07.03.1944
Neðri deild: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

62. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Hv. þm. a.-Húnv. talaði hér áðan fyrir brtt., sem hann flytur á þskj. 155. Hann lagði þessa till. sína fram í fjhn., en þar varð ekki samkomulag um till. Eins og þegar hefur verið tekið fram hér og dm. muna, þá var þetta atriði, sem hann flutti till. um, einnig til meðferðar á síðasta þingi, og var þá felld till., sem mun hafa verið frá þessum sama hv. þm., einmitt um þetta sama efni. Ég tel það illt, að hv. þm. a.-Húnv. og hv. þm. Siglf. skuli flytja þessa brtt. og hefja hér deilur um þessi ágreiningsatriði, sem var verið að ræða um á síðasta þingi, því að það getur aðeins verið til þess að tefja og spilla fyrir því, að þetta litla frv. á þskj. 130 fái afgreiðslu nú. En um efni frv. út af fyrir sig ætti ekki að vera neinn ágreiningur. Mér sýnist, að ekki þurfi að vera neinn ágreiningur um það, að sjálfsagt sé að greiða til framleiðenda nokkuð mismunandi verð fyrir vörurnar eftir gæðum. Það er ekki sanngjarnt að greiða sama verð fyrir kg af mjólk, hvort sem hún er í 1., 2. eða 3. flokki. Sama gildir um aðrar vörur. Ég tel nauðsynlegt að fá þetta skýrt ákveðið í l., og þá teldi ég, að menn ættu að samþ. frv. án þess að verá að taka upp nýjar deilur um önnur atriði, sem ekkert snerta þetta mál.

Ég vil því vænta þess, að hv. þm. a.-Húnv. vilji taka aftur þessa brtt. sína, en vilji hann það ekki, vænti ég þess, að brtt. hans verði felld nú eins og gert var í þessari hv. d. á síðasta þ. Ég vil líka leggja á móti brtt. þeirri; sem hv. minni hl. fjhn. flytur á þskj. 164.