14.02.1945
Neðri deild: 129. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir hlýða, þó að ég hafi ekki ætlað mér það við þessa umr., að fara um þetta frv. nokkrum orðum vegna þeirrar gagnrýni, sem það hefur sætt frá hv. 2. þm. S.-M. nú áðan.

Ég vil þá fyrst minnast á, hvernig þetta frv. er til orðið og hvaða munur er á því og öðrum frv. svipaðs eðlis, sem áður hafa verið flutt hér á þingi.

L. um skattfrelsi Eimskipafélagsins voru fyrst flutt á þingi 1928 og hafa síðan á hverju einasta þingi eða öðru hverju þingi verið framlengd á svipaðan eða sama hátt. Það hlýtur þess vegna að vakna sú spurning, hvort sé nokkuð sérstök ástæða nú til að stöðva þessa skattaívilnun eða hvort félagið hafi með starfsemi sinni gefið það til kynna eða hagað sér á þann hátt, að nú beri að taka aðra afstöðu til þessa máls en áður var gert, því að afstaða hv. 2. þm. S.-M. er nú vissulega allmiklu öðruvísi en verið hefur áður. Áður hefur hann, eins og hæstv. forsrh. réttilega tók fram áðan, staðið mjög fast með því, að þetta skattfrelsi yrði veitt, í staðinn fyrir það; að nú þykir honum það svo óhæfilegt, að hann kallar þetta stappa nærri einræði eða einveldi félagsins, sem gerði það alls ráðandi, eftirlitslaust og samkeppnislaust, eins og hann orðaði það, ef frv. yrði nú samþ.

Það, sem mér skilst, að sé það eina, sem hann fettir fingurna út í eða gerir greinarmun á frá því, sem áóur var, er það, að félagið hafi nú safnað fé meira en nokkru sinni áður. Þá hlýtur fyrst að vakna sú spurning, hvort þetta fé, sem félagið hefur safnað, sé óhæfilega mikið til þess, að það geti innt sitt starf af hendi, eða hvort þessum gróða hefur verið ráðstafað til hluthafa svo mikið, að óforsvaranlegt sé að láta félagið hafa þau skattfríðindi, sem það hefur haft að undanförnu.

Mér hefur borizt bréf frá stjórn Eimskipafélags Íslands fyrir ekki löngu, þar sem félagið fer fram á, að stj. aðstoði það við byggingu nýrra skipa, sex að tölu. Var tekið fram í bréfinu, að bréf svipaðs efnis væri sent til nýbyggingarráðs til þess að leita aðstoðar þess og leyfis til að byggja skip, byggja mörg skip. Það er talað um sex skip og gert ráð fyrir því, að það sé miðað við þá upphæð, sem félagið hefur nú fyrir hendi til þessara framkvæmda. Ef frekara fé væri fyrir hendi, þá mætti ætla, að fleiri skip yrðu byggð eða hærri tala nefnd.

Ég lít svo á, að sú fjárhæð, sem félagið hefur safnað á þessum árum, sé alls ekki of há, heldur þvert á móti of lág til þess, að það geti rækt þá starfsemi, sem það ætlar hér að inna af hendi. Ég vil í þessu sambandi benda á, að fyrir stríð voru hér starfandi erlend skipafélög, sem voru í harðri samkeppni við Eimskipafélag Íslands. Allt fram undir ófriðinn var þessari starfsemi haldið áfram. Ég hef heyrt óljósan ávæning af því, þó með nokkrum rökum, að það sé hugsað til þess, að starfsemi, ekki ósvipuð þessari, verði tekin upp hér að ófriðnum loknum, a.m.k. til þess hugsað af ýmsum aðilum. Það er þess vegna óhætt að gera ráð fyrir því, að Eimskipafélag Íslands mundi þegar að stríðinu loknu lenda í allharðri samkeppni, og í slíkri samkeppni er það venjulega, að allur kostnaður er lækkaður eins og mögulegt er. Og þá er fyrsta skilyrðið, liggur mér við að segja, til þess að geta staðizt samkeppni hinna fjársterku erlendu félaga, að þetta félag okkar geti átt skuldlaust eða sem allra skuldminnst skipin, sem það hefur í siglingum, og því aðeins geti það haldið uppi launakjörum og öllum útbúnaði, sem þarf að hafa í sæmilegu lagi, að það þurfi ekki að eyða óhæfilega miklu fé til vaxta og afborgana, þegar samkeppnin fer að harðna. Ég vil því segja, að það sé nauðsynlegt skilyrði, hvernig sem þessum málum er skipað og með þau farið, að sá innlendi aðili, sem fer með þessar skipaferðir okkar eftir stríðið; verði eins vel undir það búinn og frekast verður við komið og eigi skuldlaust þau skip og áhöld, sem hann notar til siglinganna. Út frá þessu vil ég draga þá ályktun, að því aðeins sé hægt að draga úr möguleikum félagsins til skipakaupa, að það hafi þegar safnað óþarflega miklu fé til þeirra, svo að það þurfi ekki á því að halda til þessarar starfsemi í landinu og það eitt eigi að ráða úrslitum um, hvort eigi nú að breyta um þá stefnu, sem ráðið hefur frá 1928 og hingað til óslitið og nálega samhljóða. Ef þessir fjármunir eru orðnir svo miklir, að þeir teljist óþarflega miklir, þá á að vera á móti þessu, — annars ekki.

