16.02.1944
Efri deild: 11. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

39. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipti

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég flutti þetta frv., en þó dálítið lengra, á þinginu fyrir jólin s.l., en það varð þá ekki útrætt. Sauðfjárveikinefnd lagði á móti því, að gerð væri sú breyt. á l. En nú hafa bændur í hálfri Suður-Þingeyjarsýslu og Kelduhverfi óskað eftir, að ein af gr. þess frv., sem ég flutti á þinginu síðasta, væri tekin upp aftur og flutt sem frv. á Alþ., og flyt ég hana á þskj. nr. 47.

Fjárpest er að leggja í auðn búskap á þessu svæði öllu nema í einum hreppi, Reykdælahreppi, þar sem fjárskipti hafa farið fram, og það virðist ganga vel með þau. Af þessum ástæðum, að fénu hefur fækkað svo í sýslunni vegna fjárpestarinnar, er það, að víða er það svo á bæjum, að bóndinn á ekki einu sinni 25 kindur eftir.

Hér í þessu frv. er farið fram á, að þessir menn, sem svo mjög hafa misst af völdum fjárpestarinnar af sauðfjáreign sinni, fái atkvæðisrétt um fjárskiptamál. Og þar sem hér er ekki um efnisbreyt. á l. að öðru leyti að ræða, sé ég ekki ástæðu til að ætla annað en hv. landbn. taki þessu máli vel. Vil ég óska þess, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til þeirrar hv. n.