01.03.1945
Efri deild: 139. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Jónas Jónsson:

Ég vil athuga nokkuð þær breyt., sem orðið hafa á þessu frv. í Nd., og þær till., sem hv. 1. þm. Eyf. hefur borið fram, og minnast lítillega á afstöðu Eimskipafélagsins til siglinga til landsins og til strandferða hér.

Ég skal taka fram strax, að ég álít, að till., sem var samþ. í Nd. um að binda á óákveðinn hátt Eimskipafélagið við strandferðirnar, hafi verið borin fram af ókunnugleik og sennilega samþ. í góðum tilgangi, en ekki nógum kunnugleik á sögu þessa máls og aðstæðum öllum. Ég hygg því, að hún sé engan veginn til bóta, hvorki fyrir strandferðirnar né Eimskipafélagið. Aftur á móti er vafasamt, hvort till. hv. 1. þm. Eyf. verður samþ. nú, en hún bendir á það, sem kalla mætti nýskipun í þessum siglingamálum, sem getur orðið í þessari mynd eða svipaðri varanlegt umræðumál síðar meir, eins og kom fram í ræðu hv. 3. landsk., sem minntist á þá breyt., sem gæti orðið í Eimskipafélaginu, þegar áhugamennirnir, sem stofnuðu félagið, féllu frá og félagið yrði í höndum hluthafanna eingöngu peningalegt fyrirtæki.

Ég ætla fyrst að minnast á það, sem er aðalgallinn á þeirri breyt., sem Nd. gerði á þessu máli, þegar hún vildi gera þá kröfu til Eimskipafélagsins, að það borgaði til strandferðanna. Það er að vísu mikið satt í því, sem hv. 3. landsk. sagði, að það hefur varla verið réttlátt skipulag á skiptingu á farmgjöldum til landsins nú sem stendur, en það er hlutur, sem ráðuneytið getur alltaf lagað, en þarf ekki löggjöf til, svo að það er ekkert undirstöðuatriði, og ég hygg, að Eimskipafélagið mundi ekki halda til streitu. En það, sem er aðallega að till. n., er það, að þar á að hlekkja saman strandferðirnar og Eimskipafélagið. Félagið er fyrst og. fremst stofnað til að halda uppi siglingum til útlanda, en strandferðirnar eru til flutninga með ströndum fram. Strandferðirnar eru hliðstæðar þjóðvegunum. Þjóðin leggur þá ekki af því, að þeir borgi sig, heldur af því, að það er óhjákvæmilegt. Nú er verið að leggja plan um nýsköpun strandferðanna og reynt að finna þá leið, að þær geti orðið með sem mestum hraða og kostnaður ekki meiri en svo, að þjóðin geti risið undir. Mér skilst, að sú ráðagerð geri ráð fyrir, að fyrir austan og vestan, þar sem þörfin er mest, og á Breiðafirði og til Vestmannaeyja verði góðir flóabátar lagaðir eftir þörfum fólks og flutninga, og það, að ég beitti mér fyrir, ásamt fleiri mönnum, að fá n. skipaða til að rannsaka það mál, var ekki sízt af því, að mér fannst ástandið t.d. á Vesturlandi og í Múlasýslum alveg óviðunandi. Við skulum hugsa okkur allt það fólk, sem þarf að ferðast á Vesturlandi milli fjarða eða innan sýslu og verður að nota tilviljunarferðir með mótorbátum eða að kafa yfir fjöllin. Víðast á Suður- og Norðurlandi er þetta betra. Þar er víðast hægt að nota bíla og samgöngur sæmilegar í mörgum sveitum, en Vestfirðir eru út undan. Ég vil skjóta því til þeirra hv. þm., sem eru hér fyrir Vesturland, að ég held, að aldrei fáist lausn á þessu, nema fenginn sé bátur, sem gengur frá. Arngerðareyri og til Bíldudals eins og skytta í vefstól, með því móti getur maður hugsað sér, að fólkið geti komizt leiðar sinnar tafarlítið og sómasamlega. Sama er að segja um Austurland. Þar verður að ganga bátur milli Hornaf jarðar og Vopnafjarðar, og svo er hugmyndin að bæta við öðru strandferðaskipi á stærð við Esju, en það fer ég ekki út í, en menn vita það, að þessir flóabátar verða mikil tekjuhallafyrirtæki, og ég sé ekki annað en það verði að horfast í augu við það, alveg á sama hátt og vegir og brýr hljóta að kosta ríkið mikið fé. Strandferðirnar hljóta alltaf að verða með tekjuhalla, sem þjóðin verður að bera. Ég tel það mikinn kost, að strandferðirnar eru ríkisfyrirtæki, og af því að hér eru rúmlega 50 þm. og flestir fyrir ákveðin kjördæmi, þá berast stöðugt óskir um strandferðir til þings og stj., svo að þar er lifandi samband á milli. Þegar Eimskipafélagið var stofnað, var það hlutafélag og ekki annað hægt við það að gera, ríkið átti lítinn hlut í því. Þessu félagi var ætlað að vinna að utanlandssiglingum, en ekki strandsiglingum. Í raun og veru virðist manni það heilbrigt, að Eimskipafélagið sigli milli landa, en strandferðaskipin taki svo við, því að félagið verður að standast samkeppni við útlend skip, sem hingað koma, en ef ætti að fara að hlekkja saman félagið og strandsiglingarnar eins og ætlazt er til í frv., eins og það kemur frá Nd., þá er ómögulegt, hvað vel sem félagið er rekið, að það geti staðizt í samkeppninni við útlendinga, því að strandsiglingarnar geta aldrei borið sig, og við, sem búum í þessu landi, verðum að sætta okkur við, að ríkið beri þann halla.

