17.01.1944
Neðri deild: 3. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Olgeirsson:

Ég ætla ekki að orðlengja sérstaklega um þetta mál, en ég vil segja nokkur orð um afstöðu okkar sósíalista til þess. Sósfl. er því fylgjandi, að frv. nái fram að ganga sem fyrst. Ég mun síðar gera grein fyrir afstöðu okkar til þess máls, sem gert var að ágreiningsatriði í n.

Eins og tveir aðrir ræðumenn, sem hér hafa talað, hafa undirstrikað, þá vil ég taka fram, að það, sem þetta frv. grundvallast á, er réttur okkar til að ráða sjálfir — án tillits til þess, hvað aðrar þjóðir segja, — hvaða stjórnskipulag við viljum hafa. Það, sem hér er um að ræða, er stofnun lýðveldis og afnám konungdóms í landinu. En afnám konungdóms í landinu verður ekki afgreitt á annan hátt en að þjóðin taki framkvæmd þess í eigin hendur, nema þá, að konungur afsali sér konungdæminu fyrir sig og ætt sína.

Það, sem hefur verið að gerast s.l. þrjú ár, er, að þjóðin hefur verið, án þess að spyrja um leyfi, að undirbúa stofnun lýðveldis hér á landi. — Hinn 10. apríl 1940 tók hún konungsvaldið í sínar hendur, og einum mánuði síðar felur hún ákveðnum aðila að fara með konungsvaldið. Síðan ræður hún því. Annað sporið er stigið haustið 1942, þegar sett er í stjskr., að þegar lýðveldi skuli stofnað, sé nægilegt, að Alþ. samþ. það einu sinni og þjóðin staðfesti það síðan með atkvgr. Hugsunin bak við þetta er, að þjóðin hafi æðsta valdið, og þegar því sé skírskotað til hennar, skeri hún úr. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir neinni annarri staðfestingu. Það er tekið fram í 75. gr.: „Samþykki báðar deildir þingsins ályktunina óbreytta og nái hún staðfestingu konungs, þá hefur hún gildi sem stjórnskipunarlög.“ Einmitt vegna þess, að þetta ákvæði var í 75. gr., var þessi breyt. gerð, að þegar þjóðin ætti að gera ákvörðun, þá þyrfti ekki staðfestingu konungsins, því að það var mótsetning, að konungur staðfesti þau l., sem afnæmu hans eigið vald.

Íslenzka þjóðin hefur stigið þessi tvö spor: Hún hefur tekið konungsvaldið inn í landið, og hún hefur ákveðið, að afnám konungdómsins þurfi ekki staðfestingu konungs. Þjóðin hefur með þessu skapað sér lagalegan rétt til þess að afnema konungdóminn, og staðfesting konungs á stofnun lýðveldis í landi er því að öllu leyti ónauðsynleg.

Nú hefur það komið fram hjá hv. 4. þm. Reykv., að hann mótmælir ekki, að hægt sé með l. að stofna lýðveldi hér án þess að spyrja konung. Það sýnist blandast hér saman tvennt, — annars vegar afstaða lögfræðingsins, sem vill koma fram lagakrókum, hins vegar viðkvæmni fyrir konunginum. Það hefur áður verið tekið fram, að hvaða tilfinningar sem hann hefur gagnvart Kristjáni X., þá hefði betur átt við af hálfu þessa manns, að hann hefði látið þær koma fram 1941, en núna, þegar búið er að tilkynna konungi, að hann verði „settur af óspurður“, og búið að gera ráðstafanir til þess með því að breyta stjskr. þannig, að það sé hægt. Þegar þar að auki er vitað, að konungi hefur a. m. k. þrisvar verið tjáð síðar (og það vafalaust með samþykki hv. 4. þm. Reykv.), að haldið yrði fast við þetta, þá finnst mér ónákvæmni að fara að segja honum nú, að við ætlum að vísu að spyrja hann, en við bara tökum ekkert tillit til þess, þó að hann segi nei.

