17.01.1944
Neðri deild: 3. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Jóh. Stefánsson:

Þó að þeir hv. þm., sem talað hafa nú fyrir hönd hinna þriggja flokka hér við þessar umr., hafi eytt alllöngum tíma til að ræða um afstöðu flokka sinna til frv., sem nú liggur fyrir, og beint máli sínu að verulegu leyti til mín, sem ekki er um að sakast, þá geri ég ráð fyrir, að ég geti látið mér nægja styttri tíma til andsvara. Sérstaklega mun ég reyna að blanda ekki inn í umr. um stjórnarskrármálið umr., sem eiga heima á öðrum vettvangi og snerta sambandslagasáttmálann frá 1918. Ég mun halda mér við stjskrfrv. sjálft og það, sem komið hefur fram í ræðum hv. þm. um það.

Fyrst vil ég þá víkja að ræðu hv. 10. landsk.. sem talaði fyrir hönd Sjálfstfl. Hann er formaður í mþn. í stjskrármálinu og hefur nú, eftir því sem mér er tilkynnt, fengið enn eina tignarstöðuna sem formaður í n. þeirri, er gefið hefur sér nafnið lýðveldisnefnd. Veit ég, að honum muni vel farnast, þótt tignarstöðurnar hrúgist nú mjög á herðar honum, og mun hann ekki undan því kikna, en geta innt sín veglegu störf vel af hendi í samræmi við þann vanda, sem honum er á herðar lagður. — Þessi hv. þm. fór allmörgum orðum um gerðir stjskrn. í sambandi við fyrirliggjandi frv. og vildi bæði beint og óbeint láta líta svo út, sem ég hefði nú aðrar skoðanir á þessum málum en komu fram í stjskrn. Ég hef í frumræðu minni gert grein fyrir því, að skoðanir mínar eru þær sömu. Ég hef líka áður sagt, að ég vildi ekki fyrir það synja, að flokkarnir fengju til athugunar áætlun um, hvenær stjórnarskrá lýðveldisins öðlaðist gildi, og þar væri miðað við 17. júní n. k. En það er ekki þar með sagt, að ég hafi, eins og hv. þm. orðaði það, gert uppsteyt á móti gerðum, sem ég hef áður staðið að, og hrifsað niður það, sem ég hef áður gert. Mér skildist á sama hv. þm. eins og hann teldi grundvöllinn undir till. stjskrn. vera þann og aðeins þann að sjá til þess, að lýðveldisstjskr. öðlaðist gildi einhvern vissan dag ársins 1944. Frá mínu sjónarmiði er það ekkert grundvallaratriði og getur ekki verið það, þegar stofna á lýðveldi á Íslandi, hvaða dagur verði til þess valinn. Mér þætti eðlilegast, að sá dagur yrði til gildistökunnar valinn, sem sýnilegt er, þegar þar að kemur, að hæfi bezt því mikilsverða máli, en örðugt mundi að spá langt fram í tímann um, að einn dagur sé þar öðrum fremri. Hæstv. forsrh. hefur t.d. í útvarpsræðu, sem hann hélt um nýárið, hvikað fyrir sitt leyti frá 17. júní. Þetta sýnir, að það muni vera uppi ýmsar skoðanir um það, hvort endilega þurfi að binda sig við þennan eina dag. Mér skildist líka á hv. 10: landsk., að hann teldi, að ályktunin, sem samþ. var 17. maí 1941, væri alger grundvöllur undir það, að lýðveldisstjskr. öðlaðist gildi 17. júní 1944, og að ég væri nú farinn að hvika frá þeim grundvelli. En ég mun minnast á það síðar, í sambandi við ályktunina frá 17. maí 1941, út af þeim aths., sem fram hafa komið, hvort endilega þurfi að hnýta saman gildistöku stjskr. og brottfellingu sambandslagasáttmálans. Ályktun Alþ. frá 17. maí 1941 var, eins og þingheimi er ljóst, þess efnis að framlengja ekki sambandslagasáttmálann og að Alþ. áskildi sér rétt til að rifta sáttmálanum, en að það vildi ekki, vegna hins ríkjandi ástands, koma á nýju skipulagi, en þó ekki draga það lengur en til stríðsloka. Það er áreiðanlegt, að segja mætti, að þeir, sem halda sér fast að því að fella ekki niður sambandslagasáttmálann, fyrr en frjálsar viðræður geta fengizt við Dani, og afgreiða ekki lýðveldisstjskr. fyrr, eru ekki síður nálægt grundvellinum, sem samþ. var 17. maí 1941; en hinir, sem að gersamlega óbreyttu ástandi vilja slíta sambandi nú þegar. Ég segi að gersamlega óbreyttu ástandi, því að ég sinni ekki þeim barnalegu rökum, sem komið hafa fram í þessum málflutningi um, að það hafi gerbreytt afstöðunni, þegar Bandaríkin tóku að sér hervarnir hér 8. júlí 1941. Það ástand hefur ekki breytzt, því að hér er enn þá brezkur her með nákvæmlega sama vald og áður en Bandaríkjamenn komu.