Ég held, að þeir, sem samþ. þessa brtt., hafi ekki áttað sig á þessu, að strandferðirnar eiga að vera hjá ríkinu, en ég vil segja, að allar millilandasiglingar séu betur komnar hjá félagi eins og Eimskipafélaginu heldur en ríkið fari út í það. Það er talað um þennan mikla gróða Eimskipafélagsins, og menn krítisera, hvernig hann er til orðinn. En athugum, hvernig aðstaða félagsins er nú. Það hefur misst þrjú af beztu skipum sínum, á nú eitt gott skip, hin eru gömul og meira og minna úr sér gengin. Það verður að fá ný skip í stað þeirra, sem týnzt hafa, og það er enginn vafi, að það ætlar sér að byggja stærri skip en áður og jafnvel fleiri skip. Nú er gert ráð fyrir kælitækjum í öllum slíkum skipum, sem sigla til Ameríku. Þegar á þetta allt er litið, þá sjáum við glögglega, að þótt félagið hafi nú safnað sér álitlegum sjóði og þar til viðbótar komi tryggingarfé skipanna, sem tapazt hafa, þá mun jafnvel það fé ekki nægja til þessara nýbygginga.

En svo er eitt enn, sem vert er að athuga, þó að það komi ekki beinlínis við kjarna þessa máls, og það vil ég biðja hv. 3. landsk. að aðgæta vel, þegar hann er að tala um og að sumu leyti með réttu, að Eimskipafélagið hafi sett farmgjöldin of hátt. Hvernig er þessi gróði félagsins til kominn? Hann er fenginn vegna skipa, sem Bandaríkjastjórn lánaði okkur, og á sama tíma og félagið græðir allt þetta fé á útlendu skipunum, þá gera skip félagsins sjálfs ekki betur en bera sig. Og þó að þessi gróði þyki mikill, þá er ég ekki viss um, að hann hefði getað lent á betri stað eða komizt þangað, sem betur hefði verið tryggt, að honum verði varið til skipakaupa, sem við höfum mikla þörf fyrir. Við erum nú að sigla út úr þessu stríði, kannske ekki nema nokkrir mánuðir, þangað til því er lokið. Hvar er nú fé til að hefja nýbyggingar eins og þessa? Er það hjá ríkissjóði, er það hjá bæjarfélagi Reykjavíkur? Ég segi nei. Tveir þessir stærstu aðilar eiga ekki neitt, en aftur á móti hlaðast á þá , ógurlegar kröfur, sem erfitt er að standa undir. Ég bið hv. frsm. minni hl. að athuga það, að þegar við svipumst um í þjóðfélaginu eftir sjóðum, þá sjáum við ekkert, sem við getum tekið til skipabygginga, nema þennan hálfilla fengna sjóð Eimskipafélagsins. Og þegar maður spyr, hvernig þetta fé sé fengið, þá er það gjöf, sem Ameríkumenn hafa gefið Íslendingum.

Áður voru það einu möguleikarnir hjá Eimskipafélaginu að kaupa skip með því að fá lán til þess. Ef enginn gróði hefði verið þessi 2 ár, hefði einnig orðið að gera það. En af því að skipt hefur um í þessu máli, þá eru aðrar leiðir færar nú. En það er nú samt svo, að í raun og veru er þessi gróði skattur af okkur þegnunum, þungur skattur ofan á útsvörin, sem eru orðin mjög þung hér í Reykjavík og víðar. En ég geri ráð fyrir, að reynt verði að tryggja, að þessu fé verði eingöngu varið til þjóðfélagsþarfa.

Nú mun ég koma að því, sem rætt hefur verið um, að ef frv. verður samþ., bæri að vinna að því að breyta skipulagi Eimskips þannig, að það yrði öllum opið. Það væri þá viðeigandi, að öllum unglingum, við skulum segja 18 ára, væri gefinn kostur á að kaupa hlutabréf í Eimskipafélaginu. Með því væri slegin niður sú „krítik“, að hlutirnir lentu hjá fáum mönnum. Þessu vil ég beina til forráðamanna fél. Þeir ættu að taka það til athugunar, hvort ekki væri hollt fyrir félagið, að inn í það væri hleypt æsku landsins um leið og hún vex upp.