Ég geri ráð fyrir, að hjá þeim fáu konungum, sem verða til eftir stríð, muni viðleitnin sterk til að viðhalda konungsvaldi sínu. Við vitum líka, að þjóðerniskenndin hjá Dönum verður eðlilega rík eftir stríðið og beinist í þá átt að gera konungsvaldið sterkt. Það getur jafnvel, — það eru til sögulegar heimildir fyrir slíku, — farið út í þær öfgar að neita öðrum um rétt sinn. Hér eru líka menn, sem vilja konungdæmi áfram. Konungurinn mætti líta þannig á, að hann ætti hér vini, sem teldu, að hann ætti ekki að segja af sér og að hann væri að bregðast þeim, ef hann gerði það. Ég held því fram, að það væri að setja konung á pyntingarbekk, einu sinni enn, að fara að skírskota þessu máli til hans.

Mér kemur til hugar, að það kunni að vera svo með hv. 4. þm. Reykv. og þá, sem hann þykist tala fyrir, að þeim hafi virzt, eftir ákvarðanir Alþ. 1940 og 1941, að þar væri gengið of langt í byltingaráttina. Hann hefur nú uppgötvað það. A.m.k. halda þeir, sem kalla sig „lögskilnaðarmenn“, því fram, að við séum að beita byltingaraðferðum. Í „Varðbergi“ segja þeir, að „hraðskilnaðarmenn“ vilji „setja konunginn af, meðan hann er í fangelsi, og gera það án samningaumleitana og með óformlegum aðferðum, sem nálgast byltingu“. Hins vegar, þegar verið er að skýra frá því, hvað „lögskilnaðarmenn“ vilji, þá er sagt, að þeir vilji „fresta formlegri stofnun lýðveldisins, þar til hægt er að ræða við konung sem frjálsan mann. Verði ekki samkomulag um afsal konungdómsins, sé farin sú leið, sem stjórnarskráin heimilar, til að stofna lýðveldið án byltingar“.

Mér er sem ég sjái hv. 4. þm. Reykv. vakna við vondan draum eina nótt til meðvitundar um, að hann sé að taka þátt í byltingu, og að þá hafi hann hrokkið frá því, sem hann hafði verið með 1940 og 1941. Eftir því, sem mér hefur heyrzt, þá vill hann, að sú aðferð sé höfð, að konungur sé spurður, hvort hann vilji ekki segja af sér, en ef hann vilji ekki gera það, þá verði hann settur af samt — og það með lagakrók! Og lagakrókurinn á víst að vera sá, að samkv. 5. gr. stjskr. getur hann ekki verið konungur án samþykkis þjóðarinnar. Ég gæti trúað, að það væri lagakrókurinn, sem ætti að fella hann á, að þeir kæmu til hans og segðu sem svo: „Heyrðu, góði. Við erum komnir til að spyrja þig, hvort þú viljir ekki segja af þér, en ef þú vilt ekki gera það, þá setjum við þig af, hvort sem er“.

Ég skal svo ekki segja meira um þennan „krók“, sem þeir þykjast hafa. Ef horfið er frá þeim grundvallaratriðum, sem Alþ. studdist við í samþykktum sínum um þessi mál 1940 og 1941, er ekkert eftir. Ef konungur vill „absólút“ neita að afsala konungsvaldinu og viðhalda konungdæmi á Íslandi, er honum í lófa lagið að gera það, ef menn ákveða að fara ekki út fyrir stjskr. eins og hún var, áður en henni var breytt. Hann mundi geta látið son sinn taka við. Konungdæmið er ekki afnumið, þó að Kristján X. segi af sér. Það eru til erfðalög. Það, sem þeir hefðu upp úr því, væri, að við fengjum Friðrik eða Knút á Bessastaði og stofnuð yrði konungsætt í landinu. Ég held, að þegar þessir menn þykjast upp yfir það hafnir að gera það, sem þeir nefna byltingu, þá séu þeir að hörfa að því að viðurkenna að eilífu það vald, sem erlendir konungar tóku sér endur fyrir löngu yfir Íslandi, með því að halda því fram, að það, sem þjóðin er nú að gera, sé í fyrsta lagi ósæmilegt og í öðru lagi ekki löglegt. Ég held, að við eigum hiklaust að halda áfram með þessa breyt., sem við höfum markvisst fylgt síðan 10. apríl 1940. Ég held, að Kristján konungur megi vel við una að vera settur af með þeim hætti, sem hér um ræðir, í fullri vissu þess, að aldrei hefur neinn konungur verið settur af af þjóð, sem borið hefur meiri virðingu fyrir honum en við Íslendingar berum fyrir Kristjáni X.

