25.02.1944
Neðri deild: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Pétur Ottesen:

Mér þykir ástæða til að gera á þessu stigi málsins nokkra grein fyrir því, að ég hef sérstöðu um eitt veigamikið atriði í því lýðveldisstjskrfrv., sem liggur hér fyrir, sem tekið hefur breyt. í meðförum þeirrar n., er hefur haft þetta mál með höndum. Mér þykir þetta atriði vera þess eðlis og svo mikið atriði í þessu máli, að ástæða sé til þess að gera grein fyrir afstöðu minni til þess máls.

Ég vil mjög taka undir þær sigurvonir, sem fram hafa komið í ræðum manna um þetta mál. En mér þykir mjög miður, að það er eins og það komi fram hjá sumum, sem hafa verið að tala um sigur þessa máls, að það er eins og þetta mál hafi ekki verið sigurvænlegt, áður en sú skipan varð á því, sem varð á við meðferð þeirrar n., sem nú hefur haft málið með höndum. Ég vil ekki taka undir þetta, því að málið, eins og það var borið fram, var borið fram til sigurs. En ég vil draga í efa, hvort fyrir það samkomulag, sem hér varð á, er tryggður nokkru öruggari sigur en gert var, áður en þetta samkomulag fékkst.

Þetta mál stóð þannig áður, að vitað var, að innan þingsins voru nokkuð skiptar skoðanir um meginatriði þess, sem tók bæði til þáltill. um uppsögn samningsins og líka til stjskrfrv. Mér skilst, að þessi ágreiningur sé engan veginn úr sögunni þrátt fyrir þetta samkomulag, sem hér er talað um, og mér virðist, að að því leyti, sem þessi nýja aðstaða á að verða til þess að verka á hugsun kjósenda í sambandi við afgreiðslu málsins, þá sé vafasamt, hvort hún er líklegri til þess að hafa áhrif á afgreiðsluna en sú aðstaða, sem áður var.

Í þessu samkomulagsplaggi, sem n. hefur gefið út, er tekið fram af tveimur þeim aðilum, sem standa að þessu máli, Framsfl. og Sjálfstfl., að þótt þeir gangi nú með því að fella niður úr frv., að það skuli taka gildi 17. júní, þá ætla þeir sem áður að styðja eindregið að því, að þetta verði gert. Fulltrúi Alþfl. segir í grg. sinni, að hann hafi ekki hvikað um eitt fótmál frá því, sem hann hélt fram við 1. umr., að það kæmi ekki til greina að láta stjskr. taka endanlega gildi öðruvísi en hægt verði fyrst að ná tali af konungi, svo að að því leyti stendur hann þrátt fyrir samkomulagið nákvæmlega á sama grundvelli og við 1. umr. og í gersamlegri andstöðu við þá menn, sem hafa borið þetta mál fram og ætlazt til, að stjskr. taki gildi, án þess að samræður verði að nokkru leyti hafðar við konung. Í þessu sambandi vildi hv. þm. skora á hæstv. stj. að nota tímann til þess að ná tali af konungi um, hvaða afstöðu hann hefði til þessa máls. Og með tilliti til þess, að hæstv. dómsmrh. fór í ræðu sinni að bollaleggja um það, hvernig konungur mundi svara þessu, hvort hann mundi segja já eða nei, og einnig í tilefni af fyrirspurn hv. 4. þm. Reykv. vil ég spyrja hæstv. ríkisstj.: Ætlar hún að leita álits konungs um, hvernig hann taki því, að hér verði stofnað lýðveldi? Ég óska að fá skýr svör undir umr. frá hæstv. stj. um þetta atriði.

Í þriðja lagi kemur svo yfirlýsing frá Sósfl. um, að hann standi gersamlega á sama grundvelli og áður, og telur, að af þessu samkomulagi geti stafað hætta.

