21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Það mun ekki vera til þess ætlazt, að það hafi mikla þýðingu að ræða þetta mál, því að heita má, að stjórnarliðið, sem stendur að málinu, sé flúið og uni sér illa undir þeim umr., sem hér eiga sér stað. Þeir, sem hér hafa talað fyrr á deginum, hafa vandlega falið sig og vilja þannig vera lausir við að hlusta á það, sem aðrir hafa um málið að segja, og taka á móti því, sem þeir yrðu að kingja, ef þeir væru ekki horfnir úr salarkynnum þingsins.

Hjá hv. þm. A.-Húnv. kom fram atriði, sem sýnir vel, hversu ástatt er í hugskoti þeirra, sem hér eiga hlut að máli. Hann sagði sem sé, að það væri ákveðið; að þetta mál yrði afgreitt og þýddi ekkert að ræða. Það er erfitt að hugsa sér, að fyrirlitning fyrir þingræði og almennri skynsemi, fyrir því, sem er grundvallaratriði í almennri meðferð mála á þingi, að menn ræði málin með rökum, geti komið betur fram en í orðum þessa hv. þm. Og ég geri ráð fyrir, að þessi fyrirlitning fyrir rökræðum og þessi andlega eymd, sem liggur til grundvallar ummælum eins og þessum, sé víða til staðar, en hún komi óvanalega skýrt fram hjá þessum hv. þm. í þessum orðum.

Ég skal ekki vera langorður um þetta mál, þar sem ég talaði ýtarlega um það við 1. umr. Þó vil ég bæta nokkru. við, bæði í tilefni af ummælum hv. þm. A.-Húnv. og ýmissa annarra, sem talað hafa hér í dag.

Ég vildi þá fyrst minnast á verð skipanna. Ber mjög á milli, hve hátt það muni verða. Hv. þm. V.-Húnv. hefur bent á ummæli í merku ensku tímariti, að verð skipanna sé talið af þarlendum mönnum miklu lægra en hér hefur heyrzt. Hæstv. samgmrh. skýrir frá tilboði, sem hann hefur fengið um miklu hærra verð en greinir í þessu tímariti. Um þetta er ekki hægt að segja. En hæstv. ríkisstj. verður að rannsaka þetta mál mjög vel og sjá til þess, að niðurstaðan verði ekki sú, að okrað verði á okkur í sambandi við væntanleg skipakaup til landsins. Eins og er, þá er mjög mikið að gera í öllum skipasmíðastöðvum og engum þægð í að fá nýja samninga um skipasmíðar. Má því búast við, að væntanleg tilboð verði mjög há. Er því mjög þýðingarmikið, að hæstv. ríkisstj. láti rannsaka þetta eins vel og henni er unnt, og mér finnst hæstv. samgmrh. þurfi ekki að setja á sig stút, þó að hv. þm. V.-Húnv. hafi hér lesið upp úr merku tímariti nokkur ummæli í þessa átt, er benda til, að tilhneiging er í ýmsum löndum til að sel ja skip dýrara en ástæða er til og landsvenja.

Ég gat um það við 1. umr., að ég áliti ekki mikla þörf fyrir Eimskipafélagið að safna meiri. fjármunum í sjóði. Ég hélt því fram, að það væri ekki heppilegt að veita félaginu skattfrelsi að óbreyttum aðstæðum þess. Þessi till., sem hér liggur fyrir, gengur að því leyti til móts við till. hæstv. ríkisstj., að ef þessi leið yrði farin af hendi Eimskipafélagsins, gæti félagið haldið áfram að safna öllu því fé, sem það kemst yfir gegnum. reksturinn. En hins vegar er haldið fast við þá skoðun, er ég lýsti við 1. umr., að þetta er — ekki hægt að gera nema því aðeins, að í móti komi af hálfu Eimskipafélagsins, að það geti fallizt á, að félagið eða eigendur þess verði ekki aðeins í eðli sínu, heldur einnig formlega sameign allrar þjóðarinnar.

