21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Ég kann ekki við annað en svara hv. þm. V.-Húnv. nokkrum orðum og kvitta fyrir það, sem hann beindi til mín í sinni síðustu ræðu. Hann hafði réttilega eftir mér, að ég hefði haldið fram, þegar þetta mál var til 1. umr., að ég bæri mjög fyrir brjósti, að Eimskipafélagið hefði efni á að kaupa þann skipastól, sem það þyrfti til þess að annast flutninga að landinu og frá því, eftir því sem þörf krefði og án þess að útlendir menn þyrftu þar að koma nærri til aðstoðar, og helzt á þann hátt, að okkar íslenzka félag, Eimskipafélagið, væri þannig sett í þeirri samkeppni, að líkur væru til þess, að það þyrfti ekki að bíða þar lægri hlut.

Nú kemur þessi hv. þm. með þær upplýsingar úr einhverju tímariti, sem hann telur sig hafa lesið, en að vísu liggur ekki hér frammi, svo að hægt sé að sannprófa þær tölur, sem hann talaði um, — en að sjálfsögðu eru þær rétt eftir hafðar og með farnar, ég dreg það ekki í efa að svo stöddu, — en samkv. þessum tölum og útreikningi þessa hv. þm. eiga skipabyggingar í Svíþjóð að vera með því verði, að í 700 smálesta mótorskipi kosti það tæplega 1100 íslenzkar kr. að byggja burðarmagnssmálest, eins og hann orðaði það, og er ekki alveg ljóst, hvað hann á við með því, svo að það fari ekki á milli mála. Í Englandi sagði þessi sami hv. þm., að það kostaði 630 íslenzkar kr. að smíða smálestina í mótorskipum.

