25.02.1944
Neðri deild: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

48. mál, réttindi danskra ríkisborgara á Íslandi

Frsm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. — Samkv. því, sem nú rétt áðan var samþ. í Sþ., þá er gert ráð fyrir, að niður verði felldur sambandslagasamningur sá, sem gilt hafði milli Dana og Íslendinga. Það mun einróma álit alþingismanna, að þótt sú ráðstöfun eigi sér stað, þá sé eðlilegt, að enn gildi um sinn réttur sá, sem danskir ríkisborgarar ættu samkv. sambandslögunum. Upphaflega voru ákvæði um þetta í þál. um sambandsslitin, en það þótti rétt að taka þau þaðan burtu og setja sérstök lög um það, og er nú frv. sett hér fram í þessari deild, samið af dómsmrh. í samvinnu við stjskrn. Nd. Frv. ákveður, ef það verður að lögum, að réttur danskra ríkisborgara á Íslandi haldist fyrst um sinn, eða þangað til 6 mánuðum eftir að samið hefur verið um þetta mál milli Danmerkur og Íslands. En ef eigi hefur þá verið gert ráð fyrir skiptingu, þá fellur hann af sjálfu sér.

Ég sé ekki ástæðu til að vísa þessu máli til n., þar sem það hefur fengið mjög ýtarlega athugun í stjskrn., og legg til, að það verði samþ. og vísað áfram nefndarlaust.