Það hefur verið talað mikið um það, að Eimskipafélagið væri alþjóðareign. Ef okkar till. væri samþ., þá hefði Eimskipafélagið um tvennt að velja í þessum efnum: Annaðhvort að borga skatta eða að fá skattfrelsi um alveg óákveðinn tíma gegn því, að félagið verði sameign allra landsmanna.

Hæstv. samgmrh. lét þau furðulegu ummæli falla í sambandi við þessa till., að hér sé gert ráð fyrir, að ríkið sölsi undir sig eignir þessara manna. Það er ekki sæmilegt að viðhafa slík ummæli, þegar þess er gætt, að með þessari till., ef samþ. verður, eru engar skyldur lagðar á Eimskipafélagið að láta neitt af hendi, heldur er því bara gefinn kostur á skattfrelsi eða það vilji láta á móti þessi hlunnindi. Gegnir furðu, að hæstv. ráðh. skuli vera að þreyta sig á því að koma fram með aðra eins fjarstæðu, sem ekki kemur til mála í þessu sambandi.

Nú mætti vel vera, að menn vildu ekki fara þá leið, sem stungið er upp á í till. hv. þm. V.Húnv., og kjósi heldur að koma samstjórn ríkis og hluthafa fyrir með öðru móti en þar um ræðir. Þá væri rétt, að menn legðu fram slíkar gagnuppástungur í stað þess að lemja höfðinu við steininn og halda því fram, að engra umbóta sé þörf, því að það er í samræmi við skoðanir þorra manna í landinu á þessu máli. Það er ég sannfærður um eftir því, sem maður hefur orðið var við á undanförnum tímum.

Hæstv. samgmrh. gerði mikið úr því, að það væri ósanngjarnt að fara þessa leið, sem við hefðum stungið upp á, í garð félagsins. En ég vil minna á það, að ég veit ekki betur en það hafi verið stefna Alþfl. á undanförnum árum, t.d. í sambandi við styrkveitingar til félaga á fjárl., réttast væri, að sett væru þau skilyrði, að styrkurinn yrði veittur því aðeins, að hann væri gerður að hlutafé í félögunum jafnóðum, og ríkisvaldið fengi þannig íhlutun í félögum á við þann stuðning, sem það veitti þeim. Hve oft þessi stefna hefur komið fram á Alþ., hef ég ekki rannsakað. En hæstv. samgmrh. veit, að þessi stefna hefur mjög oft komið fram í sambandi við styrkveitingar á fjárl. Og ég býst við, að það hafi vakað fyrir þeim Alþfl.- mönnum, sem héldu fram þessari skoðun, að félög gætu, ef þau vildu, verið laus við styrkinn, ef þau kysu heldur. Enda er það ekki okkar till., að styrknum verði neytt upp á Eimskipafélagið með þessum skilyrðum, heldur hitt að gefa félaginu kost á því, ef það vildi, að verða alþjóðarstofnun, ef það vildi fá skattfrelsið til frambúðar. Hitt er fjarstæða, sem hæstv. ráðh. sagði, að með till. okkar væri miðað því, að félagið greiddi skilyrðislaust skatt með hlutabréfum. Till. okkar er um, að félagið skuli borga skatt með hlutabréfum, þangað til komið er að vissu marki, en þegar því marki væri náð, þá væri skattfrelsi fyrir þá stofnun, sem Eimskipafélagið þá væri orðið. Hæstv. samgmrh. og aðrir sem hér hafa talað, hafa sagt, að það yrði að setja einhver ákvæði til tryggingar því, að fjármagn, sem félaginu hefur bætzt nú nýlega, yrði notað til samgöngumála þannig, eins og þeir hafa komizt að orði, að það væri notað á sem þjóðheillavænlegastan hátt. En í því efni hafa hinir sömu menn í umr. gengið mjög framhjá kjarna málsins. Ég hef haldið því fram, að engin trygging væri til fyrir því, að þannig yrði þetta notað, önnur en sú, að á þessu félagi væri samstjórn ríkisvaldsins og hluthafanna. En þó að einhverjar ómerkilegar klausur væru settar inn í þál. um þetta skattfrelsi, svo sem það, sem hæstv. samgmrh. vildi setja þar inn, að það sé gert að skilyrði, að þessu fé verði varið til samgöngumála, þá hefur slíkt sáralitla eða enga þýðingu. Það er hægt að verja fénu til samgöngumála með svo misjafnlega hentugu móti, eftir því, hvernig rekstri samgangnanna er háttað. Það mætti t.d. segja, að það væri verið að verja þessu fé til samgöngumála að leggja kannske mest af þessu fé í fyrirtæki eins og gistihús. Og það hefur a.m.k. verið meining Eimskipafélagsins að eiga hlut í því. Og ég veit ekki, hvað hægt væri að teygja þetta orð, en það væri hægt að teygja það m jög langt, svo loðið sem það er. Auk þess hef ég bent á það við fyrri umr., að það er engin trygging fyrir því, þótt þetta ákvæði væri samþ., að Eimskipafél. hagaði skipakaupum sínum eins og hentugast mundi fyrir þjóðina í heild sinni. Og í því sambandi er vert að athuga það, að Eimskipafél. var fyrir stríð farið meira og meira að láta þær siglingar eiga sig, sem erfiðast var að halda uppi, en ríkið varð að halda þeim uppi með ærnum kostnaði. Auk þess var deilt um það fyrir stríð, hvort félagið ætti að láta byggja dýrt og vandað farþegaskip eða láta byggja vandað vöruflutningaskip. Það voru þá margir, sem héldu því fram og færðu fyrir því glögg rök, að það að láta það sitja fyrir að byggja vandað farþegaskip, lúxusskip, sem kallað var, væri ekki það, sem þjóðinni væri fyrir beztu, heldur kæmi metnaður þeirra, sem standa að Eimskipafélaginu, þar mjög til greina.

