21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Hv. 2. þm. S.-M. undraðist það, að menn skyldu ekki hafa andlegt þrek til þess að sitja hér og hlusta á þessar uppbyggilegu ræður hans og hans félaga, sem nú hafa farið fram undanfarið. En ég undrast það nú ekki spor, þó að menn hafi ekki af því mikla ánægju, því að fátt nýtt hefur komið fram í þeim ræðum. Og meira hafa þær verið fyrir mínum eyrum sem eitthvert óánægjunöldur, sem þeir hafa fundið sig knúða til að hafa í frammi, heldur en að efni stæðu til þeirra andmæla, sem þeir hafa komið fram með.

Hv. þm. V.-Húnv. hélt hér nokkurt framhald af sinni fyrri ræðu og fór um það ýmsum orðum, sem ég sagði þá á eftir honum. Hv. þm. sagði, að byggingarkostnaður sá, sem hann hefði minnzt á, að væri greindur í þessu tímariti, væru upplýsingar í málinu, sem ríkisstj. þyrfti að taka til greina og athuga. Og það er vissulega rétt. Það er sjálfsagt að athuga þetta. Ég skýrði aðeins frá því, að ég hefði aldrei séð eða heyrt nefndar svona lágar tölur um byggingarkostnað í þeim tilboðum, sem ég hefði átt kost á að sjá og kynnast. Og einnig sagði ég, að það, sem hv. þm. greindi, þótt rétt reyndist, segði ekki nema hálfan sannleikann. En það er oft einkennandi fyrir málfærslu þessara hv. þm., að þeir segja ekki nema hálfan sannleikann. Og eftir því á svo, skilst mér, að fella dóm. Þeir segja, að það megi fá smíðuð skip í Englandi fyrir 630 kr. ísl. á smálest og í Svíþjóð fyrir 1100 kr. á smálest, en þeir segja ekkert um það, hvernig þessi skip séu, sem fáist smíðuð fyrir þetta verð. En ef þessi skip uppfylla ekki kröfur okkar, sem við verðum að gera til skipa, þá má okkur í léttu rúmi liggja, hvort það kostar 630 kr., 1100 kr. eða eitthvað annað að smíða í þeim smálestina, því að þá getum við ekki notað skipin. Til þess að þessar tölur séu athugandi, þarf það að liggja fyrir, að þetta sé kostnaður á smíði skipa, sem okkur geti orðið til nota við okkar flutninga. En þessarar hliðar málsins lét hv. þm. V.-Húnv. ekki getið. En ég vænti, að það standi ekki á honum með að gefa upplýsingar um þetta. Ég þarf svo ekki fleiri orð um það. En þessi málfærsla, að setja þetta fram svona einhliða, er málfærsla, sem helzt ekki á að nota í þessu sambandi, — að segja aðeins sannleikann hálfan.