Ég verð að segja, að þegar þetta nál. er lesið upp og tilkynnt þjóðinni, þá ber það allt annað en þann samkomulags- og eindrægnisblæ, sem verið er að tala um, að sé í þessu máli. Ég held, að þjóðin sé í miklu meiri vafa um afstöðuna í þessu máli og hvernig málið horfir við en hún var, áður en farið var að ræða það á þessum grundvelli. Þá lá það ljóst fyrir. Þá voru menn ákveðið með og aðrir á móti. Nú teljast allir vera með, en hver með sínum fyrirvara. Ég held því, að engan veginn sé vafalaust um afstöðuna til málsins, þegar það hefur fengið þessa meðferð og er lagt þannig fyrir þjóðina. Þetta er þó sannarlega mikils vert atriði. Það er sannarlega mikils vert, að kjósendurnir geti verið öruggir um, að flokkarnir hafi komið sér saman. En þegar allir flokkar veifa og sveifla fólkinu kringum sig, þá ætla ég, að allir hugsandi menn vilji byggja afstöðu sína á því, hvernig málið er lagt fyrir og liggur fyrir nú, og það því fremur sem nú á að taka af þjóðinni þann rétt, sem þjóðin upphaflega átti að hafa og þingið á að ráða, hvenær stjskr. fær gildi. Þetta gefur kjósendum landsins því meiri ástæðu til að byggja á sínu eigin hyggjuviti og dómgreind, en er því sannarlega engin hvöt til að fylgja bendingum þeirra flokka, sem þeir telja sig fylgja að málum.

Hvernig er þetta mál, nú lagt fyrir þjóðina? Ég hef lýst því, sem við blasir. Það hafa verið gerðar miklar og rækilegar ráðstafanir, eins og rétt var, til að koma þessu máli til eyrna allrar þjóðarinnar með því að lesa það þrásinnis upp í útvarpið. Og hvernig horfir þetta mál þá við, þegar menn eiga að dæma um það út frá eigin hyggjuviti, eins og það er lagt fyrir fólkið? Ég býst við, að mörgum verði á að spyrja: Hvernig stendur á því, að fellt er niður úr frv., að stjskr. verði látin ganga í gildi 17. júní? Þetta er a.m.k. ekki venjuleg aðferð til að afgr. mál, að láta hlutina reka sig svo rækilega hvern á annan. — Menn munu enn fremur spyrja: Hvernig stendur á því, að hv. 4. þm. Reykv., sem hélt fram og heldur enn fram, að ekki megi staðfesta lýðveldisstjskr., fyrr en hægt hefur verið að ná tali af konungi, — og þetta taldi hann, að nú væri útilokað, — hvernig stendur á því, að hann, sem hefur þessa afstöðu, getur gert svona samkomulag? Þegar samtímis því, sem þetta er gert, þá er lýst yfir því, að það hafi enga breyt. í för með sér, því að lýðveldisstjskr. verði látin ganga í gildi þennan dag. Og þá kemur vitanlega fram þessi spurning meðal þjóðarinnar, hvernig á þessu geti staðið.

Hvernig stendur á því enn fremur, spyrja menn líka, að hv. 4. þm. Reykv. gerir annars vegar þennan reginmun á því, að það standi í stjskr. sjálfri, að hún taki gildi 17. júní 1944, og hins vegar, að það standi þar ekki, en því sé samt sem áður lýst einfaldlega yfir í nál., að svo verði gert, þegar það er vitað, að jafnmikill fjöldi þm. stendur á bak við lagasetninguna um þetta efni sem á bak við þá yfirlýsingu, er fram er .komin í nál.? — Þetta nálgast það í augum manna að vera blátt áfram hinn óttalegi leyndardómur.

Það er ekki langt að minnast þess, að eftir að þetta samkomulag varð í stjskrn., þá lögðu allir í n. aðrir en hv. 4. þm. Reykv. (StJSt) fram þáltill., þar sem lagt var til að kjósa n. manna til þess að undirbúa hátíð á Þingvöllum 17. júní næstkomandi, sem þá átti að fara fram, um leið og lýðveldisstjskr. öðlaðist staðfestingu. Nei, þarna var að áliti hv. 4. þm. Reykv. allt of langt gengið, — hann var á móti því, að þetta væri samþ. hér á hæstv. Alþ. Hann var á móti því, að þetta væri lögfest, og líka á móti því, að það væri staðfest, þó að í þál.formi væri. Og hann vann sitt mál, því að til þess að fá það samkomulag, sem hér er til staðar um málið, þá flýðu þeir þrettán menn, sem að þessari þáltill. stóðu, að einum eða tveimur undanskildum, á náðir ríkisstj. og fóru fram á það við hana að gera það, sem er óvenjulegt, að nokkur ríkisstj. geri, að hún óskaði þess, að málinu yrði vísað til hennar. Með því móti var hægt að komast hjá því, að Alþ. gerði nokkra ályktun. — Ég dreg þetta fram hér til þess að sýna, hvaða reginmun hv. 4. þm. Reykv. gerir á því annars vegar, að um þetta sé gerð samþykkt í l. eða þál. á Alþ., eða hins vegar, að það standi sem einföld yfirlýsing í nál., og þá jafnframt kemur fram í ræðum manna hér á Alþ.

