14.02.1945
Neðri deild: 129. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Ég verð að lýsa yfir óánægju minni yfir því, að hæstv. forseti hefur í hyggju að halda áfram umr. um þetta mál eins og d. er skipuð. Það eru aðeins örfáir þm. viðstaddir, og þeir, sem hafa tekið þátt í umr. hér og ég þarf að svara, eru hvergi nærri.

Ég verð að segja, að mér finnst skörin vera farin að færast upp í bekkinn í óvirðingu í garð þingsins, þegar ráðh. sumir hverjir eru farnir að leggja í vana sinn að halda hrókaræður sparkandi í allar áttir og láta á allan hátt ganga hvers kyns fullyrðingar, sem þörf væri að svara, en eru svo hvergi nærri til að heyra svör þeirra, sem þeir eiga viðræður við.

Ég vil skora á hæstv. forseta, að hann geri gangskör að því, að þeir ráðh., sem hafa talað í þessu máli, geri svo lítið að heyra, hvað hinir, sem eru á annarri skoðun en þeir, hafa um málið að segja. En þar sem ég sé, að hæstv. samgmrh. er mættur, skal ég fyrst víkja að því, em hann sagði um málið, en geyma það, sem hæstv. forsrh. sagði, í trausti þess, að hann komi síðar.

Hæstv. samgmrh. færði fram nokkra ástæðu fyrir því, að hann væri fylgjandi því, að skattfrelsi Eimskipafélagsins væri framlengt. Hann hóf ræðu sína á því, að það væri þörf á því, að ég gerði grein fyrir því, hvers vegna ég væri því ekki fylgjandi nú að framlengja skattfrelsi Eimskipafélagsins, þar sem ég hefði verið það áður. Ég hygg, að það sé nær fyrir hæstv. ráðh. að gera grein fyrir því, hvernig á því stendur, að hann og hans flokkur vill nú framlengja skattfrelsi Eimskipafélagsins með þeim hætti, sem hér er lagt til, þrátt fyrir það, sem á undan er gengið.

Það væri nær fyrir hann að rekja þetta heldur en óska skýringar frá mér, ég gaf skýringu í minni fyrri ræðu.

Ég hef greitt atkv. með því, að Eimskipafélagið fengi undanþágu frá skattaákvæðunum, vegna þess að ég áleit svo ríka nauðsyn á því, að Eimskipafélagið gæti safnað fé til þess að standa undir endurnýjun og aukningu skipaflotans. Það hef ég gert vegna þess, að mér hefur fundizt þar vera svo brýn nauðsyn fyrir hendi. Hins vegar benti ég á það, að í fyrsta lagi hefði Eimskipafélagið áreiðanlega misnotað á mjög ámælisverðan hátt þann trúnað, sem þingið hefði sýnt því með skattfrelsinu, með því flutningsgjaldsokri, sem hefur leitt til þess, að félagið hefur grætt 20–30 millj. kr., og er það önnur ástæðan fyrir því, að ég tel, að það verði að breyta um stefnu. Í öðru lagi benti ég á það, að Eimskipafélagið er orðið margfalt fjársterkara en aðrir hafa orðið, og af þeim ástæðum eru burtu fallnar styrkar stoðir fyrir því að veita félaginu þessi hlunnindi.

Eimskipafélagið er nú, með sínar 40 millj. kr. í sjóði og aðrar eignir, áreiðanlega mun betur statt til þess að standa undir verkefni sínu en nokkur annar einstakur aðili í þessu landi. Það er ekki hægt að meta þessi hlunnindi nema í samanburði við aðra. Það verður að meta það, hvernig Eimskipafélagið stendur samanborið við ríkið og atvinnuvegi landsmanna. Í samanburði við ríkið er Eimskipafélagið stórríkt. Sum fyrirtæki eiga nokkra sjóði til þess að standa undir endurnýjun og viðaukningu atvinnurekstrarins, en þar kemst enginn í hálfkvisti við Eimskipafélagið að ríkidæmi. Þetta eru góð og gild rök, sem verður að mótmæla með öðrum rökum, ef þau eiga ekki að vera tekin gild.