Hv. þm. V.-Húnv. sagðist óska eftir því, að ríkið hefði meiri íhlutun en nú um stjórn þessa félags. Ég er honum sammála um þetta. Eins og ég hef áður tekið fram, tel ég æskilegt, ef unnt er, að ríkissjóður hefði þá aðstöðu til stjórnar í þessu félagi, sem þyrfti, til þess að geta stjórnað því með alþjóðarhag fyrir augum. En ég tel bara, að sú aðferð, sem hér er bent á til þess að ná þessu marki, sé svo langt fyrir neðan allar hellur, að hún komi ekki til greina. (EystJ: Hver er þá, aðferð hæstv. ráðh.?) Hún mun koma fram síðar í brtt., sem ég hef boðað, að Alþfl. muni flytja. — Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að Alþfl. mundi vilja, að skattfrelsið væri af félaginu tekið, og hann las nokkrar greinar úr Alþýðublaðinu, sem áttu að sanna, að afstaða mín til málsins væri önnur en afstaða sú, sem Alþfl. hefði haft til þessa máls áður. En hv. þm. tókst ekki að sanna þetta. Því að í þessum greinum var gengið út frá því, að félagið héldi þessu skattfrelsi, og af þessu var svo dregin ályktun um þörf á meiri íhlutun hins opinbera um störf félagsins, sem ég er einnig samþykkur. — Ég lét þau orð falla, að Alþfl., ætti engan fulltrúa í stjórn félagsins og þyrfti þess vegna ekki honum um að kenna, ef eitthvað hefði farið þar öðruvísi en vera ætti. Hins vegar sagði ég, að Framsfl. hefði átt þar fulltrúa, sem aldrei, mér vitanlega, hefði gert neinn ágreining um þessa miklu farmgjaldaaukningu, sem þar hefði átt sér stað og leiddi til gróða þess, sem hv. þm. krítiseraði mest. Hv. þm. sagði, að þessi framsóknarmaður í stjórn Eimskipafél. væri ekki fulltrúi Framsfl. í þessari stjórn, og það er rétt. Hann er fulltrúi ríkisstj., og hann hefur verið settur inn í stjórnina af ríkisstj. til að gæta alþjóðarheilla í sambandi við rekstur félagsins. Og þar sem þessi maður er auk þess ágætur framsóknarmaður, þá hefði hann a.m.k. átt að láta ríkisstj. vita, hvað hér var á ferð, og aðvara hana, ef um annað eins hneyksli var að ræða í stjórn félagsins og hér hefur verið talað um. En hvað gerir þessi framsóknarmaður í stjórn Eimskipafél.? Ég veit ekki til þess, að hann hafi látið nokkuð á sér bæra. Þá sagði hv. þm. V.-Húnv., að það væri fjarstæða, að þessi maður gæti stjórnað félaginu. Vitanlega gat hann það ekki einn, en hann gat þó látið ríkisstj. vita um það, hvað væri að gerast í félaginu, svo að ríkisstj. gæti gert sínar ráðstafanir gegnum verðlagsyfirvöldin og viðskiptaráð. Þetta bar honum að gera undir öllum kringumstæðum.

Hann segir, að hann hafi gert ágreining í stj. um skipakaup, þegar um hafi verið að ræða á síðustu árum fyrir stríðið, að félagið keypti nýtt skip, hann hafi viljað kaupa vöruflutningaskip, en ekki fólksflutningaskip, eins og sennilega meiri hl. stj. vildi þá. Ég vil engan dóm á það leggja, hvað réttast hefði verið að gera þá, en ég vil aðeins á það benda, að þá var skorturinn á farþegaskipum til landsins svo mikill, að það varð að taka eina almennilega strandferðaskipið, sem við eigum, Esju, og senda það til útlanda til að flytja fólk. (SkG: Það var gamla Esja.) Hvað sem um það er, þá var tekið það einasta strandferðaskip til að fara í fólksflutninga, sem Eimskipafélagið virtist ekki hafa skip til að annast. Ég hygg, að það hefði verið rétt að kaupa bæði fólksflutningaskip og vöruflutningaskip, ef félagið hefði getað keypt bæði skipin, og sennilegt er, að ef ekki hefði verið ágreiningur um þetta, þá hefði það orðið til þess, að bæði skipin hefðu verið keypt. Hann segir, að það hafi verið mikill skaði, að ekkert hafi orðið úr þessum skipakaupum, og er ég honum þar sammála, en ég veit ekki, hvern ég á að ásaka í þessu efni, ég er ekki kominn til að kveða upp neinn dóm um það.

Þá kem ég að því, sem hann sagði, að væri aðalatriðið í gagnrýni hans á ræðu minni, en það voru þau ummæli, sem ég hafði látið falla, að ég teldi mjög ósanngjarnt, svo að ekki væri meira sagt, að félaginu væri gert að greiða skatta, tekjuskatt og eignarskatt, í hlutabréfum, því að bréfin væru miklu meira virði en nafnverð þeirra segir til. Þetta þótti hv. þm. vera mjög undarleg yfirlýsing af minni hálfu. Í alveg sama streng tók hv. 2. þm. S.-M., sem taldi, að bréfin væru að vísu einkaeign hluthafanna, en vildi þó telja, að hluthafarnir hefðu einhverja móralska skyldu til að afsala þeim til annarra.

Ég skal fara um þetta nokkrum orðum og skýra, á hverju ég byggi þessa umsögn mína.