Hv. 10. landsk. talaði um, að ég hefði ekki gefið skýringar á afstöðu minni til brottfellingar sambandslagasáttmálans og gildistöku lýðveldisstjskr., en þær skýringar hef ég flutt, hverja á sínum rétta vettvangi. Hv. 10. landsk., sem er greindur maður og glöggur, hefur ekki viljað heyra skýringar mínar og mundi ekki vilja skilja þær, þótt ég endurtæki þær nú.

Hv. 10. landsk. minntist á, að eðlilegt væri, að deilur risu um einstök atriði frv. Ég vil taka undir það með honum, og eitt atriðið er, hvenær lýðveldisstjskr. eigi að öðlast gildi. Í því sambandi vil ég leggja til, að Alþ. einskorði sig ekki við einn dag í framtíðinni án tillits til þess, hvernig allar aðstæður eru þá.

Nú kem ég að einu þýðingarmiklu atriði í þessum umr., en það er um það, hvernig haga eigi endanlegri töku lýðveldisstjskr. svo að löglegt sé. Þeir hafa vikið að þessu báðir, hv. 10. landsk. og hv. 2. þm. Reykv., þótt hvor hafi þar sína skoðun. Ég mun þá fyrst víkja að máli hv. 10. landsk., en mun síðar víkja að því, sem hv. 2. þm. Reykv. hafði þar fram að færa.

Hv. 10. landsk. sagði, að það væri undarlegt af mér að vilja nú koma fram með það, sem ég hefði ekki minnzt á í stjskrn., að lýðveldisstjskr. þyrfti að fá löglega staðfestingu til þess að öðlast gildi, og vitnaði hann í 81. gr. frv., að því er mér skildist, því máli sínu til stuðnings, að stjskrn. geti ekki ætlazt til, að þessi stjskr. fengi venjulega staðfestingu konungs á upphafningu konungsvaldsins. 81. gr. stjskrfrv. segir ekkert um þetta frekar en 1. gr. stjskrbreyt. frá 1942. Hún talar aðeins um ákveðinn dag, sem lýðveldisstjskr. eigi að öðlast gildi á, og að fara skuli fram þjóðaratkvæði til samþykkis, áður en hún taki gildi. Í þessari gr. segir hvergi, ekki frekar en í stjskrbreyt. frá 1942, að lýðveldisstjskr. þurfi ekki staðfestingu eins og hver önnur venjuleg löggjöf. Um þetta er heldur ekkert í frv., og ég man ekki eftir neinum umr. í stjskrn., þar sem gert hafi verið ráð fyrir því, að stjskr. fengi ekki staðfestingu. Ummæli hv. 10. landsk., sem þýða það, að mér skilst, að ég komi eins og álfur úr hól, eftir að ég hafi starfað undir hans ágætu handleiðslu í stjskrn., fá ekki staðizt. Hv. 10. landsk. og hv. 2. þm. Reykv. tóku það báðir réttilega fram, að æðsta stjórn hvers lýðveldisríkis væri þjóðin sjálf. Nú hefur þjóðin sjálf sett reglur um það, hvernig háttað skuli stjórnskipulagi á Íslandi, og hún er bundin af þeim reglum, sem hún hefur sjálf sett sér, þar til þær eru löglega úr gildi numdar.