En um afstöðu hæstv. samgmrh. og hans flokks til þessa máls er allt öðru máli að gegna. Flokkur hæstv. samgmrh. hefur oft verið mótfallinn því, að Eimskipafélaginu væru veitt skattahlunnindi. Þegar þetta mál kom fyrst fyrir á Alþ. 1924, en ekki 1928, eins og hæstv. ráðh. sagði, þá var þáv. form. fl., Jón Baldvinsson, mótfallinn því, að félaginu væru veitt þessi hlunnindi. Að vísu hefur Alþfl. ekki alltaf haft svo hreina afstöðu sem Jón Baldvinsson, en hvað eftir annað kom fram sú skoðun frá flokknum, að eðlilegt væri, að styrk til félagsins fylgdu aukin yfirráð í félaginu, og oft að því vikið, að ríkið eignaðist hlut í því, til móts við þá, sem ættu hluti fyrir. Þessa afstöðu hafði flokkurinn, meðan Eimskipafélagið átti lítið brot af því, sem það á nú, og þegar það var miklu vanmáttugra til þess að anna hlutverki sínu en það er nú.

Enn fremur er full ástæða til þess að benda á það, að þegar Eimskipafélagið ákvað flutningsgjöld fyrir árið 1943 þannig, að á því ári var stórkostlegur gróði, sem flestum blöskrar, gekk blað hæstv. samgmrh. fram fyrir skjöldu í að útmála fyrir mönnum, hvílíkt hneyksli það væri, að Eimskipafélagið notaði aðstöðu sína til þess að græða á þennan hátt. Og þegar þessi mál voru til umr. á Alþ., gengu þeir fram fyrir skjöldu hæstv. félmrh. og hv. 3. landsk. og jusu sér yfir fyrrv. ríkisstj. fyrir að láta annað eins hneyksli viðgangast og það, að Eimskipafélagið héldi flutningsgjöldum svo háum, og töldu það versta hneyksli, sem heiði komið fyrir um lengri tíma.

En nú er svo skipt um í þessu máli, að þegar þessi hæstv. ráðh. er kominn í stj., skyldi maður halda, að þeir myndu leiðrétta þetta hneyksli, sem þeir töluðu svo mikið um. En þá lýsir núv. samgmrh. því yfir, að hann hafi reiknað þessi mál út og komizt að þeirri niðurstöðu, að Eimskipafélagið hafi grætt of lítið 1943. Það sé sem sagt ekki búið að safna nægilega miklum fjármunum og verði þess vegna að bæta við og sé ekki megnugt að borga skatta eins og aðrir þjóðfélagsbargarar.

Hæstv. ráðh. verður að afsaka, þó að mörgum finnist lítið upp úr því að leggja, sem þeir menn segja, sem þannig snúa snældunni með jafnskömmu millibili og hér hefur átt sér stað og að óbreyttum öllum ástæðum. Það þarf góða heilsu til þess að halda því fram, eins og hæstv. samgmrh. gerði, að þessi afstaða hans nú, sem skyldar hann um leið til þess að taka upp hanzkann fyrir Sósfl., sé í fullu samræmi við afstöðu hans áður til Eimskipafélagsins um skattfrelsi og starfsemi þess.

Ég hygg, að það dyljist engum, að þessi afstaða er í fullu ósamræmi við allt það, sem frá þeim hefur komið fyrr og síðar, um afstöðuna til Eimskipafélagsins og skattfrelsisins sérstaklega.

Ég skal þá víkja örfáum orðum að því, sem hæstv. forsrh. sagði. Annars virtist mér hann koma lítið að kjarna þessa máls og þeim stefnumun, sem hér hefur komið fram í sambandi við meðferð þessa máls. Ég minntist á áðan, að mér finnst mikið ósamræmi í því, að ríkisstj. fyrirhugar nýjar skattaálögur, en leggur hins vegar til, að Eimskipafélagið haldi skattfrelsi sínu. Ég lýsti þá með fáum orðum þeim skattaleiðum, sem nú eru fyrirhugaðar. Út af þessu sagði hæstv. forsrh., að það væri einkennilegt að heyra þessi harmkvæli um skattþegnana í landinu, því að enginn maður hefði látið eins greipar sópa um fjárhirzlur manna og ég. Og ég hefði gengið svo langt í þessu efni, að þáv. form. Alþfl., Jón Baldvinsson, hefði þráfaldlega látið þess getið, að honum þætti meira en nóg um. Ég held, að hæstv. forsrh. ætti að gera sem minnst af því að vitna í það, sem menn hafa sagt hingað til, og ég held, að hann ætti að láta það liggja milli hluta, hvað Jón Baldvinsson kann að hafa sagt um þetta við eitt eða annað tækifæri. En hitt veit ég, þótt hæstv. forsrh. viti það kannske ekki, að þegar samvinna var milli Alþfl. og Framsfl., þurfti að leggja á allþunga skatta, og þá stóð sízt á Alþýðuflokksmönnum að vera með í því að afla þess fjár, sem með þurfti.

