08.03.1944
Efri deild: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

25. mál, hafnarlög fyrir Bolungavík

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Sjútvn. hefur athugað þetta frv. eins og það kom frá hv. Nd. N. hefur borið það saman við gildandi hafnarl. og leggur einróma til, að það verði samþ. óbreytt.

Ég vil aðeins geta þess, að í einni gr. frv. er ákveðið, að heimila skuli hafnarsjóði á þessum stað að taka allt að 2% af afla. Þetta er dálítið frábrugðið því, sem er í öðrum hafnarl., því að þar er leyft að taka allt að 1% af afla, sem lagður er á land. En með tilliti til þeirra erfiðleika, sem þarna er við að etja um hafnarbætur, sér sjútvn. ekki ástæðu til að gera aths. við þetta ákvæði.