Þetta eru svo lágar tölur, að ég hef ekki heyrt neitt líkt þeim fyrr. Ef maður spyr hér á Íslandi, hver byggingarkostnaður sé á húsum hér, þá getur maður fengið mismunandi svör, kannske, að það kosti 100 kr. á teningsmetrann, jafnvel 80 kr. á teningsm., og líka getur maður fengið það svar, að byggingarkostnaðurinn á teningsmetrann í húsum sé 300 kr. Og allt þetta getur verið satt. Byggingarkostnaður á húsum á íslandi fer eftir því, hvernig húsin eru gerð. Og byggingarkostnaður skipa í Svíþjóð og á Englandi fer eftir því, hvernig skipin eru gerð. Og það mætti vel segja mér það, að búa mætti . til einhvers konar skip, sem e.t.v. gætu flotið úr höfn, fyrir 630 kr. á smálest. En tæplega geri ég ráð fyrir, að það yrðu skip við okkar hæfi og til siglinga á þeim leiðum, sem við þurfum að beita okkar skipum á. Því að fyrir þetta verð er gefið, að ekki er hægt að byggja skip nema með lakasta útbúnaði. Það vill svo til, að ég hef fengið tilboð um smíði skipa frá Svíþjóð. En kostnaðurinn við það er ekki 630 kr. á smálest, heldur 7 þús. kr. á smálest. Það eru líka flutningaskip, og þetta tilboð er gefið fyrir nokkrum mánuðum og er frá skipasmíðastöð og að öllu leyti ábyrgum aðilum eins og frekast er hægt að gera sér grein fyrir. Það má nú mikið á milli vera, hvort skipin kosti á smálestina 630 kr. eða 7 þús. kr. Þarna skakkar ekki nema nærri tifaldri upphæðinni, sem hv. þm. nefndi. Þessi gögn er ég fús til að leggja á borðið fyrir þennan hv. þm., ef hann véfengir þau. Og ég óska þess, og sjálfsagt fleiri, að hann legði einnig gögn á borðið um það, hvar í heiminum sé hægt að kaupa skip við okkar hæfi, sem fá megi fyrir 630 ísl. kr. smálestina í. Við mundum vera honum þakklátir, ef hann legði okkur þessi gögn upp í hendurnar. Þau yrðu þakksamlega móttekin. En að tala um hluti, sem ekkert koma málinu við, heldur eru einhvers staðar uppi í skýjunum, það getur að vísu gilt í vissum herbúðum, en á ekki við hér. Við 1. umr. þessa máls taldi ég mig ekki þess umkominn að segja nákvæmlega um, hve mikið þessi skip mundu kosta eða hverju maður gæti reiknað með sem meðalsmálestarverði í þessum kaupskipum, og ég er heldur ekki tilbúinn til þess í dag. En ég er alveg viss um, að það verður ekki hægt að leggja þetta 630 kr. verð til grundvallar, þrátt fyrir það, þótt ég mjög gjarnan vildi óska þess, að svo gæti verið. En það þýðir ekkert að tala um tölu, sem er ónothæf í þessu sambandi. En ef Eimskipafélag Íslands á í handbærum peningum 30 millj. kr., þá er það að sjálfsögðu mikið fé, og hægt er að fá fyrir það mörg skip á okkar mælikvarða. En hve mörg og stór þau gætu verið, treysti ég mér ekki til að segja. Eftir þeirri lauslegu kynningu, sem ég hef af þessu máli, tel ég líkur til þess, að ekki verði hægt að fullnægja þeirri þörf til skipasmíða, sem við nú höfum í augnablikinu, með þessari upphæð. Það liggur fyrir sem staðreynd í málinu, að Eimskipafélag Íslands hefur misst tvö af sínum beztu skipum og um leið stærsta farþegaskipið. Ég hef ekki í höfðinu, hve marga farþega þau tóku, en hygg, að þau hafi tekið 50–60 farþega hvort um sig. En þau skip, sem eftir eru, hafa hæst innan við 20 farþegarými á skip. Það er því þannig, að þau skipin, sem dýrast er að byggja og mest kosta vegna sinnar innréttingar per smálest, þau hefur félagið misst. Enn fremur má segja, og félagið hefur beinlínis lýst því yfir, að tvö af þeim skipum, sem félagið enn hefur í notkun, séu þannig á sig komin, að þau mundu ekki vera notuð nema í ýtrustu nauðsyn og þegar annars er ekki úrkosta. Það má því segja, að félagið þurfi að fá fjögur ný skip, til þess aðeins að halda í horfinu, svo að skipastóllinn verði ekki rýrari heldur en hann var í stríðsbyrjun. Og enn fremur hefur félagið við nána athugun komizt að þeirri niðurstöðu, að það þurfi að bæta við tveimur til þremur skipum þar fram yfir, til þess að geta innt af hendi þá flutninga, sem ætla má, að nauðsynlega þurfi að taka upp til landsins að stríðinu loknu.

Ég tel því, — og það voru meginrökin fyrir afstöðu minni til málsins — að með þessari fjársöfnun, hvað sem menn kunna að segja um hana að öðru leyti, þá er enn tæplega aflað nægilegs fjár til þess að fullnægja þeirri þörf, sem landið hefur í augnablikinu fyrir flutningaskip.