Árið 1939 ritaði hv. 6. þm. Reykv. (BBen) grein í Stúdentablaðið um það, hvernig slíta ætti sambandi milli Íslendinga og Dana, þegar þar að kæmi, og um það, hvort þá yrði stofnað lýðveldi á Íslandi eða konungsvaldið héldist í landinu. Þar verður ekki séð, að hvoru forminu þessi hv. þm. og lögfræðingur hallast frekar. Hann talar um, að það sé varlegra að gera ráð fyrir þeim möguleika, að stofnað verði lýðveldi á Íslandi, þegar sambandslagasáttmálinn sé úr gildi fallinn. Hann minnist einnig á, hvaða möguleikar séu til að stofna lýðveldi löglega, og mun ég nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa kafla úr greininni:

„Sú leiðin, sem engum vafa er undirorpið, að er stjórnskipulega örugg, er að breyta stjskr. og afnema konungdæmið eða a. m. k. þau ákvæði, sem leiða til konungssambands Íslands og Danmerkur. Til þess hafa Íslendingar ótvíræða heimild, en það verður ekki gert nema með samþykki konungs sjálfs, þar sem staðfestingu hans þarf á stjórnskipunarlögum og þá einnig frv., sem í þessa átt færi.“

Að vísu var þá ekki komin í gildi stjskrbreyt. frá 1942. En ekkert finnst mér felast í þeirri stjskrbreyt. um þetta efni, svo að skýrt sé, annað en það, að ekki þurfi fram að fara nýjar kosningar milli þess, er Alþ. afgr. málið. Það er afnumið það ákvæði, að rjúfa þurfi Alþ., ef gera á breyt. á stjórnarskipunarlögunum, í stað þess, að áður varð að rjúfa Alþ. og láta nýjar kosningar fara fram og þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég skal geta þess, að öll rök, sem fram komu á Alþ. 1942 til stuðnings þeirri breyt., sem þá var gerð á stjórnskipunarlögunum, sýna, að hér var verið að forðast að leggja út í nýjar kosningar, sem auka mundu illdeilur. Hér var því aðeins um að ræða breyt. til' þess að losna við nýjar kosningar. Ég held því, að það sé vafasöm kenning, sem hv. 10. landsk. flytur, þessu máli til stuðnings, og styðjist ekki við íslenzk stjórnskipunarlög. — Ég held, að ég hafi þá minnzt á þau atriði í ræðu hv. 10. landsk., sem ég vildi tala um á þessum vettvangi.

Ég mun ekki ræða hér um niðurfellingu sambandslagasamningsins, heldur eingöngu um þá stjórnarskrá, sem hér er til umr. En þó vil ég taka það skýrt fram, að til þess að hægt sé að setja ný stjórnskipunarlög, þarf að vera búið að fella úr gildi sambandslagasamninginn frá 1918. En þetta mun ég einnig ræða á öðrum vettvangi.

