02.03.1944
Neðri deild: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

25. mál, hafnarlög fyrir Bolungavík

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. — Þetta mál, sem hér liggur fyrir, hefur verið athugað af sjútvn. þessarar hv. d., og n. hefur orðið sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. N. hefur þó gert á því nokkrar breyt., þ.e.a.s. við 1. og 2. gr. frv. En þær breyt. eru á þá leið, að í staðinn fyrir, að gert er ráð fyrir því í frv., að ríkissjóður leggi fram helming kostnaðar við hafnargerðina í Bolungavík, þá hefur n. lagt hér til á þskj. 112, að þessu verði breytt þannig, að ríkissjóður leggi fram, eins og venja er til um hafnargerðir utan kaupstaðanna, hluta kostnaðarins. En þá breytist af sjálfu sér ríkisábyrgðin samkv. 2. gr. þannig, að hún nær til 3/5 hluta kostnaðarins. Það hefur nú verið svo, að þær lendingarbætur, sem gerðar hafa verið í Bolungavík, hafa verið kostaðar að hálfu af ríkinu og að hálfu af sveitarfélaginu, og hefur verið kostað til þeirra framkvæmda um 1/2 millj. kr. Hv. flm. frv. hafa þess vegna farið fram á, að það hlutfall héldist. En sjútvn. taldi ekki fært að ganga inn á þá braut, því að þá mundi að sjálfsögðu mega vænta þess, að svipaðar kröfur kæmu annars staðar frá. Og vitamálastjóri, sem n. hafði haft í ráðum og fengið umsögn frá um frv., hefur talið hér um bil alveg víst, ef þessi hreppur fengi helming kostnaðar við hafnargerð hjá sér greiddan úr ríkissjóði, að koma mundu fram kröfur um slíkt hið sama frá öðrum stöðum. N. sá sér þess vegna ekki annað fært en leggja til, að þessu ákvæði yrði breytt í frv. í það form, sem er í gildandi hafnarl, fyrir hliðstæða staði. — Ég hef ekki nein boð að flytja fyrir n. hönd önnur en þessi, að hún leggur til, að frv. verði samþ. með þessum breyt., sem eru hér á þskj. 112.

Ég tel svo að öðru leyti rétt að segja aðeins örfá orð frá eigin bæjardyrum um þessar fyrirhuguðu hafnarbætur, einkum vegna þess, að áætlunin um kostnað við þær er há, miðað við slíka smærri staði, því að áætlunin er, að þetta mannvirki muni kosta 1709000 kr. eða um 1,8 millj. kr. Í fljótu bragði virðist svo, að þessi fjárhæð sé nokkuð há vegna hafnarbóta í sveitarfélagi, þar sem fólksfjöldinn er ekki meiri en 7 til 8 þús. manns. En það er ekki vafi á því, að þessi hreppur væri stórkostlega miklu fjölmennari, ef hafnarskilyrði væru þarna betri en þau hafa verið undanfarið, því að afkoma fólks á þessum stað byggist að langmestu leyti á sjávarútvegi. Þó að þar sé nokkurt landrými og ágætar jarðir og ágæt ræktunarskilyrði í nánd við kauptúnið, þá hefur þetta kauptún byggt afkomu sína að mjög verulegu og mestu leyti á sjávarafla. En auk þess hefur á fyrri öldum og jafnvel til þessa tíma verið sótt mikið til þessa staðar frá öðrum byggðarlögum. Menn, sem hafa átt heima við Djúpið, hafa haft útræði þarna, einkum áður fyrr. Að heita má allir stærri bændur í héraðinu hafa einhvern tíma haft selstöð í Bolungavík. Og þetta stafar af því, að úti fyrir Vestfjörðum eru þau fiskimið, sem fiskur endist lengst á hvert ár. Það má heita, að á Vestfjarðamiðunum sé fiskur allt árið, og að þessu leyti eru fiskimiðin þar auðugustu fiskimið við Ísland. En Bolungavík liggur einna bezt við þessum fiskimiðum, og þess vegna er það, að einungis hin háskalegu lendingarskilyrði á þessum stað hafa hamlað því, að þarna risi upp stór fiskveiðibær. Ef höfn verður gerð þarna eftir þeirri áætlun vitamálastjórans, sem hér er á byggt í þessu frv., tel ég alveg víst, að þarna muni verða ausið upp miklu fé af fiskimiðunum og að þessi staður, Bolungavík, komist þá til mikils vegs meðal fiskveiðibæja á Íslandi.

Ég get ekki látið hjá líða að minna hv. þd. á það, að Bolungavík er með allra frægustu verstöðvum landsins frá fornu fari og hefur aldrei dvínað í raun og veru. Jafnvel þegar hér var hálfgerð ísöld við Ísland, sem firrti menn sjávarafla fyrir Norðurlandi, þá hélt Bolungavík alveg sínum heiðri, því að menn sóttu þar mikla björg og auð á fiskimiðin, sem liggja út frá Bolungavík. Og það bendir ekkert til þess, að, þau fiskimið ætli að bregðast á nokkurn hátt. Ég held þess vegna, að það sé mjög verðugt að samþ. hafnarl. fyrir Bolungavík og í því efni að ætla allríflegt fé til þessa staðar. Og vil ég í því sambandi, auk þess, sem ég hef sagt, minna á það, að þetta litla sveitarfélag með 7–8 þús. manns er búið að láta af mörkum til hafnarbóta þarna um fjórðung milljónar kr., sem má teljast stórvirki af svo fámennu sveitarfélagi. Þetta sýnir, að það er orkufólk, sem þarna á hlut að máli, fólk, sem líklegt er að hagnýta sér vel þann stuðning, sem því yrði veittur með því fjárframlagi, sem hér er gert ráð fyrir.