21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Það er sitt hvað að gera yfirlýsingu eins og hv. 8. þm. Reykv. gerði, um að flokkur treystist ekki til að framkvæma stefnumál sín, eða að slæmt samkomulag hljóti að vera í samstjórn flokka, sem starfa að lausn mála á afmörkuðum grundvelli. Þetta veit hv. 2. þm. S.-M., þótt hann láti öðruvísi.

Hv. þm. taldi, að mér væri skylt sem einum af forráðamönnum landsins að halda fast fram hinum „móralska“ rétti ríkisins til að ná valdi yfir Eimskipafélaginu og láta hluthafana afsala sér yfirráðunum yfir því. Ég vildi gjarnan geta farið eins langt í því og frekast væri unnt. En ég sé ekki nokkra minnstu lagalega átyllu til að knýja hluthafa félagsins til að semja á þeim grundvelli, og það fást þeir áreiðanlega ekki til að gera, þótt ég álíti og treysti, að þeir telji sér skylt að nota ekki eigur félagsins til persónulegs hagnaðar fyrir sig. Á þeim einum grundvelli, sem áður hefur verið markaður, þegar félaginu var veitt skattfrelsi, er nú hægt að semja, svo að starfið geti haldið áfram. Þetta er óumflýjanlegt að gera.