07.03.1944
Neðri deild: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

66. mál, barnaspítali

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Ég skal ekki tefja þessar umr., en vegna þess að ég var ekki viðstaddur 1. umr., vildi ég leyfa mér að segja hér nokkur orð í tilefni þessa frv., þar sem þetta er annað frv., sem kemur fram um svipað efni, sem sé að vissum aðilum er gefin undanþága á skatti, þegar um gjafir er að ræða. Út af fyrir sig hef ég ekkert við það að athuga, að slík heimild geti verið til staðar, en tel hins vegar mjög óheppilegt, að það séu sett l. hvað eftir annað um það að heimila ákveðnum aðilum, að þeir skuli öðlast þessi hlunnindi. Þetta hlýtur að enda með því; að það kemur fjöldi af slíkum umsóknum, sem þingið að lokum getur ekki sinnt. Þetta getur beinlínis orðið hættulegt fyrir afkomu ríkissjóðs, eins og nú standa sakir, þegar margir skattþegnar hafa svo háar tekjur, að 90% af tekjum þeirra eru teknar í skatt, ef komið er yfir visst mark. Þess vegna eru það að sumu leyti gjafir frá ríkissjóði, þegar fégjafir eru gefnar samkvæmt svona l., og tel ég því ákaflega varhugavert að fara inn á slíka braut.

Mér finnst frekar ætti að fara inn á þá leið að gefa almennar heimildir í skattalögunum, þar sem menn mega að vissu marki gefa gjafir til vissra, viðurkenndra fyrirtækja eða stofnana, og að þær gjafir væru ekki háðar skatti, heldur taldar með rekstrarkostnaði.

Þetta álít ég einu leiðina, sem hægt er að fara til þess að styrkja slíkt fyrirtæki sem þetta, sem ég tel, að sé þjóðþrifafyrirtæki, hina leiðina, að gefa út l. í hvert skipti, þegar slík tilfelli sem þetta rísa upp, tel ég mjög varhugaverða.