25.02.1944
Neðri deild: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. — Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkra grein fyrir því af minni hálfu og Alþfl., hver stefna mín og flokksins væri yfirleitt um að, hvernig framtíðarskipulag á stjórnarháttum Íslands ætti að vera. Ég skal ekki rifja það upp hér, en láta mér nægja að benda á, að Alþfl. hefur fyrir sitt leyti margoft lýst yfir, að markmið hans væri að vinna að því. að lýðveldi væri stofnað á Íslandi. Um það atriði eyði ég því ekki fleiri orðum á þessu stigi málsins, en skal með nokkrum orðum víkja að málinu, eins og það liggur nú fyrir hér í hv. d.

Öllum hv. þingheimi er kunnugt, að í stjskrnefndum beggja d. hefur nú náðst samkomulag, bæði um aðferðina við niðurfellingu sambandslagasamningsins og eins um afgreiðslu á lýðveldisstjskr. svo langt sem það nær. Ég vil taka það fram, að mér, sem átt hef sæti í þessari n. af hálfu Alþfl. og í undirnefnd, sem starfað hefur að þessum málum, er ánægja að því að lýsa yfir; að þeir menn, sem starfað hafa með mér í n. af hálfu Framsfl. og Sjálfstfl., hv. þm. Str. og hv. þm. G.-K., hafa ótvírætt sýnt það, að þeir hafa viljað ná sameiningu og samkomulagi um lausn málsins á þessu þingi. Og sú lausn liggur nú hér fyrir. Ég lýsti einnig yfir því við 1. umr. þessa máls og við frumumr. málsins um niðurfellingu sambandslagasamningsins, að Alþfl. kysi ekkert fremur fyrir sitt leyti en að sameiginleg lausn fengist á þessum málum og að það væri langlíklegast til þess, að þau færu vel og viturlega úr höndum okkar, þegar nú er komið að lokastiginu.

Ég skal aðeins víkja að nokkrum atriðum í till. og áliti stjskrn., sem hér liggur fyrir. Og þá er það fyrsta, sem ræðir um í nál., að þar er gerð skýr og glögg grein fyrir því, að stjskrnefndir hafi verið vissum takmörkunum háðar í starfi sínu nú, þar sem þær hafi orðið að halda sér innan þess sviðs, sem markað er í stjskrbreyt. frá 15. des. 1942, og að aðrar breyt. væri ekki að þessu sinni hægt að gera á stjskr. Íslands en þær, sem beinlínis leiddi af því, að konungsveldi væri niður fallið og lýðveldi reist í staðinn. En eins og hv. frsm. hinna sameinuðu stjórnarskrárn., — þ.e. frsm. þeirra hér í d., — tók fram og fram kemur í nál., þá er það skoðun allrar n.; að vinna beri að því hið bráðasta nú á eftir, að fram fari gagngerð endurskoðun á stjskr. Og ég vil sérstaklega undirstrika þetta atriði af hálfu þess flokks, sem ég tilheyri. Alþfl. hefur fyrir sitt leyti gert um það ályktun á síðasta flokksþingi sínu, að hann teldi mikla nauðsyn bera til þess, að gerð yrði mjög gagngerð endurskoðun á stjskr. Þar af leiðandi vil ég láta það koma fram, að ég tel sjálfsagt, þegar búið er að ganga frá þeim málum, sem nú liggja hér fyrir, niðurfellingu dansk-íslenzka sambandslagasamningsins og stofnun lýðveldis, að þá eigi að snúa sér að því með mikilli alvöru að endurskoða rækilega stjórnskipunarlög Íslands.