Ég býst við því, að kjósendum landsins þyki þetta hálf-einkennilegt fyrirbrigði í þessu stóra máli og þeir þykist þurfa að fá á því skýringar. Það er engin skýring til á þessu önnur en sú, að hv. 4. þm. Reykv. álíti, að með þessu sé farin miklu greiðfærari leið eða þarna sé opin leið, sem annars væri lokuð, fyrir sig til þess að fá því til vegar komið, að ekki fari fram staðfesting á stjskr., fyrr en búið er að tala við konunginn. Hann gerir þann reginmun á þessari tvenns konar afgreiðslu málsins, hvað þetta snertir. En ef ekki er lagður þessi skilningur í það, þá verður þessi afstaða hv. 4. þm. Reykv. gersamlega óskiljanleg.

Og þá er að athuga þetta: Er það nú virkilega svo, að hv. 4. þm. Reykv. sé svo glámskyggn, að á þessu sé enginn munur? Eða er það svo, að þeim mönnum úr meiri hl. í stjskrn. hafi glapizt sýn í þessu máli? Annað hvort er. Og ég held nú satt að segja, að það sé frekar það síðartalda, sem hér hefur orðið, því að málstaður þeirra var góður, en hinn málstaðurinn var illur og er illur. Við 1. umr. sýndu þeir það ljóslega, sem töluðu af hálfu fylgjenda þessa máls á þeim grundvelli, sem það var borið fram, og þar má nefna, að hv. 10. landsk. (GSv), hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) og hv. þm. G.-K. (ÓTh) sýndu mjög greinilega fram á það — og miklu betur en ég hef á mínu valdi að gera —, hvað það væri hættulegt að taka þetta ákvæði út úr sjálfri stjskr. Þeir sögðu, að það kæmi ekki til mála. Ég vil benda á það, sem hv. 10. landsk. (GSv), forseti sameinaðs þings og formaður í þessum stjskrn. sameinuðum, sagði. Hann sagði m.a., að það væru engar líkur til samkomulags, sem fæli í sér nokkurt hik eða undanhald í þessu máli. Hann sagði, að stjskr. yrði samþ. tímanlega á árinu slindrulaust og eigi síðar en 17. júní n.k. Hann sagði enn fremur um þetta tal hv. 4. þm. Reykv. um að spyrja konunginn eða tala við konunginn, að það að spyrja konunginn væri alveg það sama í þessu tilfelli og ef fullvalda ríki færi að spyrja annað fullvalda ríki um það, hvort það vildi nú ekki ráða yfir sér. Svo mikla fjarstæðu taldi hv. 10. landsk., forseti sameinaðs þings og formaður sameinaðra stjskrn., að fara að tala við konunginn um þetta atriði. Og það ætla ég líka, að sé nokkuð rétt hjá honum. — Hv. 2. þm. S.M. lagði réttilega á það áherzlu, að það væri meginatriði í þessu að slíta ekki þessi mál í sundur, og átti hann þá við það, hvað stjskrfrv. snerti, að í eitt og sama skipti væri ákveðið efni og innihald stjskrfrv. og þá líka það, hvenær stjskr. öðlaðist gildi.

Ég er ákaflega hræddur um það, að eins og þetta mál er lagt fyrir þjóðina eftir meðferð n. á því, þá verði þessi afstaða hv. 4. þm. Reykv., sem mótar afgreiðslu málsins, mönnum ákaflega torskilin, enda eru farnar að koma fram raddir um það frá mönnum, sem fylgzt hafa vel með afgreiðslu málsins. Þeir segja bara: Eftir þetta botnum við ekki neitt í neinu. Við skildum afstöðuna, sem áður var, — hún var hrein. Sumir voru með, og það var meiri hluti þjóðarinnar, aðrir á móti, en það var ekki nema örlítið brot. Það var hrein og eðlileg afstaða, eins og hún kemur fram daglega manna og flokka á milli, — því að menn gera ekki ráð fyrir, að það sé verið að leika skollaleik hér á hæstv. Alþ. Menn gera ekki ráð fyrir því. Menn líta — enn sem komið er — allt öðrum augum á stofnunina en þannig, að þeir álíti, að slíkt geti átt sér stað.