Hv. þm. V.-Húnv. vildi halda fram, að það væru önnur sjónarmið, sem ég tileinkaði mér nú, heldur en komið hafa fram áður frá mínum flokki. Og svona til þess að sanna sitt mál, kom hann með uppskriftir, sem hann sagði úr Alþýðublaðinu, og má vera, að þær séu það, og áttu þær að sanna þessi ummæli hans. En ég reyndi nú að leggja eyrun við þessum upplestri, og ég gat hvergi í honum fundið, að Alþýðublaðið tæki afstöðu á móti skattfrelsi Eimskipafélagsins. Sjálfsagt hefur hv. þm. leitað vel til þess að finna þetta, en þó hefur honum ekki tekizt betur en svo, að í þessum greinum, sem hann segir, að séu úr Alþbl., þá kemst hann það næst um þetta mál, að hann segir, að blaðið hafi sagt eitthvað á þá leið, — um leið og blaðið spyr, hver eigi sökina á því, hve dýrtíðin sé há, — að félagið magni dýrtíðina með svo háum farmgjöldum, þar sem félagið njóti fríðinda, svo sem skattfrelsis. M.ö.o. blaðið slær föstu, að félagið njóti skattfrelsis. En þar með er ekki sagt, að blaðið segi, að það eigi ekki að njóta skattfrelsis. En það er annað, sem kemur þarna til greina og blaðið leggur aðaláherzluna á, og það er farmgjaldahæðin. Og það getum við verið sammála um, að farmgjöldin 1943 hjá félaginu voru óhæfilega há, og sá gróði, sem safnaðist þá hjá félaginu, var óhæfilegur. En þetta hefur verið leiðrétt og kemur skattfrelsinu ekkert við, annað en það, sem blaðið segir, að þar sem félagið njóti skattfrelsis, — og það er í blaðinu engin till. um að afnema það, — þá eigi það að haga farmgjöldum sínum í samræmi við það og þarfir þjóðfélagsins í heild. — Ég sé því ekki annað en þau ummæli a.m.k., sem hv. þm. V.-Húnv. las upp úr þessu blaði, séu mjög samhljóða þeirri afstöðu, sem ég hef haldið hér fram, sem er í stuttu máli, að félagið eigi að njóta þess skattfrelsis, sem það hefur haft, en það eigi að binda það þeim skilyrðum, sem Alþ. og ríkisstj. tekur gild, til tryggingar því, að fé félagsins verði varið til skipakaupa og á annan hátt í þágu samgöngumála og annars þjóðheillavænlegs rekstrar, sem Alþ. og ríkisstj. geri nánari grein fyrir.

Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að eitthvert blað, sem hann las upp úr, — ég tók ekki alveg eftir því, úr hvoru blaðinu það var, en ætla þó frekar, að það hafi verið úr Þjóðviljanum, — en ég ætla ekki að fara að svara fyrir það blað, þeir hafa verið hingað til færir um að gera það sjálfir, sem að því standa, — en ég hjó eftir því, að hv. þm. sagði, að þetta blað heimtaði, að Eimskipafélagshneykslið væri krufið til mergjar, og nú hefði ríkisstj. setið í 4 mánuði eða vel það og ekkert verið krufið til mergjar í þessu efni. Ég vil nú benda hv. þm. á, að það, sem hér var um að ræða, var farmgjaldahæðin, sem olli því, að gróði félagsins varð svo mikill sem raun ber vitni. Þetta atriði var tekið til athugunar af viðskiptaráði og verðlagsstjóra, og farmgjöldin voru lækkuð mjög verulega, ekki aðeins frá þeim tíma er lækkunin var ákveðin, heldur einnig nokkuð aftur í tímann. Og farmgjöldin voru færð eins langt niður og þá var af þessum aðilum talið forsvaranlegt. Og ég ætla, að við þessa ráðstöfun hafi flokkur hv. þv. V.-Húnv. átt svo marga fulltrúa, að hans sjónarmið hafi komið fullkomlega til álita. Yfirleitt var ekki krafizt frekari aðgerða en að þetta væri gert. Og þetta hefur verið gert.

Hvað viðvíkur því, sem annars má segja um farmgjaldahæðina hjá þessu félagi, þá er það alltaf stjórn viðkomandi félags, sem mesta ábyrgð hlýtur að bera á því á hverjum tíma, hvernig þeim málum er skipað, og erfitt er fyrir utanaðkomandi aðila, nema með mikilli vinnu og fyrirhöfn, að komast þar alveg til botns í, fyrr en eitthvað eftir á. Þess vegna hljóta ásakanir, ef nokkrar eru, að beinast að þeim, sem þessum ráðum hafa ráðið. En þar hafa hvorki ég né minn flokkur átt neinn hlut að. Hins vegar hefur flokkur hv. þm. V.-Húnv. átt fulltrúa í stjórn Eimskipafélags Íslands. Og ég hef aldrei orðið þess var, að fulltrúi Framsfl. hafi átt þátt í ágreiningi út af farmgjöldum hjá félaginu. Hvenær hefur fulltrúi Framsfl. í stjórn Eimskipafélagsins gert ágreining um þetta atriði?