Þá er það og tekið fram í nál., eins og líka var næsta auðsætt, að ýmsar breyt., sem rætt var um í hinum sameiginlegu stjskrn., voru þannig, að nokkuð sýndist sitt hverjum, og ýmsar brtt. komu fram í n., sem náðu ekki samþykki meiri hl. n., og aðrar brtt. voru samþ. með meiri hl., en á móti misjafnlega sterkum minni hl. Af þessu leiðir að sjálfsögðu, að margir nm. hefðu kosið sumt í frv. öðruvísi en nú liggja fyrir till. um í nál. En það er réttilega tekið fram í nál., að nm. voru allir á einu máli um það, að þótt einstakar till. þeirra hefðu ekki náð fram að ganga í stjskrn., þá létu þeir það ekki ganga út yfir málið í heild á þann hátt, að þeir væru andvígir því, að stjskr. yrði samþ. Ég tek það fram fyrir mitt leyti, að ég hefði kosið að hafa suma hluti nokkuð öðruvísi en til er tekið hér í frv. og till. nefndanna. En eins og ég sagði áðan, leiðir það að sjálfsögðu ekki til þess, að á móti málinu verði snúizt. En það er líka tekið fram í nál., að ef brtt. koma fram hér í hv. d. við frv., aðrar en þær, sem í nál. eru, um þau einstök atriði, sem ágreiningur varð um innan stjskrn., þá munu atkv. skera úr hér í hv. d. og á Alþ. yfirleitt um það, hvað ofan á verði, hvort það verði það sama og varð í n.

Þá vil ég sérstaklega minnast á tvö atriði, sem ég hefði kosið að hafa nokkuð á aðra lund en gert er ráð fyrir, eins og málið liggur fyrir nú. Hv. frsm. minntist réttilega á það í ræðu sinni, að það hefði verið ýtarlega athugað í n., á hvern hátt bezt yrði fyrir komið kjöri forseta. Og þegar nm. voru, að ég ætla, nokkurn veginn á einu máli um það, að forsetinn skyldi vera þjóðkjörinn, en ekki þingkjörinn, þá var um það rætt, á hvern hátt því yrði bezt og tryggilegast fyrir komið. En niðurstaðan varð eins og brtt. sýna, sem hér liggja fyrir. En eins og líka tekið er fram í nál., þá voru margir í n. óánægðir yfir því, að ekki væru enn þá fleiri atriði sett inn í stjskr. til þess að tryggja, að forseti hefði hverju sinni meiri hl. greiddra atkv. í kosningunni. Þó að við allir gætum vonað það, eins og fram kemur í nál., að forsetakjöri og undirbúningi undir það yrði háttað á þann veg, að forseti yrði kosinn með meiri hl. greiddra atkv., þá er engin trygging fyrir því, eins og kveðið er á um forsetakjörið eftir brtt. n. Hv. 2. þm. Reykv. minntist einmitt á till., sem sósíalistar í n. báru fram og ég fyrir mitt leyti gat fylgt, og það var að láta kjósa upp aftur, ef ekki yrði náð meiri hl. atkv. á einn mann í frumkosningu. En það fyrirkomulag átti ekki að fagna fylgi meiri hl. í n. — Einnig var rætt nokkuð um aðra aðferð, að í frumkosningu og einu kosningu gæfist kjósendum kostur á að velja einn frambjóðanda sem aðalmann og annan til vara, þannig að leggja mætti saman aðal- og varaatkv. við forsetakjör, til þess að nokkurn veginn væri tryggt, að einn frambjóðandi hefði samanlagt meiri hl. aðal- og varaatkv. í kosningunni.

Ég skal ekki segja, hvort einhverjar brtt. koma fram í hv. þd. við frv. þetta við 3. umr. málsins. En ég fyrir mitt leyti hef ekki talið rétt af mér sem nm. að bera fram neina brtt., ef aðrir nm. gerðu það ekki, og vildi ég fara þar um eftir því, sem yfirleitt yrði fylgt af nm. hálfu. En menn eru, eins og í nál. er tekið fram, nokkuð óbundnir um það, ef einhverjar slíkar brtt. kæmu fram um það, sem skiptar skoðanir voru um í n., áður en hún afgreiddi málið hér inn í þingið.