Það, sem mér þótti einna leiðinlegast í ræðu hv. 10. landsk., voru nokkur niðurlagsorð um það, að aldrei yrði gerð nein sameining hér á Alþ. um það, sem hann kallaði undanhald, heldur stofnað hér lýðveldi slindrulaust hinn 17. júní 1944. Hv. þm. notaði orðið „slindrulaust“. Ég skal nú ekki segja, hvað það orð þýðir. Um annan grundvöll væri ekki að ræða hjá Íslendingum, sagði þessi virðulegi forseti Sþ. — Hann kann að tala fyrir munn einhverra kjósenda sinna og einhvers hluta síns flokks. En hann hefur ekki fengið umboð íslenzku þjóðarinnar til að tala einn í hennar nafni, og má mikið vera, ef hann nokkru sinni fær umboð til að tala einn í hennar nafni. Ég tek hann því ekki sem málsvara þjóðarinnar, heldur flokksmanna sinna, meira ekki.

Þá sný ég mér að ræðu hv. 2. þm. S-M. Það eru ekki nema tvö til þrjú atriði í sambandi við það, sem hann sagði um stjskr., er ég tel þörf á að ræða.

Þessi hv. þm. lagði mjög ríka áherzlu á það, sem hann kallaði sáttmála flokkanna og gerður var hinn 17. maí 1941. Hann leit svo á, að samkv. honum ætti það að fylgjast að, að fella sambandslagasamninginn úr gildi og stofna lýðveldi hér á Íslandi. Ég skal játa, að eftir því, sem fyrir liggur í 3. ályktun Alþ. frá 17. maí, þá lýsti Alþ. þar yfir vilja sínum til að stofna lýðveldi, jafnskjótt og sambandslagasamningnum væri formlega slitið. En þó að hér væri um slíka samþykkt að ræða, liggur það að sjálfsögðu á valdi Alþ. að ákveða, hvort þetta tvennt skuli verða samtímis, að lýðveldi verði stofnað og sambandslagasamningurinn felldur úr gildi. Það er á valdi Alþ. að ákveða þetta og enginn tryggðarof að athuga það, þótt Alþ. kynni með því að komast að þeirri niðurstöðu, að hagkvæmara væri fyrir íslenzkt stjórnarfar, að þetta tvennt færi ekki fram samtímis.

Það er nú einnig svo, að það, sem við höfum lagt til til samkomulags og til að skapa einingu í þessu máli, er, að stjskr. verði samþ. og lýðveldi stofnað með löglegri framkvæmd jafnskjótt og þjóðaratkvæðagreiðsla hefur farið fram um þessa lýðveldisstjskr., en hún öðlist ekki gildi, fyrr en Alþ. ákveður. Jafnvel þetta tilboð brýtur ekki í bága við þær ályktanir, sem Alþ. gerði hinn 17. maí 1941: Það er bara eitt atriði í þessu, sem vafi gæti leikið á. og það er þetta „jafnskjótt.“ En, sem sagt, með þessu væri þó meira að segja fylgt þeim sáttmála, sem hv. 2. þm. S.–M. talaði svo mikið um.

Ég held þess vegna, að það séu einhver tyllirök, sem haldið er fram í þessu máli, og ekki rétt að slá því föstu, að 17. júní skuli endilega valinn til þessara hátíðahalda. Ég tel það ekki brjóta í bága við samþykktina frá 17. maí 1941, þó að einhver annar tími væri valinn, og ekkert við því að segja. Alþ. hefði þá aðeins breytt því, sem það ákvað fyrir þrem árum, og það í smávægilegum atriðum. Ég held, að ef hæstv. Alþ. breytti aldrei samþykktum sínum, fyrr en að liðnum þrem árum, þyrfti ekki að áfellast það fyrir flausturshátt. Þessi rök hv. 2. þm. S.-M. fá því ekki staðizt.

Hv. þm. talaði um það, að ef breytt væri um stefnu í þessu máli, þyrfti að færa fram rök fyrir þeirri stefnubreytingu. Ég fyrir mitt leyti tel, að fyrir liggi rök um þetta atriði, en ég játa, að það eru mannleg rök að vísu. Hver verður að meta málin eftir því, hvaða skoðanir hann hefur á ástandinu í heiminum. Það er alltaf matsatriði, hver hátturinn er drengilegastur og beztur.