Auk þess hef ég bent á það hér, og það er ekki hægt að hrekja það, að það er ákaflega óheppilegt að hafa aðeins eitt skipafélag í landinu, sem nýtur sérstakra hlunninda, sem gerir það að verkum, að enginn annar aðili í landinu getur haldið uppi eðlilegri samkeppni við félagið, og að það skuli þá ekki heldur vera nein opinber íhlutun um það, hvernig rekstri félagsins skuli háttað. Þetta er ákaflega óheppilegt fyrirkomulag. Og mér skilst, að við þessar umr. treysti enginn sér til að halda því fram, að þetta fyrirkomulag sé hentugt. Það er stagazt á því sí og æ, að það þurfi að safna fé til þess að kaupa skip. Það er rétt. Og það er sagt, að þetta óskabarn þjóðarinnar hafi komið að miklu liði. Og hver dregur það í efa? En það er bara gengið framhjá því, hvað er heppilegast fyrirkomulag á samgöngunum í heild sinni. Og það hafa ekki verið færð rök fyrir því, að það væri óheppilegt, að einstaklingar og ríki ættu saman þetta voldugasta fyrirtæki, sem að samgöngumálum hefur starfað hér á landi. Þá væri t.d. hægt að koma því svo fyrir, að Eimskipafélagið, sem er fjárhagslega sterkt fyrirtæki, tæki flugmálin að meira eða minna leyti í sínar hendur alþjóð til hagsbóta. Og þá væri einnig auðvelt að koma við því fullkomnasta skipulagi ekki aðeins á millilandaferðum, heldur einnig strandferðum, í sambandi við það fyrirtæki, sem Eimskipafélagið væri orðið, ef það opinbera hefði íhlutun um rekstur þess. En eins og þessu er háttað nú, er ekki hægt að koma slíku við, nema fá það í hendur tiltölulega fáum mönnum, sem hafa yfirráð í Eimskipafélaginu. — Það er eins og það sé ekki hægt að safna saman fjármunum til þess að auka skipastól og bæta samgöngur, nema með því að hafa stjórn þessa félags eins að öllu leyti og hún er. Og er eiginlega óskiljanleg sú þrjózka, sem kemur fram hjá sumum hv. þm. í sambandi við það.