Svona horfir þá málið við eftir þessa atkvgr. Ég er þess vegna blátt áfram hræddur við það vegna þess, hvernig þetta mál hefur verið fram sett, að menn líti á þá einingu, sem hér er talað um, fremur smáum augum, þannig að glundroðinn, sem kemur hér fram, verði í hugum fólksins yfirsterkari einingunni, og er það sannarlega hættulegt atriði.

Og þá er eftir að athuga, hvernig þetta lítur út út á við. Það er fylgzt vel með því í útlöndum, a.m.k. á Norðurlöndum, hvað verið er hér að gera í þessu máli, enda hefur því verið haldið fram af hv. 4. þm. Reykv. og líka af svo kölluðum Varðbergsmönnum, að okkur mætti sannarlega ekki sjást yfir, hvað frændþjóðir okkar á Norðurlöndum legðu til málanna. Og það hefur ekki verið lagt í lágina af þeim mönnum, sem andæfa gegn þessum sjálfstæðismálum, eins og stefnt hefur verið að því að afgreiða þau hér á Alþ. Nú sagði hæstv. dómsmrh. hér áðan, að fregnir um afgreiðslu málsins mundu brátt berast til Svíþjóðar og svo frá Svíþjóð til þeirra landa, sem fregnir annars berast til frá Svíþjóð. Og hvernig lítur þetta þá út gagnvart þeim þjóðum? Hafi þessir menn ekki vitað það áður, að tekið var í frv. til lýðveldisstjskr. ákvæðið um, að hún öðlaðist gildi 17. júní 1944, þá fá þeir fregnir af því, að þetta ákvæði hafi verið í stjskrfrv., en hafi verið tekið burt úr því. Og það getur verið, að fregnin berist um það þangað út, að þrátt fyrir yfirlýstan vilja Alþ. um að láta stjskr. öðlast gildi þann dag hafi þetta ákvæði verið tekið út úr stjskrfrv. eigi að síður. Ég býst nú við, að þeir menn standi á svo föstum fótum um þingræði, að þeir leggi meira upp úr því, sem gert er með samþykkt á Alþ. en með yfirlýsingu. Og hvernig lítur þetta þá út í augum þeirra manna, sem úti í löndum leggja hlustirnar við um mál Íslendinga? Þeir geta ekki dregið aðra ályktun af þessu en þá, að það sé eitthvert hik komið á okkur í þessu máli, a.m.k. að því er snertir það að afnema konungdóm á Íslandi. Það þarf ekki að slá neinum skugga á það, að við ætlum að segja upp sambandslagasamningnum. En það er bara ekki nema annar þáttur frelsisbaráttu okkar. En að hika við að slíta konungssambandinu getur orðið til þess, að þessir menn úti í löndum, sumir hverjir, hugsi sem svo: Ætli það séu ekki aðvaranir okkar, sem hafa valdið því, að hik er komið á Íslendinga? — Og það væri þá ekki undarlegt, að þeir menn erlendis, sem hafa litið á sig sem einhverja frelsandi forsjón í þessu máli fyrir okkur, vildu fylgja því betur eftir, þar sem þeir álitu þá kannske, að gætt hafi áhrifa frá. þeim. Ég skal ekkert fullyrða um þetta, en ólíklegt er það ekki.

Ég held þess vegna, að bæði inn á við og út á við sé sú breyt., sem hér hefur verið gerð, meira og minna varhugaverð, þ.e. að kippa þessu ákvæði út úr frv., frá því sjónarmiði, hvernig það verkar á hugi manna hér á landi og á hugi manna annars staðar, þeirra manna, sem hafa sýnt, að þeir eru allir af vilja gerðir um að hafa áhrif á mál okkar, þrátt fyrir það að þeim komi það ekki nokkurn skapaðan hlut við. Ég ber nú samt þá von í brjósti, að þrátt fyrir það að einhverjar viðbótaraðvaranir kunni að koma frá öðrum til okkar Íslendinga og að gengið væri e.t.v. á lagið nú þannig, að þeim fylgdi meiri þungi en áður hefur fylgt slíkum aðvörunum, þá beri íslenzk a þjóðin gæfu til að standa af sér slíka íhlutun og afskipti. En ég vil segja það, að það er varhugavert af. Íslendingum að vera að gera nokkuð það, sem gefur slíkri íhlutun eða afskiptum undir fótinn. En það má hiklaust halda því fram, að verið sé að gefa þannig undir fótinn með því á þessu stigi málsins að taka þetta ákvæði um gildistökudaginn úr stjskrfrv. Og þær yfirlýsingar, sem eiga að koma þar í staðinn, vega alls ekki á móti því, að þetta ákvæði sé í stjskr. sjálfri, allra sízt að því er snertir álit útlendinga á þessu atriði málsins.