Ég skal svo ekki fara miklu frekar út í þetta mál. Ég hef nokkuð lýst afstöðu minni til þess. Og ég tel mig mega fullyrða, að það gæti einskis ósamræmis í afstöðu minni nú á við þá afstöðu, sem flokkur minn hefur haft til þessa máls áður. En hv. þm. V.-Húnv. hefur reynt að blanda hér saman alls óskyldum málum, sem eru farmgjöld félagsins annars vegar og skattfrelsið hins vegar. En það eru óskyldir hlutir, sem ekki þarf endilega að ræða samtímis.

Þá skal ég að lokum ræða þá aðferð, sem hv. þm. V.-Húnv. vill hafa um afgreiðslu þessa máls, sem er í stuttu máli á þá leið, að héðan í frá verði Eimskipafél. gefinn kostur á því að greiða alla skatta, bæði tekjuskatt, stríðsgróðaskatt og eignarskatt, til ríkissjóðs með hlutabréfum í félaginu. Við skulum nú ögn athuga þessa brtt. Hlutafé Eimskipafélagsins mun vera kringum 1,6 til 1,7 millj. kr., eftir því sem bezt er vitað, en þó sennilega ekki svo há upphæð, þegar öll kurl koma til grafar, vegna þess að ýmislegt af smábréfum er komið úr sögunni. Líklega má því telja, að hlutafé félagsins sé 1,5 millj. kr., en eign félagsins sé á milli 30 og 40 millj. kr., þannig að hvert hlutabréf sé, ef félagið væri gert upp nú, í um það bil tuttugu-og-fimmföldu verði. M.ö.o., það kostaboð, sem hv. þm. V.-Húnv. vill gera félaginu, er það, að hver króna, sem félagið á að borga í skatt í peningum, verði ekki framvegis borguð með einni kr., heldur með 25 krónum eða sem því svarar, og yfirráð yfir félaginu þar með afhent af núverandi eiganda þess og afhent ríkinu. Það væri eins og ef einhver maður skuldaði einhverja upphæð í krónum og honum væri gefinn þess kostur að lúka þessari upphæð í jafnmörgum sterlingspundum eða einhverju slíku.

Ég lýsti því yfir við 1. umr., að ég teldi út af fyrir sig langbezt á því fara, að þetta félag væri rekið af ríkinu og ríkið ætti það, og ég vildi líka stuðla að því, þar sem sjálfsagt væri ekki um það að ræða, að ríkisstj. og það opinbera fengi þær tryggingar, sem metnar væru nægilegar, fyrir því, að reksturinn gæti orðið með hag almennings fyrir augum. En mér hefði aldrei dottið í hug — aldrei — að fara þessa leið, sem hv. þm. V.-Húnv. vill fara, til þess að ná yfirráðum yfir félaginu, því að hún er tæplega heiðarleg. Með því er verið að gera tilraun til að sölsa eignir félagsins undir ríkissjóðinn með óheiðarlega lágu verði. Ef ríkissjóður ætti að taka yfirráð yfir félaginu, sem er mjög eðlilegt og rétt, þá mælir okkar stjskr. þannig fyrir, að eigendum skuli borgað fyrir að fullu, og kringum það komumst við að sjálfsögðu ekki. En að fara þessa leið til þess að ná yfirráðum yfir félaginu undir ríkissjóð, að gefa því kost á að borga tuttugu og fimmfaldan skatt, það þarf svo mikið hugmyndaflug til að gera þetta, að mér hefði aldrei dottið í hug, að nokkrum manni gæti dottið í hug að fara þá leið.

Ég held fast við það, sem ég áður sagði um það, að ég tel heppilegast, að félagið fái sitt skattfrelsi. Ég geri ráð fyrir því, að af hálfu Alþfl. verði bornar fram við 3. umr. einhverjar þær brtt., sem tryggja það, sem ég taldi þurfa að tryggja í þessu máli, að rekstri félagsins verði hagað með hag þjóðfélagsins fyrir augum. Mun ég þess vegna greiða atkv. með frv. til 3. umr. í trausti þess, að þær brtt. verði teknar til greina við þá umr.