Félagið á, eins og ég sagði, rúmlega 11/2 millj. kr. í hlutafé. Eignir þess eru aftur milli 30 og 40 millj. króna. Ég vil draga af því þá ályktun, að hlutabréfin væru metin með venjulegum hætti 20–25-falt að verðmæti á við það, sem nafnverð þeirra segir til. Þetta er nefnilega sú raunalega staðreynd fyrir þá í málinu, að hluthafarnir hafa ekki undirgengizt neinar kvaðir um meðferð þessara bréfa, og þessir hv. þm. hafa báðir verið með því að veita félaginu skattahlunnindi, sem eingöngu voru bundin við það, að félagið borgaði ekki hærri arð en 4% til hluthafa og veiti nokkrum námsmönnum ókeypis far til útlanda. Lengra náðu skuldbindingarnar ekki, en svo þegar tímabil skattfrelsisins var útrunnið, þá hafði félagið rétt til að haga starfsemi sinni eins og önnur einkahlutafélög.

Nú er lagt til að gera verulegan mun með þessu frv. Nú er lagt til að setja það skilyrði í fyrsta sinn, að tekjuafgangi félagsins verði varið til að kaupa skip eða á annan hátt í þágu samgöngumála. Þetta hafa þeir, sem áður hafa verið ráðh., aldrei sett sem skilyrði fyrir skattfrelsinu, og því er komið sem komið er, að nú er félagið frjálst að fara með sínar eignir nákvæmlega eftir eigin geðþótta og við stöndum frammi fyrir því opna spursmáli, m.a. fyrir aðgerðir þessara hv. þm., að félagið geti nú hagað starfsemi sinni eins og hvert annað einkafyrirtæki, en það, sem hér er verið að tryggja, er að færa það í það lag, sem hefur verið vanrækt m.a. af þessum hv. þm. (EystJ: Hefur það þá ekki líka verið gert af þessum hæstv. ráðh.?) Jú, það voru á sínum tíma ekki sett nein skilyrði, en þó hefur félagið aldrei gert tilraun til að leika sér með þetta fé, sem það hefði þó getað. Þingið 'stendur nú frammi fyrir þeim möguleika að veita félaginu hlunnindi með þeim skilyrðum, að það verði þjóðinni að gagni, án þess að hnekkja rekstri þess í neinu, eða veita ekki þessi skattfríðindi og félagið hafi þann möguleika að reka starfsemi sína eins og hvert annað einkafyrirtæki.

Hv. 2. þm. S.-M. talaði um móralska skyldu í þessu sambandi. Hann sagði, að hann væri hræddur um, að hluthafarnir kynnu að fara að líta svo á, að þeir mættu fara með bréf sín og eignir sínar eins og þeim kynni að henta bezt. Þetta væri meira en hugsanlegt,, ef þeim skyldi detta í hug, að þeir hefðu uppfyllt öll skilyrði, sem sett hefðu verið fyrir skattfríðindunum. Nú er þessu skattfríðindatímabili lokið, og þeir standa uppi með þennan hagnað að loknu tímabilinu. Ég tel ákaflega illa farið, ef Alþingi yrði til þess að hrekja félagið út af þeim grundvelli, sem það hefur starfað á undanfarin ár. Það hefur starfað hingað til á þeim grundvelli, sem er óvéfengt af þessum hv. þm., að það hefur ekki notað hagnað sinn til að greiða hluthöfunum arð. Það hefur eingöngu borgað eins og til stóð 4–5% af nafnverði hlutabréfa og stundum ekkert, en það hefur hagað rekstri sínum, eftir því sem mér skilst, oftast á þann veg, að þjóðin má þar vel við una. Vil ég þó taka undan þetta ár, 1943, með fragthækkuninni þá, því að það hefði að mínu viti mátt betur fara, en ég tel, að það mál eigi ekki að taka upp í þessu sambandi, heldur af viðkomandi verðlagsyfirvöldum og ráðast til lykta af þeim. Ég tel hins vegar, að félagið hafi yfirleitt hagað rekstri sínum og starfsemi á þann veg, að það hefur verið þjóðinni í heild til mikils ávinnings. En ef nú ætti að neita félaginu um skattfríðindi eða setja þau skilyrði fyrir þeim, eins og hv. þm. V.-Húnv. vill, sem eru raunverulega sama og neitun, þá er félagið hrakið út af þeirri braut, sem það hefur starfað á, og hefur möguleika til að fara út í sams konar rekskur og venjuleg hlutafélög, þ.e.a.s. að einstaklingssjónarmið verði þar gildandi, og það er mikil freisting fyrir hluthafana að gera það, en ég tel, að það yrði illa farið, ef það yrði árangurinn, í staðinn fyrir að fara út í þær skipabyggingar, sem félagið óskar að fara út í og þjóðin hefur mikla þörf fyrir.

