins til þess að annast flutninga milli Íslands og annarra landa, heldur líka til þess að sigla á um úthöfin og draga þannig fé í þjóðarbúið. Ég tel það hina mestu þörf. Og ef Eimskipafélagið gæti gengið þar á undan, teldi ég það vel farið.

Svo skal ég viðurkenna það, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði viðvíkjandi flutningum Eimskipafélagsins, að það getur vel komið til mála að leggja á Eimskipafélagið einhverjar kvaðir um það, að ríkið þurfi ekki að annast strandferðir og Eimskipafélagið þann hluta af siglingunum, sem telja mætti arðvænlegri. Ég er fullkomlega viðmælandi um það. Það vakir ekki fyrir mér að halda óeðlilegri verndarhendi yfir Eimskipafélaginu, heldur vil ég, að það haldi áfram að vinna fyrir þjóðarheildina. Ég álít Eimskipafélagið hina þörfustu þjóðareign, og ég vil vernda það sem slíkt.

Hv. þm. talaði um okurgróða Eimskipafélagsins. Það er satt, Eimskipafélagið hefur grætt stórkostlega 1943, en ég held, að það sé í eina skiptið, sem ríkisvaldið hefur ákveðið tekjur félagsins. En þó að menn vilji sjá ofsjónum yfir þessum tekjum, þá er það ekki annað en það, að þjóðin hefur á þessu ári eignazt 2–4 ný skip, og það er út af fyrir sig ekkert sorgarefni. Öðru máli væri að gegna, ef hluthafarnir hefðu fengið þetta fé allt saman, en ég vænti, að hv. þm. sé ljóst, að af þessum peningum hafa hluthafarnir ekki fengið nema 52 þús. kr., nema þá ríkið. Þetta er í sjóðum, sem ætlað er að taka á sig að rísa undir þeirri þörf, sem hvað mest kallar að, að við verðum sjálfir færir um að annast alla flutninga til landsins að stríðinu loknu, undir eins og við höfum getað fengið byggð ný skip.

Það þýðir ekki að tala um Eimskipafélagið eins og einhverja okurstofnun, sem reki þjóðhættulega starfsemi. Það er staðreynd, að Eimskipafélagið hefur rekið eitt hið mesta þjóðþrifastarf í landinu og hluthöfunum hefur aldrei verið greiddur arður meira en 4% af þeirra hlutafé, og nú er ætlað að tryggja það með beinum ákvæðum þeirra l., sem nú eru hér borin fram.

Ég hef skrifað hjá mér ýmislegt fleira, sem hv. þm. sagði, en ég held, að ég fari ekki að svara honum frekar. Ég býst við, að málið skýrist ekki, þó að ég fari að ræða hans afstöðu til skattamála yfirleitt, því að það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er það, sem hefur verið margtekið fram, að hér er um að ræða félagsskap, sem í áratugi hefur sýnt, að hann starfar á þjóðhollum grundvelli, félagsskap, sem þessi hv. þm. hefur alltaf verið ásáttur um að láta njóta skattfrelsis, félagsskap, sem vitað er um, að hefur í framtíðinni nákvæmlega sömu, ef ekki meiri, þjóðarþýðingu en fram að þessu. Af þessum ástæðum lít ég svo á, að það sé ekki síður ástæða nú en áður til að veita þessu félagi skattfrelsi, um leið og ég skoða mig óviðbúinn að bera ábyrgð á því, að þetta félag sé, með því að þingið synjaði því um skattfrelsi, losað undan þeirri kvöð, sem á því hvílir um að halda uppi svipaðri starfsemi eins og það hefur rekið fram að þessu. En ef þessi hv. þm. getur ekki aðhyllzt þessa stefnu, — því að hann orðaði það svo, að það væri þjóðhættulegt að veita einkarekstri sérréttindi og það yrði annaðhvort að vera einkarekstur eða ríkisrekstur, en ekkert þar á milli, — ef hann heldur fast við þá grundvallárskoðun, þá má athuga að gera þá breyt. á skattal., að þar njóti engir neinna sérstakra hlunninda.

Ég skal svo til að forðast að lengja umr. fram úr hófi stilla mig um að svara ýmsu. sem væri ærið yrkisefni, ef menn vildu það viðhafa, af ummælum hv. 2. þm. S.-M.