En svo kemur hitt atriðið, en það er að tryggja, að meðferð þessa fjár í höndum félagsins verði á þann hátt, að þjóðin geti vel við það unað. Þegar l. um skattgreiðslu Eimskipafélagsins voru sett 1928, var sett það skilyrði, að það greiddi ekki hærri arð til hluthafa en 5%. Nú vitum við, að ekki var úthlutað 5%, heldur fyrstu árin eða öll árin 4%, og þegar illt var í ári, og það var alloft, þá var engum arði úthlutað, og nú á síðustu árum hefur verið horfið að því, og er það sett inn í þetta frv., að miða við 4%. Engin ákvæði hafa verið sett um, hvað gera skuli við tekjuafganginn, ef um gróða er að ræða, að honum skuli varið til skipakaupa eða á. annan hátt í þarfir félagsins. Þessi atriði er ég fús að ræða og að frv. verði orðað þannig að tryggja sem bezt, að þetta fé verði að sem mestu gagni, án þess að athafnafrelsi félagsins sé skert. Það er eðlilegt, að ríkisvaldið eigi rétt til, fyrir þessi skattfríðindi, að hafa hönd í bagga með starfsemi félagsins og fylgist með, hvernig það notar sér þessi fríðindi, og álit ég, að félagið eigi að sætta sig við það að sínu leyti.

Því hefur verið haldið fram, að félagið væri ekki eins almenn eign íslenzkra borgara og talið hefur verið. Ég veit ekki, hvað rétt er í þessu. Ég hef enga aðstöðu haft til að kynna mér það, en tel rétt, að það komi fram og verði upplýst, hvort hér er um fyrirtæki fárra einstaklinga að ræða, og líka til þess að eyða óþarfa tortryggni, sem komið hefur verið af stað og ég skal ekki dæma um, hvort hefur við rök að styðjast eða ekki.

Það er sagt, að þetta félag sé efnaðasta fyrirtæki í landinu og þess vegna ætti því að vera auðveldara en öðrum að greiða skatta. Þetta þarf ekki að fara saman. Félagið er efnað, það er rétt. En til þess að það geti innt störf sín af hendi eins og það á að gera, þarf það ákaflega mikilla fjármuna með. Og ef taka á fjármuni af félaginu, þá getur það þýtt stöðvun á starfsemi þess, því að skipabyggingar á þessum tímum eru svo fjárfrekar, að jafnvel þær 30 millj. eða rúmlega það, sem félagið telst nú eiga, munu ekki einu sinni nægja til þeirra skipabygginga eða — kaupa, sem þarf að inna af hendi í náinni framtíð, ef gera á það á þann hátt, sem ég tel að þurfi. Þetta er aðalatriðið í málinu, og þá er burt fallinn sá möguleiki, sem hv. 2. þm. S.-M. vill halda fram, að þetta félag hafi fram yfir önnur fyrirtæki í landinu til að greiða skatta.

Hv. þm. segir, að hann skilji ekkert í, að stj. skuli hafa getað flutt þetta frv. Hann skilur ekki sjálfstæðismenn vegna þess, að þeir vilja með þessu útiloka samkeppnina, og hann segir, að frv. sé í beinni mótsögn við allt, sem jafnaðarmenn og sósíalistar hafa sagt um þetta mál fyrr og síðar. Þetta er ekki rétt að því leyti, sem ég hef nú sýnt fram á, því að þótt jafnaðarmenn og sósíalistar hefðu helzt kosið að sjálfsögðu, að fyrirtækið væri rekið af ríkinu eða fyrirtæki hliðstætt þessu, þá er ekki fyrir hendi í þjóðfélaginu sá grundvöllur, sem til þess þarf, að það geti orðið, en það, sem þeir vilja næsthelzt, er það, að félagið sé rekið eins sterkt og öflugt og mögulegt er, en með þeirri íhlutun ríkisvaldsins, að það komi almenningi að þeim notum, sem stefnt er að í þessu frv.