Enginn hv. þm. Sósfl. hefur haft andlegt þrek til þess að vera viðstaddur hér þessar umr. nú, nema rétt á meðan hv. 8. þm. Reykv. talaði. En eftir það hafði hann sig fljótlega á brott. Hv. 8. þm. Reykv. ræddi hér um S.Í.S. og verzlunarmál. Hann deildi, að mér skildist, á S.Í.S. fyrir það, að það hefði stutt Eimskipafélagið. Þessu skýtur heldur skökku við úr munni manns, sem ætlar að fylgja þessum hlunnindum til handa Eimskipafélaginu. En afstaða S.Í.S. var sú, að það studdi Eimskipafélagið með ráðum og dáð, og það var vegna þess, að S.Í.S. taldi, að það væri þjóðnytjaverk, sem Eimskipafélagið innti af höndum. Hitt er annað mál, að á síðari árum hefur komið upp óánægja innan samvinnuhreyfingarinnar út af því, hvernig Eimskipafélagið hefur hagað sínum rekstri, út af því, að Eimskipafélagið virðist hafa sífellt tekið minna og minna tillit til þarfa þjóðarinnar í sambandi við rekstur sinn. Og þess vegna hafa samvinnumenn farið að vinna að því á síðari árum, að samvinnufélög gætu komið sér upp eigin skipum til þess að koma á eðlilegri samkeppni í landinu á milli Eimskipafél. og þeirra skipa, sem S.Í.S. ræki, og til að gera tilraun í þá átt, hvort ekki væri unnt að koma flutningum heppilegar fyrir með þessu móti. Og þannig er afstaða S.Í.S., að það hefur ævinlega tekið skip Eimskipafél. fram yfir erlend skip, sem hér hafa starfað. Og ég hygg, að mörg fyrirtæki í landinu geti ekki sagt sömu sögu í sambandi við flutninga fyrir sig undanfarið. En af ástæðum, sem ég hef getið, hefur S.Í.S. talið heppilegt að stefna að því að eignast sjálft skip til flutninga. Og ef það kemst í framkvæmd, tel ég það ekki aðeins gott fyrir samvinnumenn í landinu, heldur líka alla, því að þá kæmi samanburður um það, hvernig öðrum en Eimskipafél. gengi að reka slíka starfsemi. En vitanlega getur enginn aðili í landinu keppt við Eimskipafél., meðan það hefur fullkomið skattfrelsi. Og það er einn versti ágallinn á því fyrirkomulagi, sem væri hægt að sníða af að nokkru með því að Eimskipafél. væri sameign ríkisins og hluthafanna. En þessi ágalli verður aldrei sniðinn af, meðan haldið er áfram á þeirri braut, sem farin hefur verið í þessu efni.

