01.03.1945
Efri deild: 139. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. — Ég skal ekki segja um það, hver niðurstaða fjhn. hefði orðið í þessu máli, ef málið hefði legið þar fyrir til algerlega frjálsrar ákvörðunar. En ég varð var við það í n., að samið hafði verið um málið, og taldi því ekki hafa neina þýðingu að bera fram sérstakt nál. En ég hef þó talið rétt, að atkv. gengju um brtt., sem hv. þm. V.-Húnv. flutti í Nd., einnig í þessari d. og hef því tekið þær upp. Ég hefði verið fús til samkomulags um aðra tilhögun þessa máls en hann hefur lagt til í sínum brtt., en þar sem ekki var eftir því samkomulagi leitað, taldi ég tilgangslaust að bera fram nýjar brtt. Mér finnst ekki úr vegi að rifja upp sögu þessa máls, þar sem ég hef verið við þetta mál riðinn frá upphafi. Þessi l. eru að stofninum til frá 1924, en ekki frá 1928, eins og stóð í einu plaggi um málið í Nd. Þegar fyrst var flutt frv. um skattfrelsi Eimskipafélagsins, var ég einn af flm. þess máls ásamt þm. úr Framsfl. og Íhaldsfl., sem þá var kallaður. Frv. þetta var sent til n., sem ég átti sæti í. N. klofnaði, og lagði meiri hl. til, að frv. yrði samþ. aðeins með þeirri breyt., að félaginu væri ætlað að greiða nokkurt útsvar til Reykjavíkurbæjar, en vera laust við skatt til ríkisins. í þeim meiri hl. voru Jón Kjartansson núv. ritstj. Morgunblaðsins, ég, sem var form. meiri hl., og 1. þm. Árn.

Í minni hl. voru Jón Baldvinsson og Magnús Jónsson, núv. 1. þm. Reykv., og lögðu þeir eindregið á móti þessu máli, í fyrsta lagi vegna afstöðunnar til bæjarsjóðs, og báru þeir fyrir sig bréf frá bæjarstjórn Reykjavíkur, en tóku fram í sínu nál., að hið sama gilti um skattfrelsið til ríkissjóðs. En það fór svo, að frv. var samþ. Það er þetta frv., sem er grundvöllur þeirra l., sem síðan hafa gilt, því að 1928 voru þessi l. endursamþ. í lítið eitt breyttri mynd og hafa síðan verið samþ. hvað eftir annað.

Aðalástæðurnar til, að þetta frv. var fram borið og samþ. á Alþ. og síðan framlengt, voru fjárhagslegar ástæður félagsins, sem þá voru ekki glæsilegar. Um árabil gat Eimskipafélagið t.d. ekki greitt hluthöfum sínum neinn arð. Af þessum ástæðum var það, að félaginu var veitt skattfrelsi.

Við flm. þessa frv. töldum okkur ekki fært að fara fram á annað en að þetta skattfrelsi, sem reyndar var takmörkun á sköttum, gilti til 1928. Ef við hefðum farið fram á lengri tíma, hefði frv. án efa verið fellt. Og þannig hefur það ávallt verið síðan, að þegar l. um skattgreiðslu Eimskipafélagsins hafa verið framlengd, hefur það alltaf verið um ákveðið tímabil, en ekki til frambúðar. Að sjálfsögðu hefur löggjafarvaldið meint eitthvað ákveðið með þessu að setja ekki þessi l. til frambúðar, og hefur það auðvitað verið það, að ef hagur þessa félags breyttist svo verulega, að það ætti jafnhægt með að greiða skatta og önnur fyrirtæki í landinu, væri réttlátt, að það gerði það. Ég held því, að það geti ekki orðið um það deilt, að þær ástæður, sem ollu því, að þessi l. voru sett í fyrstu, séu burtu fallnar, því að sem betur fer hefur félaginu tekizt að bæta hag sinn svo stórlega, að það er sízt hægt að tala um fjárþröng hjá því, eins og áður var gert.

