07.03.1944
Neðri deild: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

62. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson):

Fjhn. þessarar d. er ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Ég — eða minni hl. — skila sérstöku áliti, og vil ég gera nokkra grein fyrir því.

Ég tel, að heimildir þær, sem hér eru gerðar í frv., séu eingöngu til þess að gera mismun verðs á mjólkurafurðum og öðru því, sem þar um ræðir, miðað við, á hvaða stað sú framleiðsla fer fram, og gætu þá fleiri atriði komið til greina. Ég tel rétt að gefa n. kost á því sjálfri að úrskurða um þennan mismun og álít mjög varhugavert, að mjólkursölun. hafi ein vald út af fyrir sig til að ákveða þetta. Ég tel því rétt, að þetta sé eitt af þeim verkefnum, sem sex manna n. fái, þegar hún heldur áfram starfi sínu, sem ég býst við, að samþ. verði, enda liggur fyrir till. frá hv. þm. a.-Húnv. um, að störf n. framlengist þannig, að hún verði látin reikna út niðurstöður vísitölunnar.

Auk þeirra brtt., sem hér liggja fyrir um, að þetta verð skuli ákveðið af sex manna n., þá flyt ég brtt. um, að sett sé í frv. ákvæði, sem taki af öll tvímæli um það, hvort ríkisstj. sé heimilt að borga niður afurðaverðið á innlendum markaði án þess að leita sérstakrar heimildar Alþ. hverju sinni og hvernig skilja beri ákvæði dýrtíðarl. Ríkisstj. hefur þá skoðun, að hún hafi fulla heimild til þess, en flokkarnir álíta aftur á móti, að hún hafi til þess enga heimild. — Það var lagt fram frv. í Ed. um, að ríkisstj. skyldi leita álits Alþ., ef greiða þyrfti niður dýrtíðina. Þetta frv. komst í gegnum 2. umr. í Nd., en þá tók forseti til sinna ráða og hindraði afgreiðslu málsins margar vikur, og dagaði það uppi. En á síðasta degi þingsins var samþ. þál. um þetta sama efni. Ber orðalagið með sér, að það var eingöngu til bráðabirgða, og vildu sumir ætlast til þess, að sett væru lagaákvæði, sem kvæðu á um, að ríkisstj. gæti ekki gert stór fjárútlát öðruvísi en þurfa að leita samþ. Alþ. Fyrsti liðurinn í þeim brtt., sem eru í nál. minni hl., gengur einmitt út á að fá þetta skýlausa ákvæði inn í dýrtíðarl.