01.03.1945
Efri deild: 139. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Frsm. meiri hl. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. — Hv. þm. Barð. hefur að nokkru leyti tekið af mér ómakið af að svara ræðu hv. 3. landsk. þm. og hv. 1. þm. Eyf. Vil ég aðeins í tilefni af því, að þeir lögðu svo mikið upp úr orðum mínum, er ég sagði, að Eimskipafélag Íslands væri sameignarfélag allra landsmanna, og töldu það ofmælt, benda á það, að samkvæmt skýrslu stjórnar félagsins, sem lögð var fyrir aðalfund félagsins s.l. ár, er getið um, hvernig skráningu hluthafa sé varið. Þá var tekið fram eftirfarandi í ræðu Guðmundar Vilhjálmssonar, er hann hélt á aðalfundi 3. júní 1944, — með leyfi hæstv. forseta:

„Tala hluthafa í félaginu hefur verið hæst 14609, en nú er hluthafatalan 13724. Er af þessu augljóst, að engin tilraun hefur verið gerð til að safna hlutafénu á fárra manna hendur.“

Ég geri ráð fyrir því, að lækkun sú, sem þarna hefur orðið, sé m.a. vegna uppkaupa, sem gerð voru í Ameríku á sínum tíma fyrir stríð.

Þá vil ég og taka það fram, að ég eða skrifstofa mín höfum reynt að útvega hlutabréf úr Eimskipafélaginu fyrir mann nokkurn, — ekki til þess að græða á því, heldur af því, að hann vildi vera félagi. Var auglýst eftir hlutabréfunum yfirleitt í 4–5 ár, og held ég, að það, sem við höfum fengið, hafi numið samtals um 4–5 þús. króna, en síðustu 2–3 ár ekki neitt, og þau, sem seld voru, voru eingöngu frá dánar- og þrotabúum:

Hv. 1. þm. Eyf. talaði um, hvers virði þessi bréf væru, en það er fyrir fram vitað, að þau bréf gefa ekki nema 4% og fara aldrei yfir parí eða þar um bil, hversu mikið verðmæti, sem liggur á bak við. (BSt: Það er ekkert vitað um það nema meðan l. gilda.) — Hins vegar hefur Eimskipafélagið verið rekið þannig, að það hefur ekki verið rekið sem gróðafyrirtæki, og held ég, að það væri sennilega nú ekki til, ef það hefði ekki fengið skattfrelsi, sem þessi hv. þm. barðist fyrir 1924. Okkar skattalög eru þannig, að það er ákaflega erfitt uppdráttar fyrir þennan atvinnurekstur eða félagið, af því að það hefur ekki verið rekið eftir viðskiptareglum, heldur þannig, að það kæmi að sem beztum notum fyrir almenning.

Ég hygg, að það sé nokkuð rétt hjá hv. þm. S.-Þ., að það hafi ekki verið eðlilegur gróði eða skapazt af rekstri eigin skipa, ,heldur af skipum þeim, sem Bandaríkin lánuðu félaginu, af því að þau voru ódýrari í rekstri og fóru fleiri ferðir en búizt var við. Ég álít, að það sé ekki æskilegt eða framkvæmanlegt að fara þá leið, sem hv. 1. þm. Eyf. benti á, meðan öll ráð eru ekki komin í hendur ríkisins. Og nú er svo komið, að skipastóll okkar er horfinn og Eimskipafélagið verður að kaupa skip strax. (BSt: Till. mín hindrar það ekki.) Og það er skoðun mín, að það verði ekki. mörg ár þar til hagur Eimskipafélagsins verður öðruvísi en núna. Ég legg til, að till. meiri hl. fjhn. verði samþ.