Þá skal ég geta þess, að í bráðabirgðaákvæðinu, sem stjskrn. lögðu til, að sett yrði inn í þessa stjskr., um val fyrsta forsetans, þá hafði ég fyrir mitt leyti líka um það sérstöðu. Ég hefði fyrir mitt leyti kosið, að kjörtímabil ríkisstjóra yrði framlengt, þangað til hægt væri að koma við fyrstu kosningu á forseta lýðveldisins. En skoðun mín um það atriði varð ekki ofan á í n., og er því till. hér um það efni frá n., eins og mönnum er kunnugt. Ég mun ekki á þessu stigi sjá ástæðu til að rökræða um það neitt af minni hálfu, hvort sé heppilegra, en ég nefni þetta aðeins sem dæmi þess, að innan n. voru nokkuð mismunandi sjónarmið, eins og oft er um ýmis atriði, sem eru ekki þó aðalatriði máls. Og það er eðlilegt í slíkri n., að meiri hl. atkv. skeri úr, þar sem allir nm. voru loks á einu máli um það, að mikilvægi málsins sjálfs væri svo stórvægilegt, að ýmis aukaatriði og deilur um þau yrðu að lúta í lægra haldi.

Þá skal ég minnast á það atriði, sem í þessu máli hefur helzt sætt umr. í hv. þd., og það er brtt. n. eða meiri hl. n., sem er sameiginleg till. flokksmanna Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. í n. um að hafa gildistökudag stjskr. ekki ákveðinn í stjskr. sjálfri, heldur láta Alþ. ákveða hann, eftir að stjskr. hefur hlotið samþykki við þjóðaratkvgr. — Í nál. eru færð fram þau rök, sem ég fyrir mitt leyti vildi benda á, þessu til stuðnings, þau rök, sem ég flutti einnig við 1. umr. þessa máls hér í hv. d. Ég álít það alveg ástæðulaust að endurtaka þau hér. Um leið og ég vísa til þessa rökstuðnings í nál., vil ég mega gera ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. geri sitt ýtrasta til þess að ná sambandi við konung, áður en Alþ. ákveður endanlega um gildistökudag stjskr. Vel mætti svo fara, að unnt yrði að stofna lýðveldi á annan, öruggari og glæsilegri hátt, ef svo yrði gert. Og ég tek fram fyrir mitt leyti, að þó að ég hafi ekki viljað binda gildistöku stjskr. á þessu stigi málsins ófrávíkjanlega við 17. júní 1944, þá get ég ekkert sagt um það nú á þessu stigi málsins og nú á þessum degi, hvernig málið muni horfa við, þegar sá dagur nálgast. Og vel má vera, að ég gæti greitt atkv. með því, að stjskr. öðlaðist gildi þennan dag. Eins og málum er nú háttað, er að mínu viti aðeins ástæða til að gleðjast yfir því, að í þessum tveim þáttum þessa máls, sem almennt hefur verið kallað sjálfstæðismálið, hefur nú tekizt það samkomulag innan Alþ., sem allt bendir til, að skapi fullkomna þjóðareiningu. Ég tel, að með því móti sé rutt úr vegi ýmsum vandkvæðum og að miklu meiri og sterkari líkur séu fyrir því, þegar við stofnum lýðveldi á Íslandi, að það verði fyrir þessar sakir gert á traustari og öruggari grundvelli en ella hefði orðið, og að í sambandi við það geti orðið meiri þjóðarvakning og mjög æskileg þjóðarvakning og afstaðan út á við verði öll sterkari og litið verði á aðgerðir okkar í þessum málum sem aðgerðir einhuga þjóðar, sem veit, hvað hún vill, og vill gera það, sem rétt er og eðlilegt að gera. Með því móti gætum við aukið þjóðareiningu okkar inn á við og skapað okkur það, sem æskilegast væri: traust og álit út á við, um leið og við stofnuðum okkar íslenzka lýðveldi.