01.03.1945
Efri deild: 139. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Jónas Jónsson:

Það voru tvö atriði í ræðu hv. þm. Barð., sem ég vildi gera athugasemdir við. — Hann heldur því fram, að það sé ekki rétt, sem ég hef hér reynt að sanna, að það væri eðlilega verksviðsmunur á Eimskipafélaginu og strandferðaskipunum. Skal ég ekki ræða mikið um það, en hins vegar vitum við, að um það kom till. fram í hv. Nd., að Eimskipafélagið tæki þátt í kostnaði við strandsiglingarnar. Og ef yfirleitt væri farið að krefjast þess af félaginu, að það borgaði mikið fé í strandferðirnar, þá fyndist mér eðlilegra, að það óskaði frekar eftir að hafa strandferðirnar með ávinningi, en sagði aftur á móti, . af því að þetta væri hugsunarskekkja í eðli sínu, að af því yrði enginn ávinningur. — Hins vegar er ég sammála hv. þm. um það, að ég sé ekki, hvaða ástæða var fyrir Eimskipafélagið að loka nokkru sinni fyrir hlutaféð, og vil nota tækifærið til þess að skora á hv. frsm. meiri hl. fjhn. og hv. þm. Barð., að þeir leggist báðir á eitt um það, að opnaðar verði dyrnar að þessu fyrirtæki, því til gagns og þjóðinni sömuleiðis. — Nú vil ég ekki keppa við hv. þm. Barð. um sérþekkingu hans í útgerðarmálum, en sumt er það þó viðvíkjandi þeim málum, sem hver leikmaður getur skilið.

Þegar verið var að byggja upp Eimskipafélagið, var siglingum fyrst haldið uppi til útlanda og að nokkru leyti með ströndum fram. Jafnframt því var gert ráð fyrir nokkrum sérstökum strandferðaskipum, sem hefðu sérstakan ríkisstyrk til þess að bera tekjuhallann, því að strandferðir hér hljóta að verða reknar með tekjuhalla, ef þær eiga að ná tilgangi sínum með ströndum fram. Ég held, að sú hugsjón mundi gefast bezt, t.d. í kjördæmi hv. þm. Barð., að við hefðum næga mótorbáta, með góðum útbúnaði, sem gengju árið um kring, eins og norsku strandbátarnir, og kæmu inn á smáhafnirnar oft á dag. Efalaust yrði mikill munur að slíku fyrir fólkið úti á landi, bæði hvað snertir fólks- og vöruflutninga. En slíkum strandferðum er ekki hægt að halda uppi á eigin kostnað, og væri fjarstæða að fara að binda strandferðirnar við annað fyrirtæki, sem ekki má vera tekjuhallafyrirtæki, heldur verður að vera vel sjálfstætt. Rekstur strandferðanna á Íslandi er dæmdur til þess að vera tekjuhallafyrirtæki, og þess vegna er það ekki sanngjarnt að ætlast til, að það tap falli á herðar Eimskipafélagsins.

Þá kem ég að öðru atriði í þessu máli, sem sé því, að það er mjög dýrt að láta skip Eimskipafélagsins, eins og Brúarfoss, koma inn á hverja höfn, og þyrfti því einmitt að leiðrétta það, að Eimskipafélagið byggi ekki skip eins og Dettifoss og Goðafoss, heldur byggi stór skip, sem eiga að ganga milli landa og væru fljót í förum, en noti strandferðabáta eða smáskip milli hafna landsins, því að það versta fyrir Eimskipafélagið er að hafa orðið að þvæla skipum sínum inn á smáhafnirnar, og á það m.a. þátt í því, hve farmgjöldin eru dýr.

Þá er ég alveg undrandi yfir því, hvernig hv. þm. Barð. hefur getað komizt að þeirri niðurstöðu, þegar hann lítur á málið í ljósi reynslunnar, að við höfum fengið eðlilega aðstöðu um siglingar með okkar duglegu sjómönnum, sem ég er sammála honum um, að við höfum á skipunum. En það er eins og að tala í austur, þegar á að tala í vestur, að halda því fram, að við séum samkeppnisfærir við Norðmenn á höfunum, og þarf ekki annað en líta á hagskýrslur til þess að sjá, að við megum okkar einskis á höfunum. Við erum með okkar gömlu skip, eins og Nielsen byggði, og þetta er af því, að það hefur verið svo illa haldið á málum okkar í þessu efni. Ég veit, að hv. þm. Barð. er vel kunnugt um það, að það, sem er sérstakt glansnúmer Norðmanna í þessu stríði, er, að þeir áttu skip úti um allan heim. Mér er kunnugt um norskan skipstjóra, sem lá á norsku 10 þús. tonna skipi vestur við Kyrrahaf og hafði Kínverja sem undirmenn á skipinu, því að jafnvel Norðmenn voru of dýrir. Reynslan sýnir, að Norðmenn hafa breitt sig út yfir höfin af einhverjum ástæðum, en við höfum ekki getað það. — Eitt atriði enn þá vildi ég minna þennan stóra skipaeiganda á, að hann ætti að skoða þann aðbúnað, sem undirmennirnir hafa á okkar skipum. Ég minnist þess, að ég kom eitt sinn niður í eitt okkar beztu skipa, maður fer fyrst inn um járnhurð framarlega á þilfari; þá blasir við manni djúp gjá, og þarna niðri er lítil vistarvera fyrir átta menn. Þetta er þeirra annað heimili, og þannig búum við um okkar hetjur. Þetta fyrirkomulag er allt fjörgamalt, og við getum ekki staðizt samkeppni á höfunum, og er því líklegast, að Eimskipafélagið verði að stöðva skip sín að stríði loknu, af því að útlendu skipin verða hlutskarpari í samkeppninni. — Þessar 20 millj. króna, sem félagið hefur grætt, þær hafa ekki komið af okkar eigin skipum, heldur eru þær komnar frá öðrum þjóðum sem nokkurs konar gjöf. Það er mjög óheppilegt, að maður eins og hv. þm. Barð. skuli reyna að loka augunum fyrir því, að við höfum ekki hina minnstu möguleika — undir neinum kringumstæðum — til að keppa á höfunum, nema því aðeins, að við breytum stórlega til, sumpart með því að bæta aðbúnað sjómannanna á skipunum og sumpart með því að gera aðrar kröfur til þeirra.