Hv. þm. báðir sögðu, að það væri ekki viðeigandi og alls ekki sæmandi orðbragð hjá mér, þegar ég sagði, að till. hv. þm. V.-Húnv. gengi út á að sölsa eignir félagsins undir ríkið, en ég get satt að segja ekki séð, að það sé neitt ofmælt. Félaginu er samkvæmt till. hans heimilað að greiða tekjuskatt, eignarskatt og stríðsgróðaskatt, sem því ber að gjalda ríkinu í hlutabréfum í félaginu, er reiknuð séu til skattgreiðslunnar með nafnverði, enda verði engar takmarkanir á. atkvæðisrétti á hluthafafundum félagsins, að því er hlutafé ríkissjóðs snertir. (SkG: Vill hæstv. ráðh. ekki lesa till. alla?) Jú, með ánægju, með leyfi hæstv. forseta. „Eftir að hlutafjáreign ríkissjóðs í félaginu er orðin jafnhá samanlagðri hlutafjáreign annarra hluthafa, gilda ákvæði laga nr. 33 7. maí 1928 um skattgreiðslu félagsins.“

Mér skilst, að hv. 2. þm. S.-M. vilji skjóta sér undir það, að þessi greiðsla í hlutabréfum sé eingöngu bundin við það tímabil, þangað til hlutafjáreign ríkisins er orðin jafnhá hlutafjáreignum annarra hluthafa í félaginu, en svo komi þessi miklu hlunnindi, sem í skattfrelsinu felist. Sér eru nú hver hlunnindin, þegar ríkið er búið að eignast félagið. Það hefur þá fengið meirihlutaaðstöðu í félaginu og getur ráðið því til fulls. Ég tel, að þessi aðferð, sem stungið hefur verið upp á af hv. þm. V.-Húnv., sé fyrir neðan það, sem ríkisstj., ríkissjóður og Alþingi geti leyft sér að gera. Ég er með því fullkomlega, að ríkissjóður eignist aukin ítök í félaginu, en ég vil ekki gera það á þann hátt, sem ég tel allt að því ósæmilegt.

Hv. þm. V.-Húnv. segir, að því sé haldið fram, að þetta sé alþjóðarfyrirtæki og menn hafi ekki dreymt um það að fá neinn arð af þessu fé nema venjulega vexti, og ég get gengið inn á það, að þannig muni féð hafa verið lagt fram af fjölda mörgum, þegar félagið var stofnað. En það er eins með þetta félag og önnur, að þegar félagið hefur eignazt einhver verðmæti, þá eru menn ekkert sérstaklega fúsir til að gefa þau frá sér. Ég heyri sagt, að S.Í.S. hafi eignazt talsvert mikið af sjóðum, safnað sér digrum sjóðum, meðan styrjöldin hefur staðið. Ég er ekki viss um, að þetta fyrirtæki kæri sig um, að þeim verði stráð út í veður og vind og jafnað milli landsmanna. Þannig er ég óviss um, að hluthafar Eimskipafélagsins kæri sig um, að fé, sem þeir hafa lagt fram í upphafi og hafa átt síðan, verði dreift milli allra landsmanna, ef þeir eru til með að tryggja, að félagið sé rekið eins og í upphafi var ætlazt til með hag alþjóðar fyrir augum.