En fyrst farið er að ræða hér um skatta og ég gerði það að nokkru leyti, þá ætla ég að upplýsa hæstv. forsrh. um eitt, sem hann virðist vera búinn að gleyma. Það var mikið talað um það hér á árunum, að langt hefði verið gengið í skattaálögum 1934–1938. En hvernig er ástatt nú í þessu efni? Hvað hefur verið gert í þessu máli nú, síðari flokkur núv. hæstv. forsrh. tók við fjármálum ríkisins? Á þessum árum var mjög erfitt um fjármál, sem enginn dró í efa, en síðan flokkur hæstv.. forsrh. tók við forustunni hefur verið mjög auðvelt að eiga við þessi mál, vegna þess að þjóðartekjurnar hafa margfaldazt. Efnahagurinn er miklu betri en áður, og ef allt hefði verið með felldu, hefði mátt lækka skattana stórlega á landsmönnum eða þá, að ríkissjóður hefði safnað stórfé. En hver er niðurstaðan? Hún er sú, að fjmrh. þessa forsrh. hefur látið alla þá skatta og tolla standa, sem þeir hafa eytt 10 árum ævi sinnar í að gera tortryggilega í augum landsmanna. Hann hefur látið þá standa alla eins og þeir voru, nema að því leyti, að beinu skattarnir hafa stórlega hækkað frá því, sem þeir voru.

Það er svo fjarri því, að hæstv. forsrh. hafi efni á því að hefja umr. um þetta mál. Það væri bezt fyrir hann og flokk hans, að aldrei yrði á þetta minnzt. En þó að þetta standi þannig, að þessir tollar og skattar séu framlengdir og nú sé meiningin að bæta við nýjum sköttum með aðferð, sem þannig er vaxin, að hinir djörfustu menn í skattamálum hafa aldrei látið sér detta hana í hug fyrr en nú, að stjórn þessa hæstv. forsrh. ætlar að láta taka hana til framkvæmda, er fyrirsjáanlegur stórkostlegur tekjuhalli á ríkissjóði. Ég held þess vegna, að það væri bezt fyrir hæstv. forsrh. að nefna þessi mál aldrei.

Svo óskaplega er þetta komið í höndum hæstv. forsrh. og þeirra manna, sem hann hefur kvatt til að stjórna fjármálunum, að skattaálögin eru þannig, að þeir, sem að þeim standa, telja þau vera meingölluð og alveg óhæf nema í eitt skipti og fullkomið neyðarúrræði. En á sama tíma og þannig er um þetta búið af hendi þessa hæstv. ráðh., þá kom fram till. um að undanþiggja skatti ríkasta fyrirtæki í landinu. Aðalrökin fyrir þessu eru þau, að það sé ekki skaði skeður, þó að þetta fyrirtæki safni auði.

Hæstv. forsrh. sagði, að það væri ósamræmi í afstöðu minni, að ég hafi á undanförnum árum barizt fyrir því, að Eimskipáfélagið hefði skattfrelsi, og þá gert grein fyrir þeirri skoðun, en teldi nú ekki fært að gera þetta lengur.

Það hefur ekkert ósamræmi verið í afstöðu minni til málsins. Hæstv. forsrh. sagði, að þessu máli væri vel borgið í höndum Eimskipafél., þar sem svo margir landsmenn hefðu þar íhlutun. Engin hætta væri á því; að nokkur klíkuskapur gæti átt sér stað eða fél. væri stjórnað öðruvísi en með heill þjóðarinnar fyrir augum. Ég byrjaði í ræðu minni að sýna, að þessu er ekki þannig farið. Það eru tiltölulega fáir menn, sem ráða í Eimskipafél. Ísl. Mikið af atkvæðunum er á höndum örfárra manna. Ég hef ekki fullkomið yfirlit um, hverjir eiga Eimskipafélagið. Það hafa víst ekki margir, vegna þess hvernig hlutaskráningu er háttað. Hitt veit hæstv. forsrh., að eigendur 25–100 kr. bréfanna hafa aldrei nein áhrif á gang málanna í Eimskipafél., enda er reynslan ólygnust um það atriði eins og önnur. Það skiptir engu máli í þessu sambandi, hvernig menn það eru, sem fara með atkvæði á fundum Eimskipafélagsins, eða hvort formaðurinn er starfi sínu vaxinn. Það skiptir engu máli, þó að það væru englar, sem nú stjórna þar, þá vita allir, að breyting getur orðið á því áður en varir, og á slíku er ekki hægt að byggja neina stefnu í þessum málum. Menn verða því að gera upp við sig, hvort þeir vilja halda áfram endalaust að veita þessu fél. hlunnindi og völd í hendur sérstakra manna eða hvort menn vilja nú, að hætt sé að veita þessi hlunnindi á þann hátt, sem verið hefur, og ári þess að nokkur greinileg skilyrði séu sett um íhlutunarrétt ríkisins í rekstri fél. Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vanda að gera þetta upp, þó að ég hafi góða trú á framkvæmdastjórn fél. Ég álít, að það sé ekki hægt að halda áfram sömu stefnu og farin hefur verið.