Þá kem ég að því; sem hv. þm. sagði, að sér fyndist jafnvel ódrengilegt gagnvart Kristjáni X. að bíða eftir því, að hann gæti sagt álit sitt, og honum gefinn kostur á að segja af sér, þar sem Alþ. væri búið að lýsa yfir því, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi, og það muni verða gert, hvað sem hann segi. Ég kann að leggja annað mat á þetta en hv. 2. þm. S-M., en ég ætla þó, að ætti hann sem forstjóri prentsmiðjunnar Eddu að fara þaðan vegna skipulagsbreytinga, þætti honum viðfelldnara, að þetta væri gert í samráði við hann, en honum væri vísað úr starfi sínu, án þess að við hann væri rætt. En hver hefur nú sínar skoðanir. Ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að eins og nú standa sakir í heiminum, og þó sérstaklega í Danmörku, þá verði stofnun lýðveldis nú ekki talið vinsamlegt athæfi gagnvart hinum sameinuðu þjóðum, og ég vil segja, gagnvart persónu þess manns, sem er fulltrúi þjóðar sinnar á erfiðum baráttutímum. Ég þarf ekki að spyrja, ég veit það eins vel og ég stend hér í salarkynnum Alþ., að þetta mælist ekki vel fyrir. Ég er ekki með því áð segja, að það verði barizt dólgslega í þessu máli, en ég veit, að það mælist illa fyrir.

Ef við nú með einföldum pennadrætti gætum breytt þessu á þann veg, að það mæltist öðruvísi fyrir út á við, og gætum þó verið stoltir af framgangi málsins, þá væri mikið unnið og lýðveldið á traustari grundvelli en ella. Því að eins og ég sagði áður, þá er það aðeins eitt, sem við getum byggt tilvist okkar á sem sjálfstætt ríki, og það er, að við hegðum okkur sem allra drengilegast gagnvart öðrum ríkjum og í samræmi við gerða samninga. Á því byggist öll okkar framtíð. Það má vera, að það dugi ekki til, en ef við gerum það, þá höfum við notað eina vopnið, sem við eigum.

Ég held, að ég þurfi ekki að tala um fleira af því, sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. S-M.

Þá vil ég víkja að ræðu hv. 2. þm. Reykv. Hann minntist á atriði, sem 10. landsk. kom einnig inn á, að ekki þyrfti að staðfesta lýðveldisstjskr., vegna þess að þjóðin samþykkti hana og tæki völdin í sínar hendur. En svo fannst mér slá út í fyrir hv. 2. þm. Reykv., þegar hann fór að tala um stjskrbreyt. Hann sagði, að við yrðum að binda þá stjskr., er við gerðum núna, við þann ramma, sem reistur var í desember 1942. Ég er honum sammála, en þá ætti hann líka að halda sig að þessu. Nei, þá kemur hann með önnur rök. Þjóðin er ofar öllu öðru. Ef hún samþykkir þetta, þá þarf enga staðfestingu. Nú vil ég segja við þennan hv. þm., að ef ekki þarf þessa staðfestingu, þá skulum við taka höndum saman og gerbreyta stjskr.

Nei, ef þessir menn ætla að halda því fram, að þjóðin sé ofar öllu öðru og að ekki þurfi að staðfesta stjskr., þá skulum við halda áfram og gerbreyta stjskr. og láta svo þjóðina, sem æðsta dómstól, segja já.

Þetta er bara kák hjá hv. þm. Þetta er ekki bylting! Hann vill nota byltingu, þegar honum finnst hún lögleg, en hann vill ekki nota hana til að gerbreyta stjskr. Hv. 2. þm. Reykv. ætti að athuga kenningu sína nánar, áður en hann heldur aftur fram slíkum grundvelli, sem hann byggði þessa ræðu sína á.