Ég lýsti yfir í fyrri ræðu minni, að það mundu verða bornar fram af hálfu fulltrúa flokksins í fjhn. nokkrar brtt. við þetta frv., og ég hef átt þess kost að sjá þær og veit, að þær eru m.a. í þessa átt, í fyrsta lagi að setja það skilyrði, að ekki verði borgað nema 4% í arð af hlutafé, í öðru lagi, að tekjuafgangi félagsins verði eingöngu varið til samgöngubóta og skipakaupa, í þriðja lagi, að fram fari könnun á því, hverjir séu nú eigendur hlutabréfa félagsins, og í fjórða lagi, að samningar náist við félagið um þátttöku í kostnaði við strandsiglingar. Ég tel, að með þessu sé náð því, sem fyrir mér er aðalatriðið í þessu máli, nefnilega það, að hagnaðinum af rekstri félagsins sé varið til siglinga- og samgöngubóta og félagið eigi þess kost að efla skipastól sinn og kaupa þau 6–7 nýju skip, sem það hefur lýst yfir, að það þurfi að kaupa, þegar stríðinu lýkur og samkeppnin byrjar við útlendinga, því að þá megi ekki, eins og ég sagði í minni frumræðu, hvíla á skipum félagsins það miklar skuldir, að félagið neyðist til að þrengja í þeirri baráttu niður kaupi skipshafna eða draga úr aðbúnaði þeirra. En til þess, að það megi takast, verður félagið að eiga sem allra mest í sínum skipum skuldlaust.

Það fór ekki hjá því, og ég tók eftir því, að hv. 2. þm. S.–M. endaði bæði fyrri og síðari ræðu sína á sama atriði, og það gefur mér tilefni til að ætla, að það sé fyrir honum mjög verulegt atriði í málinu, svo að ekki sé meira sagt, en það voru skipakaup S.Í.S. Hann virtist áhyggjufullur um framtíð þess fyrirtækis vegna þeirra skattfríðinda, sem Eimskipafélaginu hafa verið veitt. Hann sagði, að það hafi verið talið heppilegt af Sambandinu að búa sig undir að kaupa skip, sem kæmi til að sigla í samkeppni við Eimskipafélagið, og er ekkert við því að segja. En þó að hann standi að þessum skipakaupum með S.Í.S., þá má það ekki verða til þess, að hann standi betur að vígi í samkeppninni við Eimskipafélagið, leggi stein í götu þess. Ég er ekki að segja, að þetta hafi verið meiningin, en ég aðvara hann um það, sem kom fram hjá honum áðan, að hugsunin um skip S.Í.S. verði ekki til að leggja stein, kannske óviðráðanlegan, í götu Eimskipafélagsins. Annars virðist nú vera ofarlega á baugi hjá Framsfl. að taka upp samkeppni og frjálsa verzlun á sem flestum sviðum, og er ekkert við því að segja, og gefst kannske síðar tækifæri til að verða við þeim óskum að verulegu leyti, en ekki hefur það alltaf verið efst á baugi hjá Framsóknarflokknum að berjast fyrir þessu.

Hv. 2. þm. S.-M. sagði frá því í lok ræðu sinnar, hvernig samningar gengju til í ríkisstj. Mér þótti það ærið furðulegt, hvernig hann sagði frá um það atriði. Ég veit ekki, hvaðan hann hefur fengið þær upplýsingar, sem þar komu fram. Hann sagði, að þar gengju hótanir um að rjúfa samstarfið fjöllunum hærra og svo lækju menn þar niður á víxl hver fyrir öðrum. Ég er satt að segja undrandi yfir, hvaðan hv. þm. hefur þessar upplýsingar. Þetta er ánægjulegt fyrir hann og hans flokk, ef samstarfið gengi svona stirt, en ég get fullvissað hann, að ekkert þess háttar hefur átt sér þar stað. Þau mál, sem fram hafa komið frá stj., hafa flest verið borin fram á þeim grundvelli, sem lagður var í þeim málefnasamningi, sem gerður var við stjórnarmyndunina, og þurfti ekkert um það að rífast og enginn að leka niður fyrir öðrum, eins og hann orðaði það. Ég get fullvissað hv. þm. um, að það hafa engar hótanir eða átök eða neitt þess háttar valdið því, að þetta mál var borið fram og afstaðan til þess er eins og hún er. En æskilegt væri, að hv. þm. hefði betri heimildir fyrir fullyrðingum sínum næst, þegar hann talar, en hann hefur haft fyrir þessum fullyrðingum sínum.

Ég veit ekki, hvort ástæða er til að hafa um þetta nokkuð fleiri orð. Ég tel mig hafa svarað öllum meginatriðum, sem fram hafa komið hjá hv. þm. Ég fyrir mitt leyti vil gjarnan, að málinu verði hraðað, svo að hægt sé að ljúka afgr. þess sem fyrst, og geri því ekki ráð fyrir að ræða um það frekar að þessu sinni, nema sérstakt tilefni gefist til.