Viðvíkjandi þeim málum sérstaklega, sem ágreiningur er um í stjskrnál., mætti minnast á það spursmál, hvernig forseti skuli kjörinn. Ég lagði til í stjskrn., að hann yrði þjóðkjörinn, og höfum við Sósfl.menn barizt fyrir því. Það gleður mig að heyra, að hv. 4. þm. Reykv., fulltrúi Alþfl. í þeirri n., hefur nú snúizt frá þeirri afstöðu, er hann tók þá. Það er gott, að í einhverju máli, sem honum snýst hugur í, skuli hann snúast á rétta sveif. Till. mín og hv. þm. Siglf. (ÁkJ), sem fjallaði um það, hvort forseti skyldi þjóðkjörinn, var borin upp og felld með atkv. hinna sex mannanna, er í n. áttu sæti. Fulltrúar Alþfl. greiddu atkv. á móti þessu, en gott er, að þeir hafa nú áttað sig á þessu og standa með því, að forseti verði þjóðkjörinn, og eftir því, sem ég hef heyrt, er „stemmning“ þm. þannig, að þetta muni verða ofan á. Við sósíalistar tókum það líka fram í stjskrn. viðvíkjandi vali forseta, að það væri ekki meiningin að auka vald hans frá því, sem nú er gengið frá því í síðasta stjskráruppkasti, sem nú liggur fyrir.

Það hefur verið nokkurt deiluatriði, hvert vald forseta skuli vera. Þessi ágreiningur hefur stafað af því, að erfitt hefur verið að ákveða, hvað rúmist innan ákvæða stjskrbreyt., sem gerð var 1942 og heimilaði aðeins breyt. á stjskr. með þeim hætti að breyta konungdæmi í lýðveldi. Konungur hefur eftir stjskr. vald til þess að synja staðfestingar á lögunum, en að mínu áliti, — og ég held, að það sé álit allra Íslendinga, — hefur þetta vald verið einvörðungu á pappírnum, en ekki raunverulegt vald. Það hafa verið nokkurs konar óskráð lög, að ef konungur hefði beitt þessu valdi, að neita lögunum um staðfestingu, hefði hann verið settur af, og það hefði verið litið á það sem stjskrbrot. Þjóðin fól konungi þetta vald í trausti þess, að hann notaði það ekki, og var það því eingöngu pappírsákvæði. Þannig hefur alltaf verið gengið út frá þessu í þingræðislöndum. Konungur hafði því raunverulega ekkert annað vald en að samþ. þau l., er frá Alþ. komu, þó að hann á ýmsum tímum, eins og þegar Alþ. kemur sér ekki saman um að skipa stj., gæti á persónulegan hátt fengið vald sem þjóðhöfðingi, en stjskr. annars gerði ekki ráð fyrir. Hins vegar álít ég, að þjóðhöfðingi hins íslenzka lýðveldis þurfi að fá meira vald en konungur hafði raunverulega og verði ekki einvörðungu „toppfígúra“. Þess vegna erum við á þeirri skoðun, að hann eigi að geta neitað staðfestingu á l., en aðeins á þann hátt, að það yrði borið undir þjóðaratkvæði. Þetta þýðir það, að forseti hefur vald til þess að skírskota lögunum undir þjóðardóm, og álít ég, að með þessu sé hóflega í sakirnar farið. Hitt tel ég smærra atriði, hvort l. öðlast gildi þegar í stað eða falla úr gildi, ef þjóðaratkvæðis þarf með, eða bíði með að öðlast gildi, þar til búið er að skjóta undir þjóðaratkvæði. Þess vegna vil ég taka það fram strax, að við sósíalistar erum á móti því, að vald forseta sé aukið frá því, sem nú er gert ráð fyrir.