Hv. 8. þm. Reykv. ræddi lítið um þann snúning, eða það ofaníát, eins og hv. þm. V.-Húnv. kallaði svo, sem Sósfl. hefði orðið að taka á sig í sambandi við þetta mál. Þegar rætt var um farmgjöldin 1943, þá gagnrýndi Sósfl. mjög stefnu Eimskipafél. í þeim málum og hét mönnum því, að ef sá fl. gæti nokkru ráðið um þetta mál, þá skyldi það hneyksli verða rannsakað til fulls, eins og það var orðað. En hér hefur átt sér stað gerbreyt. á stefnu hjá þessum fl. í þessu sambandi. Nú segir hv. 8. þm. Reykv., að það þurfi engum á óvart að koma, þó að þeir hafi söðlað um í þessu máli, því að þeir hafi komið sér saman um það í sambandi við stjórnarmyndunina að gera ekki ágreining um það eða önnur efni, sem snerta sérstaklega deilumál milli flokkanna. Hv. 8. þm. Reykv. þurfti náttúrlega ekki að gefa þessa yfirlýsingu, því að Sósfl. hefur orðið og verður að kingja fleiru en því, sem hann hefur sagt um Eimskipafél. Nægir í því sambandi að benda á það, sem flokkurinn hefur orðið að kingja í sambandi við dýrtíðarmál, skattamál o.fl. En Sósfl. hafði bent á, að eitt aðalatriði í sambandi við dýrtíðarmálin væri að lækka eða afnema tolla, en nú verður flokkurinn að vera með því að leggja á veltuskatt, sem verður einn tollurinn enn. Og flokkurinn verður líka að kingja því, að ekki verði hreyft við gömlu tollunum. Hitt er örðugt að sjá, hvað þeir fá í staðinn annað en það, að alltaf þokar í áttina til þess fyrirheitna hruns, sem þá dreymir um, að verði í landinu. Það er það, sem þeir eru að stofna til. Og það er ekki furða. þó að þeir geti séð af gömlum áhugamálum sínum, til þess að geta náð árangri í þessu efni. — Það hefur undanfarið mjög mikið verið rætt um, að þjóðarnauðsyn krefðist þess, að landinu væri stjórnað með einingu allra flokka, til þess að koma í framkvæmd þeim stórfelldu umbótamálum, sem fram undan væru og biðu úrlausnar. Og það væri fróðlegt að fá að heyra frá hv. þm. Sósfl., — en því er ekki að heilsa, þeir eru ekki viðstaddir frekar en áður —, hverjir það væru, í ríkisstj., sem hefðu ekki meiri skilning á þörfum þjóðarinnar fyrir samstarf um þessi miklu vandamál, sem svo mikið er talað um, en svo, að þeir færu úr ríkisstj. og slitu samstarfinu, ef þingið fengi að njóta sín um mál eins og Eimskipafélagsmálið og um mál eins og ýmsa þætti skattamálanna. Hverjir eru það í ríkisstj., sem hafa svona daufan skilning á þörfinni fyrir samstjórn þá, sem nú er, að þeir hafi í hótunum um það að fara úr ríkisstj., ef hin og önnur hneyksli, sem upplýst hefur verið um, fá ekki að standa, og sem eru svo aðgangsharðir, að heilir flokkar verða að beygja sig í duftið, til þess — að manni skilst — að samstarfið rofni ekki og allt fari út um þúfur? Þjóðin þarf að fá að vita, hverjir starfa svo í ríkisstj. að heimta t.d. það, að þetta mál sé afgreitt með því móti, sem hér liggur fyrir till. um frá stjórnarfl. Það væri fróðlegt að fá þetta upplýst, svo að þjóðin fái að vita, hvað liggur á bak við allt þetta skraf um nauðsyn á þjóðlegri einingu og hve hátt einstakir flokkar, sem standa að ríkisstj., setja þá nauðsyn alþjóðar, sem þeir eru sífellt að tala um. Því að það er auðséð á vinnubrögðunum hjá stjórnarflokkunum, að sá háttur er á hafður í ríkisstj., að hótanir ganga á víxl um að rjúfa samstarfið, ef þessi eða hinn fær ekki að halda sínum kreddum eða að halda hlífiskildi yfir þeim, sem hann telur sig þurfa að halda hlífiskildi yfir, fjárhagslega. eða með öðru móti. Og svo leka menn niður hver fyrir öðrum á víxl. En það væri nauðsynlegt, að það kæmi gleggra fram en orðið er, hvernig þessu er háttað hjá stjórnarflokkunum.