Hæstv. forsrh. dró S.Í.S. inn í þessar umr. og benti á það, að ef breyta ætti um stefnu varðandi skattfrelsi Eimskipafélagsins, þá ætti einnig að afnema skattfrelsi það, sem aðrir kynnu að hafa, og talaði eins og útlendingur, ekki aðeins nýkominn á Alþ. Íslendinga, heldur nýkominn til landsins og landshögum með öllu ókunnur. Mér dettur ekki í hug, að hæstv. forsrh. viti ekki betur en , fram kom, en þá kann ég ekki heldur við, að hann tali þannig um þessi efni. Það vita allir, að samvinnufél. hafa ekki skattfrelsi. Þau eru undir sömu skattal. og aðrir, varðandi stríðsgróðann. Þau búa að vísu við nokkuð annan skattstiga og nokkuð aðrar reglur við útsvar vegna séreðlis þeirra og vegna þess, að þau eru allt annars eðlis en nokkur annar félagsskapur í landinu. en skattfrelsi hafa þau ekki. Mér þætti fróðlegt að vita, hvort hæstv. forsrh. væri reiðubúinn til að samþykkja, að Eimskipafélag Íslands væri skattlagt eftir sömu reglum og S.Í.S. Ef hæstv. forsrh. trúir því, sem hann segir, að samvinnufél. njóti skattfrelsis, ætti ekki að standa á honum að fallast á, að Eimskipafélagið verði skattlagt eftir sömu reglum og S.Í.S. (Fjmrh.: Og úthlutaði þá arði á sama hátt?) Ég sagði bara undir sömu skattareglum og S.Í.S. Því fer nefnilega alls fjarri, að þar sé um nokkurt skattfrelsi að ræða. Þetta er ekki annað en slagorð, sem búið er að kasta svo oft á milli sín, að menn eru farnir að trúa því. Ég trúi því ekki, að menn séu að tala um það þannig, að þeir viti ekki, hvað þeir eru að segja.

Þá sagði hæstv. forsrh., að það væri eins í samvinnufél. og Eimskipafél., að færri menn réðu öllu, sjálfsagt fyrir það, að þeir líkuðu vel. Þetta er náttúrlega sú helberasta fjarstæða að bera saman atkvæðisrétt og uppbyggingu samvinnufél. og hlutafél. eins og Eimskipafél. Í samvinnufél. hafa allir jafnan atkvæðisrétt, en í Eimskipafél. er atkvæðisrétturinn eftir því, hve mikið fjármagn menn eiga í fél. Ef einhver tæki sig til og keypti upp hlutabréfin í Eimskipafél., sem auðvitað gæti átt sér stað þá og þegar og gæti verið að gerast í dag, gæti farið þannig, að átkvæðisrétturinn í Eimskipafél. væri horfinn úr höndum smábréfaeigendanna, áður en menn gætu áttað sig á því. Í samvinnufél. er atkvæðisrétturinn jafnan bundinn við persónuna, en ekki fjármagnið. Það er því furðulegt, að nokkur maður skuli koma fram með annað eins og það, að sama trygging sé fyrir því, að fjöldinn ráði í Eimskipafél. og samvinnufélögum.

