28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

7. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Frv. það, sem nú er hér til meðferðar, var samþ. frá þessari hv. d. á síðasta þingi svo að segja orðrétt eins og það er nú á þskj. 7, og er næsta líklegt, eins og raun hefur orðið á, að sjútvn., sem er skipuð sömu .mönnum og hún var þá, sé enn sammála um að mæla með frv. í þeirri mynd, sem það er nú, og í þeirri sömu mynd og það var afgr. við 2. og 3. umr. frá þessari hv. d. á síðasta þingi. En þá skeði það, að hv. Ed. breytti frv. allverulega í vissum atriðum; hún felldi sem sé niður 5. mgr. 5. gr. og nam 6. gr. frv. algerlega burtu. Þessi ákvæði eru að dómi sjútvn. þessarar hv. d. einmitt mjög nauðsynleg, t.d. ákvæði 5. mgr. 5. gr. um það, að hafnarsjóður eigi allt það land, sem flýtur yfir með stórstraumsflóði. Þótt sams konar ákvæði séu raunar ekki í öllum hafnarl. og því síður í hinum eldri, finnast fordæmi fyrir því, að þau hafa verið tekin upp í nýrri hafnarl. af augljósum ástæðum. Það hefur komið fyrir við framkvæmdir á hafnarmannvirkjum, að fjöruborðið hefur jafnvel breytzt svo mjög, að aukizt hefur við landið, þar sem borizt hefur möl og því um líkt á land. Slíkt hef ég sjálfur séð á Sauðárkróki, og hið sama kvað eiga sér stað á Dalvík og ef til vill víðar. En þar, sem þannig háttar, að fjöruborðið breytist, og ef fjöruborðið liggur nú ekki aðeins í bæjarins eign, heldur líka í einstaklingseign, en breytingin skeður fyrir þær aðgerðir, sem bærinn hefur látið framkvæma, er ekki nema réttmætt, að bærinn eignist það land, sem myndast á þeim stað, þar sem áður var sjór. Þess vegna er þetta ákvæði réttmætt, sem fjallar um það, að hafnarsjóður eigi það land, sem flýtur yfir með stórstraumsflóði.

Þá mun ég snúa mér að 6. gr. frv., sem hv. Ed. gat ekki heldur við unað og nam algerlega í burtu úr frv., en hún fjallar um kostnaðarskiptingu á þessum stað, Siglufirði, milli eigenda einstaklingsmannvirkja og bæjarfélagsins. Þessi skipting getur sérstaklega komið til greina á Siglufirði, þar sem svo margar bryggjur og „plön“ eru, sem einatt eru byggðar að sjó og út í sjó, þannig að um leið og bærinn lagfærir fyrir sig, verður hann óhjákvæmilega að lagfæra fyrir þá, sem þar hafa eignarrétt eða leigurétt. Það er þess vegna nauðsynlegt að hafa í þessum l. sanngjörn ákvæði um hluttöku einstaklinga í þessum framkvæmdum bæjarfélagsins, sem miða að því í heild sinni að gera atvinnureksturinn tryggari á staðnum. Af þessum ástæðum féllst sjútvn. þessarar hv. d. á þessi ákvæði hér á síðasta þingi og þar með þau, sem nú eru enn tekin upp í frv., og er hiklaust mælt með því, að þau verði samþ. hér að nýju, hversu svo kann að fara, hvað viðhorf hv. Ed. snertir.

Að öðru leyti þarf ég ekki að fjölyrða um þetta frv., þar sem öll ákvæði þess hafa þegar fyrir skömmu verið samþ. í þessari hv. d., þótt það hafi verið á öðru þingi. Ég get þess vegna stytt mál mitt og látið algerlega staðar numið, að því er snertir önnur ákvæði frv., en vildi aðeins hafa sagt það til skýringar, sem nú hefur þegar verið sagt viðvíkjandi þeim gr. og ákvæðum, sem hv. Ed. vildi ekki fallast á á síðasta þingi, en hafa nú að nýju verið tekin upp í þetta frv.