01.03.1944
Neðri deild: 23. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

22. mál, Menntaskóla á Akureyri

Frsm. (Barði Guðmundsson):

Það væri hreint kák að sinna tilmælum hv. þm. Ak. um að samræma fjölda fastra aukakennara við menntaskólana með því að fjölga nyrðra um einn úr 4 í 5. Mér þykir það dálítið hart, ef hann vill væna n. um að vera móti réttlátri samræmingu á kjörum skólanna, þótt hún vildi eigi taka þar fram fyrir hendur mþn. í allstóru vandamáli. Þarna getur verið um 10–12 embætti alls að ræða, og eðlilegt er, að mþn., sem ætlar að gera um þetta till., kunni því illa, að nú sé þar gerð kákbreyting, en málið þarf allt náinnar athugunar, unz ákveðið verður, hve embættin þurfi að vera mörg við hvorn skóla um sig.