17.01.1944
Neðri deild: 3. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Ég skal tala örstutt, og til þess að tefja ekki umr. skal ég ekki taka til umr. atriði, sem þó væri nokkur ástæða til að minnast á.

Hv. 4. þm. Reykv, var að bera saman þál. frá 1941 og það, sem nú væri að gerast, afstöðu sína og afstöðu okkar, sem viljum nú afgreiða þál. um sambandsslit og stjskrfrv. Hv. þm. sagði, að í þál. frá 1941 væri ekkert um það sagt, hvenær þessar framkvæmdir skyldu gerðar. Og það er rétt hjá honum, að það er ekki nánar til tekið en það, sem segir með þessum orðum: „Þó ekki síðar en í styrjaldarlok“. Hann sagði, að mönnum hefði ekki þótt tímabært að framkvæma þetta, eins og þá stóð. Og síðan bætti hann við, að þetta þýddi það, að við værum ekki síður en hann að víkja frá þeirri ályktun, sem gerð var 1941. Hann segir og, að síðan þál. var samþ., hafi ekkert breytzt, sem geri það eðlilegt, að nú sé hafizt handa um stofnun lýðveldisins.

Í fyrsta lagi fullyrði ég, að það var gert ráð fyrir, þegar þál. var samþ., að þessar framkvæmdir færu ekki síðar fram en 1944. Í öðru lagi er það hin mesta villa hjá hv. þm., að ástæður séu ekkert breyttar nú frá því 1941. Síðan eru liðin þrjú ár, einmitt þau þrjú ár, sem áttu að líða; frá því að endurskoðunar átti að óska á sambandslagasáttmálanum, til þess að við gætum öðlazt rétt eftir sambandslagasamningnum til einhliða sambandsslita.

Á þessu ári eru þá einnig liðin þau 25 ár, sem áttu að líða frá 1918, til þess að við hefðum þennan einhliða rétt samkvæmt samningnum. Þrátt fyrir það segir hv. þm., að ekkert standi öðruvísi á en 1941. Ástæðurnar eru auðvitað allt aðrar en 1941, og ég lagði áherzlu á það í því, sem ég sagði um þetta mál í Sþ., að við hefðum nú til viðbótar þeim rétti, sem allir hv. þm. voru sammála um, að við hefðum öðlazt árið 1941, þ.e.a.s. vanefndaréttinn, sjálfan samningsréttinn frá 1918. Þetta ræður alveg úrslitum í málinu að mínum dómi.

Þá vil ég einnig benda á, að ástæður eru nú einnig breyttar að öðru leyti. 1941 var landið hernumið, og það lá fyrir, að sú þjóð, sem hafði hernumið landið, taldi þá alveg sérstaklega varhugavert að nota vanefndaréttinn. Nú er landið ekki hernumið, heldur höfum við samið við stórveldi um hervernd landsins, og nú liggur ekki fyrir aðvörun frá neinni lýðræðisþjóð út af því, að við ætlum að hafa þá meðferð á málinu, sem nú er fyrirhuguð, heldur þvert á móti viðurkenning þess stórveldis, sem herverndina annast. Mér finnst það furðu gegna, að hv. 4. þm. Reykv. skuli virðast ástæður nú til þess að stíga lokaskrefið líkar því, sem þær voru fyrir þremur árum. Ég verð einnig að taka það fram, að mig undrar stórum, að nokkur þeirra, sem voru því fylgjandi 1941 að lýsa yfir því, að þjóðin hefði þá þegar réttargrundvöll fyrir fullum skilnaði við Dani og stofnun lýðveldi$, skuli nú draga í efa, að slíkur réttur sé nú fyrir hendi.

