07.03.1944
Neðri deild: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

62. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Ég hef ekki hjá mér þau bréf, sem ríkisstj. sendi flokkunum um þetta, en í öllu falli sendi hún þeim bréf, þar sem hún fór fram á það við þá, að þeir heimiluðu henni ákveðna peningaupphæð til þeirra hluta. Ég veit ekki, hvaða svar barst við því bréfi, en það skiptir engu verulegu máli. Aðalatriðið er, að orka þykir tvímælis, að ríkisstj. hafi haft þessa heimild til þess að borga niður dýrtíðina. Við sósíalistar héldum því fram, að hún hefði ekki þessa heimild. Svo héldu allir, að hún hefði hana, og stj. virðist nú sjálf halda, að hún hafi þessa heimild. Það er óheppilegt, að slíkt almennt ákvæði sé fyrir hendi, sem stj. gæti lagt í þann skilning, að hún hefði ótakmarkaða heimild til þess að greiða niður dýrtíðina, hve mikil sem upphæðin kynni að verða. Og það er miklu meira traust en hægt er að segja að hafa megi, að ráðstafa þannig tugum millj. af fé ríkissjóðs, og það er hastarlegt, ef Alþ. ætlar sér að líða það, að hún hafi þetta ótakmarkaða vald, sem hún hefur lýst yfir, að hún telji sig hafa. Og yfirlýsing ríkisstj. um þetta efni er nóg ástæða til þess, að Alþ. taki af skarið og ákveði, hvaða reglur það vilji hafa í þessum efnum. Það er auðvitað allt annað mál, hvort ákveðið verður að borga niður dýrtíðina, og ég býst við, að meiri hl. mundi vera með því, en við sósíalistar vorum á móti því og álitum, að verið væri að kaupa niður laun verkafólksins. Þó var meiri hl. með því að veita ríkisstj. heimild til þessa niðurkaups á dýrtíðinni, og það er ekkert við því að segja, þó að ríkisstj. noti þá slíkt vald, er þingið hefur veitt henni. En ég læt ekki af því, að þingið veiti ríkisstj. ekki þá heimild, að hún geti ótakmarkað ráðstafað fé ríkissjóðs til þessara hluta. Ég get ekki séð, að það tefji þetta mál, þó að þessi till. yrði samþ., eins og sumir hv. þm. virðast halda. Það var mikill meiri hl. með því á síðasta þingi að samþ. svona breyt., og mig minnir, að Sjálfstfl. hafi viljað taka af allan vafa um það, að ríkisstj. hefði þessa heimild, og þótt flokkurinn væri á þeirri skoðun, að það bæri að borga niður dýrtíðina.

Viðvíkjandi. sex manna n. og starfi hennar á ég bágt með að skilja, að það þurfi að teljast fresta svo mikið störfum þingsins og hindra, að þetta frv. nái fram að ganga, þó að þessi till. yrði samþ. Ég vil benda þessum mönnum á það, einkanlega hv. 2. þm. Skagf., sem var þessu fylgjandi á síðasta þingi, en segist nú ekki vilja tefja frv. með því að samþ. brtt., að engar líkur eru til, að nokkur n. verði sett til þess að reikna út það verðlag, sem á að taka við á næsta hausti. Það er vitað mál, að þingið kemur ekki saman til neinna starfa fyrr en næsta haust, og það er ekki hægt fyrir hv. þm. að vera með því, að sex manna n. starfi áfram, vera með því að halda áfram því samkomulagi, sem var milli framleiðenda og neytenda, og ætla sér að vera á móti brtt., því að hún fresti þessu frv., því að þetta er eini möguleikinn til þess að koma málinu fram í tæka tíð. Ég veit, að það eru ýmsir, sem vilja rjúfa þetta samkomulag og eru þess vegna á móti því, að frv. verði samþ. Þeir vilja rjúfa þetta samkomulag til þess að hafa óbundnar hendur í kjötverðlagsn. og mjólkurverðlagsn. Þetta eru menn, sem vilja vinna skemmdarstarf í þjóðfélaginu og rjúfa þá gerð, sem komin var milli framleiðenda og neytenda. Ef hv. 2. þm. Skagf. vill drepa þessa till., er hann fylgdi á síðasta þingi, er hann með því að eyðileggja það samkomulag, sem gert var.

Ég vil að síðustu undirstrika það, að hvað sem um aðrar brtt. verður sagt, er brtt. hv. þm. a.Húnv. á þann veg, að verði hún felld, er sennilega búið að rjúfa það samkomulag, sem gert var, eyðileggja þann grundvöll, sem dýrtíðarl. frá 1942 voru byggð á. Það er alveg gersamlega þýðingarlaust fyrir þá hv. þm., sem vilja fella þessa brtt., að halda því fram, að þeir geri það af því, að þeir vilji bjarga þessu frv. Það eru vitanlega hlægileg rök að halda slíku fram. Ég hef heyrt, að þessi grundvöllur verði rofinn, og ég veit, að samtökum neytenda mun verða beitt til þess að hindra það, að gengið verði á rétt launþega með verðbólgu, sem einhver n. leikur sér að því að skapa. Samtökum neytenda verður beitt til þess að hindra slíka á, rás á launastéttirnar.