Eins og ég sagði áður, þá vil ég ekki með öllu afneita kenningum hv. þm., en þá verður líka allt annað að víkja, ef frelsi þjóðarinnar er í veði, og það verður jafnvel að gera það, sem brýtur í bága við gildandi lög. En hér er ekki um neitt slíkt að ræða. Frelsi þjóðarinnar er ekki í hættu, þó að stjórnskipunarlögin öðlist gildi síðar en 17. júní.

Ég vil ekki afneita byltingakenningum hv. 2. þm. Reykv. Á vissum tímum verður að víkja öllum hagsmunum þjóðarinnar til hliðar, ef frelsi hennar er í veði, og þá verður líka stundum að víkja frá þeim lögum, sem til eru í landinu. En hér er ekki neinu slíku til að dreifa.

Nú vil ég segja við þessa tvo borgaraflokka, sem gert hafa samfylkingu við Kommúnistaflokkinn í þessu máli, þið munuð fá að heyra það: Mínir elskanlegir, þið voruð með okkur í því að brjóta milliríkjasamning! — Það getur komið sú stund, að þessir tveir flokkar verði minntir á þetta af samherjum sínum í þessu máli, og ég hygg, að kommúnistar geti haft einhver slík orð um þetta.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að viðkvæmni sú, sem fram kom í orðum mínum um Kristján X., hefði átt að koma fram 17. maí 1941. — Ég ber ekki viðkvæmni í brjósti til konungsins, en ég ber virðingu fyrir Kristjáni X., eins og við gerum allir á þessum erfiðu tímum fyrir hann og þjóð hans, og ég ber virðingu fyrir þeim þjóðum, sem nú berjast með Dönum. En einmitt vegna þess, að ég ber virðingu fyrir þessum þjóðum, vildi ég af fremsta megni leitast við, að stofnun lýðveldisins verði á þann hátt, að hún verði ekki álitin orðin tóm af þeim, sem um það dæma.

Alþfl. hefur lýst yfir því, allt frá því að hann var stofnaður árið 1916, að hann væri lýðræðisflokkur. Hins vegar hefur hann aldrei slegið neinu föstu um það, hvenær stofna ætti lýðveldi, öðru en því, að stofna skyldi lýðveldi, þegar hægt væri að segja upp sambandslagasamningnum. En hann hefur ekki slegið því föstu, að lýðveldi eigi að stofna sama daginn og sambandslögin falla úr gildi.

Þá vildi hv. 2. þm. Reykv. halda því fram, að Alþfl.-fulltrúarnir í stjskrn. hefðu snúizt frá því, sem ákveðið var um val forseta. Það var skýrt tekið fram af báðum fulltrúunum í n., að þeir hefðu óbundnar hendur um þetta atriði. Þegar þetta mál var komið svo langt áleiðis, að menn urðu að taka afstöðu um val forsetans, var Alþfl. á einu máli um það, að rétt væri að hafa hann þjóðkjörinn. Hér er því ekki um neina stefnubreyt. að ræða.

Þegar ég minntist á það í framsöguræðu minni, að vel gæti verið, því miður, svo högum háttað, bæði hér á landi og annars staðar í heiminum, að 17. júní væri ekki endilega heppilegur til þess að halda stórhátíð, þá sagði hv. 2. þm. Reykv., að við gætum alveg eins haldið þessa hátíð eins og jólahátíð á stríðstímum. — Ekki vil ég jafna því saman, þeim góða sið úr kristni og heiðni, að halda jólahátíð, og því að þurfa, hvernig sem á stendur, að slægjast eftir ákveðnum degi til stofnunar lýðveldisins. Það er engin þúsundára-„tradition“ bundin við 17. júní 1944, en það er þúsund ára gömul venja, sem bindur þjóðir heimsins við að halda jólahátíð, og það er „tradition“, að jafnvel í stríðslöndum er jólunum ekki gleymt. Ég held því, að þessi samanburður hjá hv. 2. þm. Reykv. sé ófullkominn.