Þá vék hæstv. forsrh. að því, að það væri engin ástæða til þess að halda annað en að Eimskipafél. mundi, og fyrir því væri fengin reynsla, á hverjum tíma fara með þessi mál alveg eins og bezt væri fyrir þjóðarheildina og taka tillit til þess, sem t.d. Alþ. og ríkisstj. teldu rétt, eins og hér væri um opinbert fyrirtæki að ræða, og sama skoðun kom fram hjá hv. þm. Borgf., sem sé, að málum landsmanna væri jafnvel komið í höndum einkafyrirtækis eins og Eimskipafél. og þótt opinber aðili ætti í hlut. Ég er algerlega á annarri skoðun en hv. þm. Borgf. og hæstv. forsrh. og skal færa fyrir því nokkrar ástæður til viðbótar því, sem ég gerði í fyrri ræðu minni. Ég skal nefna hér dæmi um tvennt eða þrennt, sem áreiðanlega hefði ekki verið gert af hendi Eimskipafél., ef það hefði einvörðungu miðað rekstur sinn við þarfir landsmanna. Mér dettur ekki í hug að segja, að landsmenn hafi ekki haft stórkostlegan hag af starfsemi Eimskipafél., enda væri það undarlegt, ef ég hefði styrkt Eimskipafél. í þ. undanfarin ár og hefði ekki þá skoðun. Samt sem áður er hægt að finna ákveðin dæmi, sem benda mjög greinilega í þá átt, að ekki er heppilegt, að einkafél., hversu vel, sem rekið er, hafi með höndum samgöngur algerlega, eins og Eimskipafél. hefur haft. Menn hafa talað hér um flutningsgjaldahækkunina eins og þar hafi verið farið rétt að og sumir alveg þvert ofan í það, sem kom fram frá þeirra nánustu. Ég tel, að þessi flutningsgjaldahækkun hafi verið mjög óheppileg, ef menn hafa nokkuð meint með allri baráttu sinni í dýrtíðarmálum, og mér dettur ekki í hug, að þannig hefði verið haldið á málunum, ef ríkið hefði haft meiri áhrif á störf Eimskipafél., og ég dreg ekki í efa, að betur hefði gengið að ráða við dýrtíðina, ef svo hefði verið. Auk þess má benda á annað dæmi. Á árunum fyrir stríð var mikið rætt um að auka skipakost landsmanna. Mikill ágreiningur varð á milli Eimskipafél. annars vegar og meginþorra þ. hins vegar um, hvernig bezt væri að koma því fyrir. Eimskipafél. vildi leggja áherzlu á að eignast stórt nýtízku farþegaskip, en ekki flutningaskip. Aftur á móti virtist mér meiri hluti alþm. leggja áherzlu á að fá flutningaskip. Það væri vissulega gott að eiga nýtízku farþegaskip, en hitt væri þó enn meira virði. Um þetta varð verulegur ágreiningur, og það er ekki nokkur vafi á því, að ef stríðið hefði ekki brotizt út, hefði Eimskipafél. haft sitt mál fram. Þá er það náttúrlega öllum ljóst, sem fylgzt hafa með samgöngum undanfarið, að Eimskipafélag Íslands hefur tekið þann kostinn að taka í sínar hendur allar beztu samgönguleiðirnar, fleytt rjómann ofan af, en ríkið hefur orðið að sitja uppi með lakari samgönguleiðirnar og ver stórfé af sinni hendi til þess að sjá landsmönnum fyrir þeim flutningum. Það var alltaf að verða minna og minna, sem Eimskipafél. lagði á sig fyrir stríð, til þess að sinna flutningaþörfinni með ströndum fram; það var að vísu nokkuð, en dró alltaf úr því, en aftur á móti meira og meira, sem ríkið þurfti að leggja af mörkum til þess að sjá fyrir þessum þörfum. Stefna Eimskipafél. á stríðsárunum hefur líka orðið til þess að binda ríkisstj. mjög þungan bagga í sambandi við þessa flutningaþörf innanlands. Eimskipafél. hefur spennt farþegagjöldin svo hátt, að orðið hefur að hafa strandferðaflutningsgjöldin miklu lægri en þurft hefði að vera. Í öllu þessu hefði orðið miklu betra samræmi á alla lund, ef mál þessi hefðu verið tekin heildartökum og Eimskipafél. ekki verið algerlega út af fyrir sig um verðlagningu. Það er því alveg áreiðanlegt, að þar er engin trygging fyrir því, að siglingum milli landa og með ströndum fram verði hagað á þann hátt, sem bezt hentar þjóðinni í heild, með því að hafa þær í höndum Eimskipafélagsins, hversu vel, sem það er rekið, og það er af þeirri einföldu ástæðu, að hér eru tvö sjónarmið: Annars vegar sjónarmið heildarinnar og hins vegar sjónarmið hinna, sem vilja reka fyrirtækið með sem glæsilegustum árangri, sýna dug sinn með sem mestum nettóafgangi og sem beztum hag fél. Hér eru tvö sjónarmið, sem verður að sameina, en rekast hvort á annað, og áreksturinn er erfiður og þungur, ef allt er látið leika lausum hala, eins og verið hefur. Það verður því áreiðanlega langhyggilegast að koma á fót meiri íhlutun, hvað sem menn álíta um einkarekstur og opinberan rekstur, að koma á fót meiri íhlutun af hálfu hins opinbera en verið hefur, og leiðin til þess er ekki sú að láta Eimskipafél. hafa skattfrelsi án nokkurra skilyrða af hendi ríkisvaldsins. Það rekur nú enginn nauður til þess að fara þá leið, því að fél. er orðið hað vel stætt, að því eru allir vegir færir, og það á að hverfa af þeirri braut og inn á hina að hafa þetta sameiginlegt mál ríkisins og Eimskipafél. Ég hygg líka, að sú stefna sé miklu meira í samræmi við hugsunarhátt manna yfirleitt, eins og hann er orðinn, og meira í samræmi við það, sem gert er um aðrar samgöngur, t.d. flugsamgöngur í öllum löndum og aðrar samgöngur, þar sem menn hafa tök á að taka málið eins og þeim sýnist í öndverðu. Það er eftirtektarvert, að nú þykir mönnum yfirleitt ekki rétt, þar sem flugsamgöngur byrja, að hafa þær íhlutunarlaust í höndum einstaklinga eða einkafél., heldur finnst mönnum rétt, að það sé sameiginlegt mál þjóðfélagsins og einstaklinganna og þjóðfélagið hafi eins mikið að segja og einstaklingarnir.