Það getur vel verið, að það sé skýring á afstöðu hv. , 4. þm. Reykv. í sambandi við þetta atriði, þar sem hann sækir mál sitt svo fast, að hann vilji, að engu sé slegið föstu um framkvæmd lýðveldisstjskr. hér á landi, þangað til búið sé að tala við konung, af því að það geti verið stuðningur í þeirri baráttu, sem hann berst. Það hefur sýnt sig, að þeir Íslendingar eru til, sem drepa vilja málinu á dreif.

Þegar afstaða var tekin í þessu máli um mánaðamótin nóv. og des. s.l., 1943, þá var ekkert hik hjá þeim þremur þingflokkum, sem þá afstöðu tóku. Hefur þá nokkuð komið frsm, sem sýni, að þessi aðferð, sem um upptöku málsins og framburð hér á hæstv. Alþ. hefur verið höfð, byggist á nokkrum rökum? Nei. Allt, sem upplýst hefur verið síðan, bendir í þá átt, að málið var miklu vissara til sigurs en menn í þessum flokkum höfðu gert sér vonir um, þ.e.a.s., þeir vissu samt um sigurinn fyrir fram. Og á hverju byggðist það? Á því, að eftir að farið var að ræða málið á Alþ., kom í ljós, að afstaða fólksins víðs vegar úti um land var þannig, — og það upplýstist mjög greinilega í sambandi við 1. umr. málsins hér á hæstv. Alþ., — að vitað var um enn þá eindregnara fylgi við skilnaðarmálið og stjskrmálið en áður hafði verið vitað — og það með ákvæðinu um gildistökudaginn 17. júní 1944.

Þá kom það mjög greinilega í ljós, þegar farið var að afla sér upplýsinga um vilja fólksins víðs vegar úti um land, að eini stjórnmálaflokkurinn, Alþfl., sem hafði á Alþ. tekið afstöðu til málsins á þeim grundvelli, að ekki skyldi ákveða gildistökudaginn í stjskr., — hann var skiptur í málinu. Hér í hv. Nd. töluðu þrír hv. þm. í málinu af hálfu þess flokks. Tveir af þeim andæfðu málinu, og aðalþunginn í því efni hvíldi á hv. 4. þm. Reykv. En einn þessara þriggja Alþfl.-manna tók nákvæmlega í sama streng og meiri hl. hv. þd. og lýsti sig eindregið fylgjandi afgreiðslu málsins á sama grundvelli og meiri hl. d. vildi vera láta. Var það hv. 3. landsk. (HG), og í raun og veru lagði enginn þyngri högg að afstöðu hv. 4. þm. Reykv. en sá hv. þm., hans eigin flokksbróðir.

Nú hefur það upplýstst, síðan þetta skeði, að úti um land er afstaða Alþfl. þannig, að hér um bil allur Alþfl. þar er fylgjandi hv. 3. landsk. þm. (HG) og stefnu hans í málinu. Hinir, sem fylgja hv. 4. þm. Reykv. að málum í þessu efni af Alþfl.mönnum úti á landi, eru ekki nema örlítið brot. Ég held, að hv. þm. G.-K. hafi komizt svo að orði, að þeir, sem fylgdu hv. 4. þm. Reykv. að málum í sambandi við stjskrfrv., væru fáir menn í engum flokki, svo að ég álít, að þar hafi ekki verið neitt að óttast um andstöðu gegn málinu, sem nokkru skipti, en gat hins vegar verið nokkur hvatning fyrir þjóðina í heild til að standa enn betur saman og hvatning fyrir þá, sem börðust fyrir málinu. Íslendingar eru svo, að þeir þurfa nokkra hvatningu. En hættan var engin vegna þessarar andstöðu við atkvgr. Það var því ekkert, sem sérstaklega knúði á um það, að farið væri að gera það samkomulag, sem e.t.v. hefur það í för með sér að stofna málinu nú enn í nýja hættu.

Og hvað nær svo þetta samkomulag langt? Það er útlit fyrir, að menn standi saman við þessa þjóðaratkvgr. En eftir þessu nýja samkomulagi á það ekki að vera úrslitaatkvgr. Samkvæmt stjskrfrv. átti úrslitaatkvgr. að vera utan Alþingis. En ef þetta samkomulag, sem hér hefur nú verið gert, verður ofan á, þá eru, eftir að þjóðaratkvgr. hefur farið fram, enn eftir tvær atkvgr. á Alþ. um þetta mál.