En þó að þessar gömlu ástæður til þess, að þetta var fram borið og samþ., séu burtu fallnar, þá geta að sjálfsögðu verið komnar nýjar ástæður til sögunnar, og þær ástæður, sem nú eru taldar til þess að framlengja skattfrelsið eða takmörkun á skattgreiðslum til ríkissjóðs, eru þær, að óvenjuleg þörf sé á því að auka skipastól félagsins, svo að það geti sem fyrst innt það af hendi, sem var ætlunin með stofnun félagsins, en tilgangur þess var að gera okkur Íslendinga alveg sjálfbjarga að því er flutninga til og frá landinu snertir og með ströndum fram, að því leyti, sem fyrir þeim málum er ekki séð á annan hátt af ríkinu sjálfu. En ég held, að það sé ekki hægt að neita því, að þótt brtt. sú, er hv. þm. V.-Húnv. flytur og ég hef tekið upp til prófs, yrði samþ. og félagið njóti þeirra hlunninda, sem þar eru tilgreind, þá væri á nákvæmlega sama hátt hægt að verja fjármunum félagsins til aukningar skipastólsins eins og þótt frv. sé samþ. óbreytt eða með breyt. hv. meiri hl., því að höfuðstóll félagsins minnkar í rauninni ekkert, þó að það gefi út ný hlutabréf sem greiðslu á skatti til ríkissjóðs um ákveðið árabil. Og möguleikar til nýbyggingar verða nákvæmlega þeir sömu fyrir því.

Þess vegna er mér það alveg óskiljanlegt, sem ég hef þó séð í blöðum og heyrt í hv. Nd., að till. sem þessi er talin einhver fjandskapur við Eimskipafélagið og nýsköpunarskipastól þess. Að vísu má segja, að nokkuð sé dregið úr gildi hvers hlutabréfs, ef þetta yrði samþ., samanborið við það, að félagið héldi áfram þessum fríðindum kvaðalaust. En þess er að gæta, að ef eignir Eimskipafélagsins væru metnar nú, mundi hlutaféð reynast vera margfalt að verðgildi, og þessi aukning á verðgildinu stafar að ekki litlu leyti frá skattfrelsinu, sem ríkið hefur veitt undanfarin ár. Ég sé því ekki, að ríkið gerði neitt illa við félagið, þó að það gerði því að greiða skatt eins og öðrum fyrirtækjum í landinu, en veitti því þau réttindi að greiða þessa skatta í hlutabréfum. Það liggur t.d. í augum uppi, að ef ekkert ófyrirsjáanlegt kemur fyrir, þá mundi mjög auðvelt að greiða sama arð af hlutabréfunum og gert hefur verið, þó að þessi brtt. hv. þm. V.-Húnv., sem ég hef tekið upp, yrði samþykkt.

Ég vil þá, áður en ég lýk máli mínu, geta þess, að ég skildi ekki vel orð hv. frsm. meiri hl. n., enda skýrði hann þau ekki neitt, um það, að félagið mundi ekki geta notað þau hlunnindi, sem fram væru borin í frv. óbreyttu. Enn fremur skal ég geta þess, að mér þótti nú fullríflega til orða tekið hjá honum, þegar hann sagði, að Eimskipafélag Íslands væri sameignarfélag allra landsmanna. Ef ég gæti viðurkennt þau ummæli fyllilega, þá hefði hvorki hv. þm. V.-Húnv. borið fram þessa brtt. né ég tekið hana upp, því að till. er einmitt fram borin til þess að gera félagið að .sameignarfélagi allra landsmanna í ríkara mæli en nú er. Ég held, satt að segja, því miður, að félagið hafi aldrei verið sameignarfélag allra landsmanna. En það var þó svo, þegar félagið var stofnað fyrir rúmlega 30 árum, að mjög almennur áhugi var fyrir því og svo að segja allir þeir, sem ég þekkti, lögðu fram sinn litla skerf. Það hefði því máske mátt segja þessi orð með töluverðum rétti á fyrstu árum eftir stofnun félagsins, en vitanlega er þetta gerbreytt nú á öllum þessum árum, og í raun réttri veit enginn um þetta nú. Má vera, að stofnendur Eimskipafélagsins viti það, en við á hæstv. Alþingi og almenningur ekki, hve margir landsmenn það eru, sem eru í þessu félagi, og það er áreiðanlega ofmælt, að þetta sé sameign allra landsmanna.

Ég skal þá í allra síðasta lagi taka fram út af þessari brtt., sem ég hef tekið hér upp, að ég hefði vel getað hugsað mér annað form á því að gera félagið raunverulega að sameign, annaðhvort allra eða a.m.k. sem allra flestra landsmanna, heldur en það form, sem hér er stungið upp á í brtt. En að ég hef ekki farið neitt út í það, er af því, að málið var ekki yfirleitt sent í n. sem slíkt, og ég fann, að það mundi ekki þýða neitt að vera með bollaleggingar um þetta, og þess vegna fannst mér réttast, að atkv. gengju um það, sem atkv. hafa þegar gengið um í hv. Nd., og vera ekki á þessu stigi með neinar till.