Þannig er haldið á málunum, þar sem hægt er að taka þau frá byrjun. Ég hygg, að sama megi segja um þessi samgöngumál og þau. Ég held, að við ættum einmitt nú að taka upp þá stefnu, en ekki halda áfram eins og stjórnin leggur hér til.

Í þessu sambandi get ég líka minnzt á það, að hv. þm. Borgf. taldi það til gildis því fyrirkomulagi, sem er og hefur verið, hve lítið fjármagn ríkisstj. hefði til þess að standa undir strandferðunum. Þessi rök tel ég ekki haldgóð, og má vísa til þess, hvernig starfsemi Eimskipafél. hefur orðið óneitanlega til þess að þyngja stórkostlega undir fæti einmitt á strandferðum, og það hefur orðið til þess að auka kostnaðinn við þær og þar með minnkað möguleikana fyrir því, að hægt væri að endurnýja skipin. Mér sýnist, að það sé nokkuð út úr götunni að benda á slíkt sem rök fyrir því, að það sé gott að hafa þetta eins og það er. Ég get ekki fallizt á það, sem hefur komið fram hér, að það sé engin ástæða til þess að gefa þessu gaum í sambandi við stórkostleg hlunnindi eins og skattfrelsi, vegna þess að hvenær, sem er, geti ríkið gripið fram fyrir hendur fél. eins og Eimskipafél. og skipað þar öllu eins og því sýnist. Þetta er alls ekki rétt. Reynslan hefur sýnt, að þetta er rangt. Það er yfirleitt, eins og allir hlutir eru hér uppbyggðir, ekki talið fært að grípa þannig algerlega fram fyrir hendur einstaklinga eða félaga, og ef á annað borð félag eins og Eimskipafél. er vanið á afskiptaleysi og hlunnindi án afskipta, verður niðurstaðan sú, að það er ekki gripið inn í, þó að mönnum mislíki mjög þær framkvæmdi,r, sem gerðar eru. Þá rís upp sterk alda gegn slíkum afskiptum og því haldið fram, að það sé hættulegt fordæmi að gera slíka ráðstöfun, og í því sambandi er mér sem ég sjái framan í menn, ef t.d. meiri hluti þ. hefði. verið sammála um, að þetta þyrfti að gera núna, að Eimskipafél. stefndi svo rangt um þessi mál, og till. kæmi fram um, að ríkið tæki að sér stjórn Eimskipafél. til þess að beina því inn á þá braut, sem ríkisvaldið teldi heppilega. Mér er sem ég sæi framan í menn, ef slík till. kæmi fram. Það er alveg út í bláinn að segja, að allt megi ganga sinn vanagang, því að hægt sé að grípa fram fyrir hendurnar á félaginu, ef þörf þykir. Ég hef ekki trú á, að það yrði þannig í reyndinni.