Hv. 4. þm. Reykv. minntist einnig á það, sem ég hef haldið fram um þá stefnubreyt., sem yrði í málinu, ef farið yrði eftir hans vilja. Hann vill annars vegar gera lítið úr því, að um stefnubreyt. yrði að ræða, en heldur því hins vegar fram, að þótt breytt væri um stefnu, þá væri það heimilt, ef þingið kæmist að þeirri niðurstöðu, að það væri hentugra fyrir málstað Íslendinga. Ég held, að engum blandist hugur um, að það væri fullkomin stefnubreyt., ef sambandinu væri slitið, en lýðveldisstofnunin látin bíða. — Hv. þm. sagði, að menn yrðu að gera sér ljóst, að það mætti breyta því, sem væri smávægilegt atriði, eins og gildistöku stjskr. Hvaðan kemur honum réttur til þess að kalla það smávægilegt atriði, kalla það smávægilegt atriði að fresta stofnun lýðveldisins og aðskilja þá tvo þætti frelsismálsins, sem ætið hafa verið ofnir saman á undanförnum árum? Mér er ekki mögulegt að líta á það sem smáatriði. Mér virðist ómögulegt að byggja á því, þótt hv. þm. segi það sem sína skoðun, að engin áhætta sé í sambandi við þá ráðstöfun. Ég minntist í dag á rökin, sem mæla gegn stefnubreyt., og ég endurtek þau ekki nú. Ég held, að hv. þm. verði að taka skoðun sína til endurnýjaðrar athugunar, áður en hann leggur alveg endanlega kapp á þá meðferð málsins, sem hann hefur stungið upp á.

Ég gat þess í fyrri ræðu minni, að ég hefði ekki heyrt getið um nema eina ástæðu fyrir umræddri stefnubreyt., en það mundi leiðrétt, ef fleiri væru, og nú hefur hv. 4. þm. Reykv. nefnt aðra ástæðu, sem ég kem að síðar. Fyrri ástæðan var sú, og á hana lagði hann enn megináherzlu, að það væri nauðsynlegt til þess að uppfylla kurteisis- og drengskaparvenjur í sambúð að ræða við konung, áður en lýðveldisstofnun færi fram. Í sambandi við þetta fór hann þó létt yfir gagnrök mín í þessu sambandi og tók til samanburðar við konungdóminn framkvæmdastjórastörf mín í prentsmiðjunni Eddu. Mér finnst þetta lítið hátíðleg samlíking, lítið viðeigandi og ekki til þess fallin að upplýsa málið. En ég skal samt gera honum það til geðs að taka upp þessa samlíkingu hans og reyna að nota hana til þess að skýra fyrir honum, hvað fyrir mér vakir. Kann þá að verða nær en áður, þar sem hv. þm. hefur sjálfur haslað völlinn. Setjum svo, að stjórn prentsmiðjunnar ákvæði að gera skipulagsbreyt. um framkvæmdastjórastarfið, t.d. þannig, að sá, sem gegndi starfinu, mætti ekki vera alþm. eða yrði að vera lærður prentari, m.ö.o. gerði þannig skipulagsbreyt., að ég kæmi ekki til greina sem framkvæmdastjóri framvegis. Síðan væri málsmeðferðin þannig, að stjórn prentsmiðjunnar birti þetta almenningi, um leið og mér væri frá þessu skýrt. Þegar þannig væri komið málum, ætti það eftir skilningi hv. þm. að vera mikilvægt atriði, að einhver úr stjórn prentsmiðjunnar kæmi til mín og segði við mig, — að efni, ef til vill þó með öðru orðalagi: „Viltu ekki gera svo vel að segja af þér sjálfur, þar sem þú átt að fara, hvort sem er?“ Vitanlega legði hvorki ég né aðrir nokkuð upp úr því, hvort við mig væri talað þannig eða ekki. Með því væru ekki uppfylltar neinar kurteisisvenjur.

Viðvíkjandi hinni nýju ástæðu, sem fram var færð nú, óvissunni um það, hvernig ástatt verður 17. júní í vor, þá hlýt ég að benda á það, að æðioft mun mega telja óvissu fram undan, og handhægt að bera slíkar ástæður fyrir. En slíkt má engin áhrif hafa á þetta mál. Ef einhver slík voðatíðindi gerast fram að 17. júní, að Íslendingum reynist ókleift að koma fram fyrirætlunum sínum í lýðveldismálinu, þá er að taka því með karlmennsku, en það er óheimilt annað en halda fram málinu af fyllstu orku.