Ég tel, úr því að við höfum fengið þessar 20 millj. kr. frá Ameríkumönnum, að ekki eigi að verja þeim í dýrtíðaruppbætur, heldur eiga þær að staðfestast í skipum. Ég álít enn fremur, að það sé mjög athugunarvert, að félagið fái framhald á aðstöðu sinni í 1–2 ár. En þá rennur upp nýr tími. Þótt ég sé enginn spámaður, get ég nokkurn veginn hugsað mér, hvernig þeir tímar verði fyrir Eimskipafélagið. Það, sem gerist hjá Eimskip, þegar stríðinu lýkur, er, að það verður að leggja öllum gömlu ryðkláfunum. Nú, á tímum þessara óheyrilegu farmgjalda, gera þau rétt að bera sig. Þeir tímar eru fram undan, að engin von er til þess, að Eimskip geti rekið þessi skip, en verður í staðinn að fá leigð útlend skip, sem verða vafalaust ódýrari en okkar. Það kemur tímabil, sem vörurnar verða fluttar á útlendum skipum, því að við, fólkið á Íslandi, erum of dýr til þess, að okkar skip geti gert það. Nú vilja kannske sumir segja, að það sé misræmi hjá mér að vilja láta Eimskip fá peninga, þar sem ég álíti, að rekstur þess á íslenzkum skipum hljóti að stöðvast. En ég álít, að það verði ekki um langan tíma, sem Íslendingar una því, að skip þeirra liggi, meðan þjóðin hefur ráð á að gera þau út. Þess vegna vil ég, að Eimskip fái peningana til að verja í ný skip, flugvélar, gistihús og aðra nauðsynlega hluti. Þess vegna álít ég, að framlengja eigi skattfrelsi félagsins út þetta gróðatímabil, sem áreiðanlega verður ekki meira en í 2 ár enn.

Og þá kem ég að einu, sem ég skaut að frsm. meiri hl. Það er, að eins og ég álít, að mörg rök hnígi nú að því, að Eimskip fái skattfrelsi, úr því að fél. hefur grætt þessa peninga, svo að það geti byggt upp flota sinn, þá liggja eins mörg rök til þess, að það fái ekki skattfrelsi, þegar þessu tímabili lýkur. Eftir stríðið rísa hér upp stórfyrirtæki, sem vilja láta siglingar til sín taka. En þau munu sjá, að það væri ekkert vit að leggja út í slíkt, eins og framleiðslukostnaði hér er háttað, nema þau fengju tryggingu fyrir því að fá að búa við skattfrelsi eins og Eimskip. Það mundi borga sig langtum betur fyrir þau að taka er,lend skip á leigu. Þess vegna á Eimskip ekki að hafa forréttindi fram yfir alla aðra. Ég ætlast ekki til, að Eimskip verði látið bera þyngri byrðar en normalt er. Það ber að efla siglingarnar og sjómannastéttina, sem er einhver sú bezta í heiminum. Okkur ber að vinna að því að koma upp skipastól og sjómannastétt, sem siglir út um allan heim. En þetta getur ekki orðið nema ef atvinnureksturinn verði arðbær. Okkar ungu menn verða ekki ánægðir með að hafa bara smákænur, sem sigla hér við land og til næstu landa. Það verður að skapa öllum jafna aðstöðu, svo að fyrirtæki geti risið upp, sem gera skip , út til siglinga til landa víðs vegar um hnöttinn. Ég held því, að það fyrsta, sem Eimskip eigi að gera, þegar þessu tímabili lýkur, er að biðjast undan að vera skattfrjálst, því að þegar svo er komið, væri það orðið hindrun á framkvæmdum annarra manna. Og það má það aldrei verða. Ég held við þurfum ekki að hafa vonda samvizku af því, þótt við höfum grætt á skipum, sem Ameríkumenn hafa lánað okkur. Allur gróðinn er af þeim skipum. En við verðum að gera okkur það ljóst, að þetta skipulag getur ekki þrifizt eftir að við förum að sigla upp brekkuna eftir stríðið.

Hins vegar greiði ég fyrst atkvæði með till. hv. fyrri þm. Eyf., því að hún stefnir í rétta átt. En ef hún fellur, mun ég greiða atkv. till. meiri hl., þar sem ég álít, að hún bæti úr þeim misskilningi, sem Nd. lét í frv., þar sem ruglað er saman millilandasiglingum og strandferðum. Það er miklu betra, að ríkið hafi strandsiglingarnar heldur en hlutafélag. Þessu var breytt í Nd., en það stafar af ónógri þekkingu á gangi málsins.