Eins og gefur að skilja, eru margar hugmyndir uppi meðal þjóðarinnar um þetta mál, og er nauðsynlegt, að henni verði gerð rækileg grein fyrir því, þegar til þess kemur, að greiða á atkv. um þessa stjskr.

Ég geri ráð fyrir því, að svo muni fara, að um það verði ákveðið hér á Alþ., að forseti verði þjóðkjörinn, en geri hins vegar ekki ráð fyrir því, að valdi hans verði breytt í neinum atriðum, því að það er að fara út fyrir þann ramma, sem heimildin um breyt. á stjskr. veitti árið 1942.

Svo er annað lítið atriði, sem ágreiningur hefur verið um, hvort nefna eigi forseta ríkisforseta eða forseta lýðveldisins. Varð hið síðarnefnda ofan á. Ég held, að í fyrstu hafi vakað fyrir okkur, að það væri meira blátt áfram, en ekki kunnað við að nota nafnið ríkisforseti, af því að það er of mikið í munni og er helzt notað í stórum ríkjum, eins og t.d. í Þýzkalandi (Reichspräsident). Hitt nafnið, forseti lýðveldisins, er miklu viðkunnanlegra, en því er nokkuð breytt, og er alltaf orðið forseti endurtekið í allri gr., því að það er miklu eðlilegra að segja aðeins forseti og láta það nafn festast við hann, þó að það eigi fyrst og fremst við forseta lýðveldisins.

Að síðustu kem ég að því atriði, hvort okkur Íslendingum liggur nauðsynlega á að flýta okkur að ganga frá þjóðskipulagi okkar, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. og sumum þykir of hratt að farið. Það hefur alltaf verið gengið út frá því af hálfu alls þorra þjóðarinnar, að um það leyti, sem við slitum sambandi við Danmörku og slítum konungssambandinu, að þá yrði um leið stofnað lýðveldi á Íslandi. Þegar þjóðin árið 1918 féllst á sambandslagasáttmálann, gerði hún það fyrst og fremst vegna þess, að hún þóttist hafa það í hendi sér, eftir að liðin væru 25 ár frá þeim tíma, að setja á stofn sitt eigið lýðveldi, og það er það, sem hún ætlar sér að gera. Er rétt fyrir hana að bíða með það lengur en nauðsynlegt er og lög og réttur heimila henni?

Við vitum, að einmitt nú höfum við þá beztu aðstöðu út á við, sem við getum á kosið, og aldrei, síðan Ísland varð fullveldi, hefur það verið viðurkennt eins og nú, að hver þjóð eigi að ráða stjórnskipun sinni sjálf. Gefnar hafa verið út yfirlýsingar um þetta af hálfu helztu stórvelda heimsins, svo sem Atlantshafssáttmálinn og aðrar yfirlýsingar, sem miða að því að tryggja rétt hverrar þjóðar til þess að ráða stjórnskipun sinni. Enn fremur höfum við Íslendingar gert samninga við tvö stórveldi, sem hafa skuldbundið sig til þess að viðurkenna fullt frelsi íslenzku þjóðarinnar. Það eina, sem nú á vantar, er, að íslenzka þjóðin lýsi því nógu eindregið yfir og sýni það í verki, að hún sé ákveðin í því að ráða stjórnskipun sinni algerlega sjálf. Það er þetta, sem við í þrem stjórnmálaflokkum höfum nú bundizt samtökum um að gera, og verður það útkljáð með þjóðaratkv., er fram á að fara. Komið hafa fram mótbárur á móti þessu, t.d. frá hv. 4. þm. Reykv., og reyndi hann að segja, að það væri lagabrot og stjskrbrot, ef þjóðin ætlaði sér að nota þennan rétt. Þessi hv. þm. virðist taka meira tillit til þessara pappírsréttinda, sem konungur einu sinni hafði, en hefur nú ekki lengur, til þess að neita lögunum um staðfestingu, heldur en hann tók sjálfur árið 1941 til réttinda þjóðarinnar, þegar hann var með í því að brjóta stjskr., þegar um rétt þjóðarinnar og konungs var að ræða. Núna virðist hann vilja setja öllu ofar þessi pappírsréttindi konungs, sem hann einu sinni hafði og þó voru svo óeðlileg, og setur þau hærra en rétt þjóðarinnar til þess að eignast stjskr. Þjóðin er nú að ákveða, hvaða stjórnarskipun hún á að hafa, og vitað er, að hún var áður búin að taka sér það vald að umskipa lögunum í stjskr. og getur því bæði í krafti almennra réttinda og krafti laganna sett á stofn lýðveldi á Íslandi.