Mér skilst, þar sem svo mikill þungi er lagður . á það af hv. 4. þm. Reykv., að ná beri tali af konunginum, áður en stjskr. er látin öðlast gildi, að ekki væri ólíklegt, að menn sem hann hlustuðu nú eitthvað eftir því, hvort hann segði já eða nei. Það væri ekki ólíklegra en að leggja svo mikla áherzlu á, að ná beri tali af honum. Og þrátt fyrir þetta samkomulag þá stendur þetta opið. Og ég tel, að niðurfelling ákvæðisins um, að stjskr. taki gildi 17. júní, sé ekki neitt til aukinnar tryggingar frá því, sem áður var, til þess að fullnægjandi atkv æðamagn fáist með málinu inn á við, og þess vegna sé ágreiningur um þetta mál á Alþ., ef hann á að verða, jafnógeðfelldur; hvort sem hann kemur fram nokkrum mánuðum fyrr eða síðar, ef hann verður ekki umflúinn. En það er ekkert, sem tryggir það, að ágreiningur komi ekki fram hér á hæstv. Alþ. á síðara stigi þessa máls. Í mínum augum verður því lítið úr þessari þjóðareiningu, sem verið er að tala um, að fáist með þessu samkomulagi, því að það var þjóðareining fyrir í málinu. Og ef þetta samkomulag verður ekki til þess að kasta skugga á þjóðareiningu um það, þá verður það ekki til þess að auka hana.

Svo er annað. Í stjskrfrv. því, sem hér liggur fyrir, er svo til ætlazt, að þjóðin eigi að greiða atkv. um það sem síðasti aðili, hvaða stjórnarform hún kýs sér. Nú á þjóðin að vísu eftir brtt. við frv. að ákveða þetta stjórnarform, — en bara ekki að ákveða, hvenær hún á að fara að búa við það. Það er Alþ., er á að gera þetta með samþykkt einnar þál., að því er virðist. Ef það ætti að gerast í lagaformi, þá ætti handhafi konungsvaldsins að staðfesta þau l., en afskipti úr þeirri átt eru ekki til að seilast eftir.

Það hefur verið talað hér um þjóðfund, og e.t.v. hefði verið æskilegt að afgreiða málið með þeim hætti. En að framkvæma þá till. á síðustu stundu kemur ekki til mála.

Ég býst við, að litið sé of smáum augum á þjóðina sjálfa með því að lofa henni ekki að greiða atkvæði skilyrðislaust um stjskrfrv., án þess að 17. júní ákvæðið sé tekið út úr því. Það segir til um, hvenær framkvæma skuli þessa löggjöf, og framkvæmd hverrar löggjafar er aðalatriði hennar.

Í rauninni er ekki hægt að taka konungsvaldið nema með byltingu, ef svo mætti að orði kveða í þess orðs beztu merkingu. Slík bylting er þjóðarnauðsyn. En hafa menn nokkrar spurnir af því, að aðili, sem gerir byltingu, feli öðrum aðila að kveða á um, hvenær sú bylting komi til framkvæmda? Hér er það þjóðin, sem gerir þessa byltingu, og svo á Alþ. að ákveða, eftir frv. að dæma, hvenær sú bylting verður. Þetta brýtur í bága við allt, sem menn hafa spurnir af í svipuðum tilfellum, — þessa eru engin dæmi. Þessar aðferðir eru ekki heldur þess eðlis, að verið sé að búa þannig að þjóðinni, að Alþ. sé að uppfylla skilyrði þess, að fyllsti réttur hennar sé viðurkenndur.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. En ég þykist nú hafa gert grein fyrir, hvers vegna ég get ekki greitt því atkv., að orðalagið „eigi síðar en 17. júní“ sé numið burt úr stjskr. Það gerir jafnvel ráð fyrir, að lýðveldisstofnunin fari fram fyrir þennan tíma.

Það, sem ég hef sagt, hef ég sagt af því, að ég fylgi þessu máli af heilum hug og vil, að það sé tekið þeim tökum, sem haldbezt reynast og sómasamlegust, því að að þeim verðum við að búa um ókomna framtíð. Það er einnig frá þessu sjónarmiði, að ég get ekki sætt mig við, að umrætt ákvæði sé tekið út úr stjskr. og málinu með því stefnt í þá hættu, að dráttur kunni að verða á því, að Íslendingar sjái þá langþráðu von sína rætast að verða frjálsir og óháðir og standa á eigin fótum.