Þá kom hv. þm. að því, sem ég játa, að gætu verið rök, ef ég legði sama mat á hlutina og hann, sem sé, að hættulegt væri að bíða með stofnun lýðveldisins lengur en til 17. júní og enn hættulegra að bíða, þar til stríðinu lyki, sennilega vegna þess, að þá væru Rússar komnir fram á sjónarsviðið. Um það skal ég ekkert segja, en vel gæti þá komið annað hljóð í strokkinn. En þó að ég skuli játa það, að reynsla margra undanfarinna ára bendi til þess, að sumar þessar stórþjóðir, sem eru meðal hinna sameinuðu þjóða, hafi ekki haldið gerða samninga, því miður, þá höfum við enga ástæðu til þess að ætla, að Bandaríkjunum og Bretlandi detti í hug annað en standa við þá samninga, sem þau stórveldi hafa við okkur gert, og vinna að því öllum árum að viðurkenna okkur sem sjálfstætt ríki að ófriðnum loknum. En það eru önnur ríki, sem hafa brotið samninga, ríki, sem hafa gert vináttusamninga og „ekki árásarsamninga“ við önnur ríki. En vegna hagsmuna þjóðanna — eftir ræðu hv. 2. þm. Reykv. — var þetta aðeins pappírsgagn, sem ekki þurfti að virða. Þetta voru samningarnir milli Rússlands hins mikla og lítils ríkis, sem Finnland heitir, um það að ráðast ekki hvort á annað, og samningurinn var í gildi í byrjun ársins 1939. Ég játa, að sá samningur var ekki haldinn. En ég hef enga ástæðu til að ætla, að Bandaríkin og Stóra-Bretland muni ekki halda gerða samninga við okkur um þetta atriði, sem hér hefur verið rætt, og þess vegna álít ég, að óhætt sé að fresta því að stofna formlega lýðveldi á Íslandi, jafnvel fram til ófriðarloka. Út af viðskiptum okkar við þessi ríki nú á stríðstímanum höfum við ekki ástæðu til að halda annað en þau stórveldi haldi gerða samninga við okkur, því að þau hafa haldið samninga sína við okkur vel og drengilega, sem komið hefur fram í viðskiptum þeirra við Ísland. Ég fyrir mitt leyti get því aldrei séð þá hættu, sem menn eru að tala um, bæði hv. 2. þm. Reykv. og aðrir, í sambandi við það, að þessi litli þáttur, gildistaka lýðveldisstjórnarskrár, verði látinn bíða til ófriðarloka. Þá standa málin þannig, að það er búið að fella niður sambandslagasáttmálann, búið að samþ. lýðveldisstjskr., búið að staðfesta hana af þjóðinni, en aðeins eftir að ákveða gildistökudaginn, sem af hagkvæmnisástæðum væri rétt að draga til ófriðarloka. (EystJ: Hverjar eru þessar hagkvæmnisástæður? ) Hv. 2. þm. S.-M. á ekki, eins og hv. 10. landsk., að koma eins og álfur út úr hól og spyrja um þetta efni. (EystJ: Ég hef ekki heyrt nema eina ástæðu nefnda.) Hann segist hafa heyrt aðeins eina ástæðu nefnda, hv. þm., til þess að fresta gildistöku lýðveldisstjskr., afstöðuna til Kristjáns konungs X. Hann margendurtók þetta. Og þetta er ein af ástæðunum. En önnur ástæðan er, að við vitum bókstaflega ekkert um, hvernig ástandið verður í heiminum umhverfis okkur 17. júní 1944, hvort þá muni vera heppilegur tími til þess að stofna lýðveldi á Íslandi. Þetta var önnur ástæðan, en hv. 2. þm. S.-M. gekk fram hjá henni. Ég tel enga hættu í sambandi við það að bíða með þetta atriði og hef ekki getað sannfærzt um þá hættu af þeim umr., sem fram hafa farið hér.