Hin mótbára hv. 4. þm. Reykv. um það, að enginn okkar vissi, til hvaða tíðinda kynni að koma eða hvernig umhorfs yrði í heiminum, ef til atkv. kæmi um þetta mál 17. júní n. k., og að það kynni ef til vill að þykja óviðkunnanlegt að láta þetta fara fram, á meðan aðrar þjóðir ættu í stórfelldum orustum, þá verð ég að segja það, að hún er alveg ný þessi viðkvæmni, og til samanburðar vil ég t.d. minnast á það, að við höfum haldið jól hér heima á Íslandi, hvað sem á hefur dunið annars staðar úti um heim. Við vonum flestir, að hin erfiðustu átök ófriðarins verði liðin hjá, þegar að því kemur, að Íslendingar stofni lýðveldi sitt. En hvernig sem þær ákvarðanir verða um stofnun lýðveldis á Íslandi, þá er það einn þáttur í því, sem er að gerast í heiminum, að þjóðir, sem hafa verið í skugga, eru að öðlast frelsi. Þær þurfa flestar að berjast fyrir frelsi sínu með vopnum, en við Íslendingar þurfum aðeins að ganga að atkvæðaborðinu og segja þar já til þess að öðlast réttinn til að koma hér á stofn lýðveldi. Það er því undarlegt, ef til eru menn, sem vilja telja það eftir eða reyna að draga úr okkur með að taka örlítinn þátt í hinni almennu þjóðfrelsisbaráttu, sem nær yfir Evrópu, og eru með því, að við köstum rétti okkar, á sama tíma sem aðrar þjóðir berjast fyrir sínum. Sú viðkvæmni, sem þannig kemur fram, ætti betur heima á öðrum stað. Ég álít, að það væri réttara fyrir Alþ. og íslenzku þjóðina að sýna samúð sína með þeim, sem berjast fyrir frelsi sínu, á annan hátt en með því að neita sjálfri sér um þjóðfrelsi, en ég veit þó ekki betur en sumir þeirra, sem hæst um það tala, að við Íslendingar megum ekki stofna lýðveldi 17. júní n.k., mundu telja það hið mesta hlutleysisbrot, ef við Íslendingar lýstum yfir samúð okkar með þeim þjóðum, sem berjast gegn nazismanum. Ég álít það því fjarri öllu lagi hjá hv. 4. þm. Reykv. að ætla að færa þessa ástæðu móti því, að stofnað verði lýðveldi á Íslandi.