Hæstv. forsrh. sagðist ekki vilja vera með því að afnema skattfrelsið m.a. vegna þess, að þá væri Eimskipafél. þar með leyst undan allri þegnskyldu. Þetta finnst mér harla einkennilegur hugsunarháttur, þegar þess er gætt, að eiginlega allt það fjármagn, sem Eimskipafél. hefur undir höndum, hefur það einmitt vegna þeirra hlunninda, sem ríkið hefur veitt því, eða bróðurpartinn af því, ýmist með skattaundanþágum eða þá nú á síðari árum með því að afhenda Eimskipafél. til þess að stjórna og hafa veg og vanda og ágóða af þeim leiguskipum, sem ríkisstj. náði samningum um og notuð hafa verið í Ameríkuferðum. Meginhlutinn af því fjármagni, sem Eimskipafél. ræður yfir, er vegna þessarar starfsemi og vegna þess, að því hefur verið hlíft við skattgreiðslum, hliðstæðum þeim, sem aðrir greiða. Mér þætti hart, ef svo væri álitið, að þá væru horfnar allar þegnskyldur Eimskipafél., þó að nú sé látið staðar numið um skattfrelsið, en þeir héldu öllum sínum fjármunum og hefðu þá sem aðalstarfsfé um ófyrirsjáanlegan tíma. Ég lít allt öðrum augum á þetta. Þótt þessi leið sé farin, þá er þegnskylda Eimskipafél. engu minni en áður.

Hæstv. forsrh. skaut því inn í, þegar hann talaði um þann mikla ágóða, sem Eimskipafél. hafi haft, að það hafi verið eina árið, sem ríkisvaldið ákvað farmgjöldin, þ.e.a.s. 1943.

Það er ekki hægt að fara langt út í það, enda hef ég ekki við höndina þau gögn, sem að því lúta, en heldur skýtur þessi skoðun hæstv. forsrh. skökku við það, sem þeir aðilar hafa um þau mál sagt, sem hafa haft með höndum þau trúnaðarstörf að ákveða flutningsgjöldin, því að þeir hafa haldið því fram, og ég hef ekki séð því mótmælt með það gildum rökum, að því hafi verið hnekkt, að þessum flutningsgjöldum hafi verið haldið uppi vegna þess, að þeim hafi verið gefið í skyn, að um óhagstæðari rekstur væri að ,ræða en reynslan sýndi, og haldið þeim upplýsingum í langan tíma til þess að koma í veg fyrir flutningsgjaldalækkun.

Þessu hafa þeir haldið fram, og ég hef ekki séð því mótmælt þannig, að mér finnist hægt að taka það til greina, svo að mér finnst skörin færast upp í bekkinn, þegar hæstv. ráðh. heldur þessu fram.

Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að svara ummælum eins og þeim, sem hæstv. ráðh. viðhafði líka, að Eimskipafél. ætti að halda áfram að hafa þetta skattfrelsi án frekari íhlutunar en orðið hefur, vegna þess að félagið reki mestu þjóðþrifastarfsemi. Ég hygg, að það sé mörg starfsemin í landinu, sem mætti kalla þjóðþrifastarfsemi, og yrðu æðimargir, sem ættu að njóta skattfrelsis, ef þetta ætti að gilda um alla þá, sem hægt er að segja með réttu að hafi þjóðþrifastarfsemi með höndum. Mér dettur ekki í hug að draga úr því, að Eimskipafél. hefur haft með höndum þjóðþrifastarfsemi, jafnhliða margri annarri starfsemi, sem rekin hefur verið, en hitt veit ég og vita allir, að þó að Eimskipafél. hafi haldið uppi slíkri starfsemi, hefur það ekki rekið hana sem neina góðgerðastarfsemi. Efnahagur Eimskipafél. sýnir, að það hefur fullkomlega séð sínum hlut borgið í viðskiptum sínum við landsmenn. Það verður ekki dregið í efa. Félagið hefur haldið sínum hlut, og er þess vegna óþarfi að fara út í meting um það, hvort starfsemi þess sé meira þjóðþrifastarf en ýmislegt annað, sem er innt af höndum. Mér virðist fátt hafa komið fram, sem hnekkti þeim rökum, er ég hef haldið fram um þetta mál, en þau eru í aðalatriðum þessi: Að nú sé ástæða til þess að breyta um stefnu í þessu máli vegna þess, hve Eimskipafélagið er vel á vegi statt, að það er betur á vegi statt í þessum efnum en flestir aðrir, ef ekki öll önnur fyrirtæki í landinu, miðað við þau verkefni, sem því verður ætlað að leysa. Ég er ekki í neinum vafa um það, að Eimskipafél. er betur fært um það að standa undir endurnýjun og aukningu flutningaskipaflotans að sínu leyti en t.d. þeir, sem stunda útgerð í landinu, eru undir það búnir að standa undir endurnýjun og aukningu fiskiskipaflotans. Ég get ekki látið vera að minna á það í þessu sambandi, að ég flutti hér í fyrra till. um það eða frv., að útgerðarmenn skyldu ekki þurfa að greiða útsvör af því, sem þeir legðu til nýbyggingarsjóðs, en það hafði fallið niður í skattalöggjöfinni að ætla þeim þau hlunnindi, og það hefur verið lagt útsvar á nýbyggingarsjóðstillag útgerðarinnar. En þessu máli var sýnt einkennilegt tómlæti, og 1943 greiddi helmingur dm. atkv. á móti því, að útgerðarmenn fengju útsvarsfríðindi af nokkrum hluta tekna sinna. Ég flutti malið aftur á þessu þingi, og eftir að hafa lagt talsverða vinnu í það að fá nál. var þetta mál loks samþ. með hinni mestu fýlu, að því er virtist, og sumir, t.d. sósíalistar, greiddu atkv. á móti þessu. Ég gat ekki komizt hjá því að benda á þetta til dæmis um það, hvað þetta er allt óeðlilegt og hversu fjarri því fer, að mínum dómi, að menn hafi haft glöggan samanburð um það, hvernig ástatt er í landinu. Það er ekki hægt að taka Eimskipafél. út úr og líta ekki á annað. Við skulum segja t.d., að sú skoðun væri réttlát, sem komið hefur fram í ýmsum ræðum, að Eimskipafél. þyrfti að eignast enn meira fé. Hvað má þá segja um marga aðra, sem þurfa að standa undir þungum verkefnum af hliðstæðu tagi, þó að það væri ekki að kaupa flutningaskip? Það er ekki hægt að taka eitt mál út af fyrir sig, heldur verður að taka það í sambandi við önnur mál, svo sem fjárþörf ríkisins og möguleika þess til að leggja fram fé, og einnig í sambandi við aðra einstaklinga og félög; það er ekki hægt að taka einn aðila út úr, þó að hann reki þjóðþrifastarfsemi, án þess að hafa þar einhvern samanburð.

Það virðist svo sem það sé komin einhver kergja í þetta mál, og virðist mér menn hugsa sem svo, að fyrst þetta sé komið á, þá sé nauðsynlegt að halda því áfram, og vegna þess að það er fast sótt af þeim áhrifamönnum, sem hafa áhuga fyrir Eimskipafél., að fá ekki yfir sig skatta og útsvarsálögur. Menn láta þetta hafa áhrif á sig, en taka ekki tillit til þess, hvernig ástatt er almennt um þessi málefni. Það er oft þannig, að ef menn hafa lengi haldið uppi einhverri starfsemi og fyrirkomulagið verið lengi, þá finnst mönnum óhæfa, að því sé ekki haldið áfram, og mér finnst þess gæta í sambandi við þetta mál. Aðalatriðin eru þessi, að samanborið við aðra virðist mér Eimskipafél. óvenju vel á vegi statt og það miklu betur en nokkru sinni fyrr, að fjárhagsafkoma ríkisins sé þannig vaxin, að það sé ekki hægt að færa rök fyrir því, að rétt sé að halda þessu áfram eins og verið hefur, og í þriðja lagi er það áreiðanlega röng stefna að styrkja þannig án afláts einn stóran aðila óháðan ríkinu til þess að hafa með höndum starfsemi, sem Eimskipafél. hefur og án íhlutunar ríkisins. Það þarf að taka þetta mál allt til endurskoðunar, og ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég er undrandi yfir því, að það skuli ekki hafa verið gert, — ég er undrandi yfir því, að þeir, sem hlut eiga að þessu máli, skuli hafa tekið þá afstöðu, sem nú hefur komið fram.