En að lokum vil ég mega spyrja hæstv. ríkisstj. um það, hvort hún hafi gert nokkrar athuganir og ráðstafanir í þá átt að tryggja okkur viðurkenningu annarra ríkja á stofnun lýðveldis á Íslandi 17. júní 1944. Að vísu gæti ég kannske að einhverju leyti svarað mér sjálfur, vegna þess að ég veit, að sumir eru þeirrar skoðunar, að það sé óviðeigandi, eins og sagt er, að spyrja aðra ráða. En það hafa þó stærri þjóðir en við látið sér sæma að gera, að athuga um það, áður en þær stigu slíkt spor, hvort ekki væri hægt að tryggja sér viðurkenningu vinveittra stórvelda áður á stjórnskipun sinni. Ég minni á Noreg og Tékkó-Slóvakíu. Þetta var gert af hálfu Noregs, áður en látið var til skarar skríða. Og Mazaryk gekk ekki að því að stofna tékkneska lýðveldið, fyrr en hann hafði tryggt sér fulla viðurkenningu margra stórvelda á því lýðveldi. Það hafa þess vegna margar stærri og voldugri þjóðir en við talið þetta skynsamlega öryggisráðstöfun. Og ég fyrir mitt leyti liti miklu öðruvísi á þetta mál, ef ríkisstj. kæmi með viðurkenningu, við skulum segja Stóra-Bretlands og Bandaríkjanna, fyrir lýðveldisstofnun okkar — og við skulum segja Rússlands, af því að vinir þess og velunnarar vilja hafa það með, og mér finnst það eðlilegt, — og t.d. Noregs og Svíþjóðar. Ef ríkisstj. gæti lýst yfir, að tryggð væri viðurkenning þessara ríkja allra á lýðveldi voru 17. júní 1944, þá greiddi það mjög fyrir málinu. Ég segi það fyrir mig, að þá væru fallnar ýmsar hugsanir mínar um það, að það gæti verið óheppilegt að slá föstum deginum, ef slíkt væri fyrir hendi. Þess vegna vil ég skjóta því til hæstv. ríkisstj., hvort hún, jafnvel þótt meiri hl. þingsins hafi ekki óskað eftir því, sem forsjál ríkisstj. hafi gert þetta. Einkum af því, að hún bauðst til þess að flytja stjskrfrv. og þáltill. um niðurfelling dansk-íslenzka sambandslagasamningsins og þannig taka að sér forystu málsins, gæti maður ímyndað sér, að hún hefði gert einhverjar ráðstafanir í þessu efni. Ef hún hefur gert þetta, vildi ég — og kannske fleiri hv., þm. — fá að vita það. Og það gæti snúið við mörgu, sem hugsað væri að gera í þessu máli.

Að lokum vil ég svo taka fram, að ég fyrir mitt leyti tel það engan aufúsan vilja til samninga hjá flokkum þingsins, ef þeir neita harðlega að fallast á að rökræða við okkur um möguleikana á stofnun lýðveldis með þeim hætti, sem við höfum lagt til, að haga niðurfelling sambandslagasamningsins og samþykkt lýðveldisstjórnarskrár eins og ég hef nú rætt um. Og það mun koma fram till. frá okkur hér á þingi um breyt. á gildistökugr. í frv. þessu, sem hér liggur fyrir, í þá átt, að lýðveldisstjskr. öðlist ekki gildi, fyrr en Alþ. síðar með formlegri samþykkt hefur ákveðið það og hún hefur verið samþ. af þjóðinni sjálfri við atkvgr. En ef menn vilja ekkert um samninga um þetta hugsa, þá er sýnt, að engin löngun er til þeirra samninga, og þá er ekkert lagt upp úr þjóðareiningu um málið. En ég mun, að gefnu tilefni, minna á í sameinuðu þingi, að það er ekki hægt að ætlast til þess af nokkrum manni, að hann greiði atkv. með meiri hl., af því að meiri hlutinn muni ráða, ef hann telur, að það, sem meiri hl. er að gera, sé rangt og hættulegt.