Hitt er aðalatriðið, sem bezt er fyrir okkur að horfast ákveðin í augu við, að við höfum nú á fyrra helmingi þessa árs tækifæri til þess að stofna lýðveldi á Íslandi. Við höfum aflað okkur viðurkenningar á frelsi okkar, sem við verðum að ætla, að við getum treyst á, og hafa þessar yfirlýsingar verið gefnar af hinum mikilsverðustu þjóðum. Við vitum, að hjá fjölda annarra smáþjóða er verið að berjast fyrir því sama, að mega ráða stjórnskipulagi sínu sjálfar, og því höfum við nú bezta tækifærið, sem við getum haft til þess að stofna hér lýðveldi. Við vitum ekki, hvenær þetta tækifæri kemur aftur og hvaða ástand kann að skapast, ef við sleppum þessu tækifæri nú. Það er ekki víst t. d., að það verði gefnar út eins róttækar yfirlýsingar, hvað snertir þjóðfrelsi, af hálfu Englands og Bandaríkjanna eftir þessa styrjöld, ef t.d. svo kynni að fara í Bandaríkjunum, að repúblikanar yrðu ofan á við kosningar n.k. haust. Það er því ómögulegt fyrir okkur að segja neitt um það, hvort slíkar yfirlýsingar eða viðurkenningar af hálfu þeirra þjóða, sem berjast á móti nazismanum, kunni að halda áfram. Við getum t.d. gert okkur í hugarlund, að þegar indverska þjóðin gerir kröfur sínar, muni verða uppi öfl í Englandi, sem vilji neita henni um þær, og munu þá líta það óhýrum augum, að smáþjóð er að bylta af sér konungi og stofnsetja lýðveldi án þess að spyrja konung um leyfi. Við vitum um átökin milli júgóslavnesku þjóðarinnar og konungsins, sem Englendingar vilja viðurkenna yfir henni, og grísku þjóðarinnar og konungsins, sem Englendingar vilja viðurkenna yfir Grikklandi. Það væri því stórhættulegt að bíða eftir því, að farið yrði að gera þessar sakir upp, því að þá koma svo mörg önnur mál og öfl til skjalanna en nú eru að verki. Nú eru gefnar út yfirlýsingar, sem allar miða að því að viðurkenna rétt hverrar þjóðar til að ráða sér sjálf. En eftir að styrjöldinni, er lokið, er ekki svo víst, að þessar viðurkenningar verði eins sterkar. Þá verður farið að gera upp sakirnar í Evrópu, og verða þá uppi mörg önnur öfl að verki, og við vitum, að þá verða jafnframt uppi sterk öfl, sem gjarnan vilja halda í gamaldags stjórnarskipun móti vilja þjóðanna. Þess vegna er það lífsspursmál fyrir íslenzku þjóðina að nota tækifærið nú, áður en til þeirra átaka kemur, sem kunna að skapast upp úr þessu stríði, að vera þá búin að koma á sinni ákveðnu stjórnskipun, lýðveldi sínu. Við verðum að vera búin að ganga frá þessu, áður en setzt verður að friðarborðinu í Evrópu og farið verður að gera upp sakirnar og ákveða, hvað á að viðurkenna og hvað á ekki að viðurkenna. Þess vegna álit ég, að við Íslendingar eigum ekki að bíða lengur en gert er ráð fyrir í frv. því, er hér liggur fyrir í þessari d. Við höfum tækifæri til þess nú. Okkur hefði fyrir nokkrum árum, áður en stríðið brauzt út, ekki órað fyrir því, að við mundum fá þá viðurkenningu á réttmæti þjóðfrelsis okkar, sem við höfum fengið nú, og við vitum ekki, hversu lengi slíkar viðurkenningar kunna raunverulega að standa, við, sem höfum nú lifað annað eins og það, sem gerzt hefur nú síðustu 25 árin. Það væri því glapræði fyrir okkur að sleppa tækifærinu, sem við höfum, fyrir eitthvað, sem við höfum ekki hugmynd um, hvað kann að vera. Ég álít það því þunga ábyrgð, sem núverandi kynslóð tekur á sig, ef hún sleppir þessu tækifæri, sem hún hefur nú.

Sósfl. mun þess vegna standa með því, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi ekki síðar en 17. júní n.k. og að það tækifæri, sem við höfum nú, verði ekki látið ganga okkur úr greipum og reynt verði að sameina þjóðina sem allra bezt um það að framfylgja þessu.