29.02.1944
Efri deild: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

50. mál, atkvæðagreiðsla um niðurfellingu dansk-íslenzka sambandslagasamningsins og lýðveldisstjórnarskrár Ís

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. — Á þskj. 102 á ég þrjár brtt. við þetta frv. Það eru tvær brtt. við 5. gr. frv. og ein við 6. gr. Fyrstu tvær till. eru dregnar saman í eina á þskj. Sú fyrri af þeim er um það, að þegar loka á kjördeildum, skuli kjörstj. öll vera sammála um lokunina. Þetta er dálítið annað en almennt er við þingkosningar, þar sem engir umboðsmenn eru þarna við. Þykir rétt, að ákveðnari ákvæði séu um þetta atriði, að öll kjörstj. sé sammála, svo að öruggt sé, að ekki sé of snemma lokað. Í öðru lagi fannst mér orðalag óákveðið í 2. málsgr. sömu gr., þar sem segir: „Ef lokað er í öllum kjördeildum, geta þeir gefið sig fram hjá oddvita kjörstjórnar, er tekur þá við atkv. þeirra og bókar þar um í kjörbók.“ Þótti mér nauðsynlegt að bæta við orðinu „hreppsins“ á eftir orðinu „kjördeildum“, því að annars mætti leggja í þetta þann skilning, að lokað væri í öllum kjördeildum kjördæmisins. Ég verð að játa, að stundum getur verið eins hægt fyrir mann að fara út fyrir hreppinn til að kjósa, en sjaldnast er þó svo, og er þá hægara að fara og kjósa hjá hreppstjóra eða oddvita. Þetta raskar ekki l., en er skýrara.

Þá er brtt. við 6. gr. Ég held, að það sé eðlilegt, enda venjulegt, að gera greinarmun á ógildum og auðum seðlum, enda er það gert í kosningal., og þess vegna vil ég bæta inn í orðunum „auða seðla.“

Ég held, að þessar breytingar séu þörf skýring, ef ekki nauðsyn til að koma í veg fyrir deilur að kosningum loknum.